10.03.1944
Sameinað þing: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í D-deild Alþingistíðinda. (4462)

72. mál, læknishéruð

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Læknaskipunin hefur verið svo mikið rædd undanfarið, að óþarfi er að bæta þar miklu við. Öllum eru kunnir þeir erfiðleikar, sem á því hafa verið hin síðari ár að sjá fyrir nægri læknisþjónustu, einkum í hinum fámennari héruðum. Nokkrar breyt. hafa verið gerðar á skipun læknishéraða með 1., sem Alþ. hefur samþ., en bæði er, að breyt. á þeirri löggjöf þykja orka tvímælis, og hitt, að miklu meiri þörf er á því nú en nokkru sinni fyrr, að bætt verði úr læknaskorti þar, sem hann er tilfinnanlegastur.

Álit flm. er það, að til þess að fá ráðið bót á þessu ástandi þurfi að taka skipun læknishéraðanna í landinu í heild til athugunar og þá líka annað, sem að þessum málum lýtur, og þá fyrst og fremst það, á hvern hátt megi gera starfsskilyrði lækna betri úti um land og starfið þar með eftirsóknarverðara en það hefur verið.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 209 vil ég segja það eitt, að ég tel hana alveg óþarfa. Það er ekkert sérstakt í till., sem ég er mótfallinn. Eina breyt. er sú, að bætt er inn í: „og þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við byggingu og rekstur læknabústaða og sjúkraskýla“, en þó er við það átt að tryggja með því, hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til þess að gera starfsskilyrðin betri og þessar stöður eftirsóknarverðari í augum dugandi lækna. Af því að þetta er skipun n., þarf ekki að taka það fram. Þar segir, að ríkisstj. skuli skipa nefnd. Þá þarf ekki að taka fram, að hún þurfi að skipa þriðja manninn. Ég sé ekkert á móti því, að þetta sé tekið fram. Ég hef sem sagt ekkert á móti brtt. hv. þm., en tel hana alveg óþarfa og hef ekki meira um hana að segja. Óska þess svo, með leyfi hæstv. forseta og Alþ.,till. sé ekki vísað til n.