20.06.1944
Sameinað þing: 35. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (4509)

80. mál, þjóðminjasafn

Flm. (Ólafur Thors):

Ég get tekið undir það, sem hv. meðflm. minn, hv. 2. þm. S.-M., sagði. Það vakir ekki fyrir okkur að skapa neitt fordæmi, þetta er þvert á móti fullkomin undantekning, og eins og hann svo ágætlega komst að orði, skoðum við þetta sem einn lið í hátíðahöldunum. Og ef Alþingi vill láta þetta ganga fyrir öðru, þá þurfum við ekki að óttast, að fjárhagsgeta sé ekki fyrir hendi. Það, sem fyrir okkur vakir, sem flytjum till. nú, er að fá þetta tekið út úr þeim almennu umr., sem ævinlega verða um, hvernig eigi að verja fjármunum ríkisins, þar sem ætíð koma fram margvísleg pólitísk sjónarmið, en við óskum, að slíkt komi hér ekki ti1 greina. Okkur langar til að lýsa yfir, að með þessu sé hinu unga lýðveldi gefin ofurlítil afmælisgjöf og þá um leið að prýða höfuðstaðinn fagurri byggingu, þar sem margir dýrmætustu gripir þjóðarinnar yrðu geymdir á öruggum stað og gætu orðið henni til gagns og gleði. Og ég vænti, að þótt hv. 2. þm. N.-M. hafi látið nokkur orð falla um formið á þessu máli, þá ljái hann því samt stuðning og geri það ekki að misklíðarefni.