22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (4524)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég vil ekki fara að deila við vin minn, hv. form. fjhn., um starfið í n. En ég er svo kunnugur því. og við vitum það báðir, að það var ekki eingöngu vegna þess, hvað n. væri störfum hlaðin, að þetta mál var ekki afgr. fyrr. Þó að n. hafi haldið 49 fundi og eigi sjálfsagt eftir að halda 50. fundinn, þá veit ég. að á einhverjum af þessum 49 fundum hefði auðvitað verið hægt að taka þetta mál fyrir með því að hafa fundinn ofur lítið lengri. Um þetta er ekki að sakast, og ég er ekki heldur að sakast um það við neinn, þó að málið hafi ekki verið afgr. fyrr.

Ég sagði það ekki. enda hafði hv. þm. það ekki heldur beinlínis eftir mér, að ég teldi, að hefðu verið brigðuð orð við bændur í þessu máli, en ég sagði, að ýmislegt hefði orðið bændum vonbrigði, og það er annað en að beinlínis hafi verið rofnir við þá samningar. Annars get ég látið nægja í því efni að vísa til samþykkta búnaðarþings í haust. Þar er lýst yfir að þeir vænti þess, að aðrar stéttir fari svipað að og þeir gerðu þá f. h. bænda. Hv. 7. landsk. segist heldur hafa viljað, að farið hefði verið eftir sex manna nefndar álitinu og þar með, að kjötið hefði í haust og vetur verið selt á 18 kr. kg og mjólk eftir því. Ég veit satt að segja ekki, hvort ég á að trúa því, að hann hefði fremur kosið þetta, en að vísu veit ég, að hv. þm. og hans flokkur munu nú óska þess, a.m.k. áður en hans flokkur fór með völd í landinu, að allt gengi sem örðugast, en þess er þó að gæta í þessu efni, að ef þetta hefði orðið, þá sé ég ekki, að hans flokkur eða nokkur annar flokkur hefði getað farið með stj. í þessu landi, en það er góð upplýsing hjá honum, að hann vill þetta og að þetta er hans sannfæring að hann segir, en samt mælir hann með þessu frv. og ætlar að samþ. það. M.ö.o., hann lýsir því beinlínis yfir, að hann ætli að samþ. hér á þingi annað en það, sem hann álitur rétt, en þó mun það vera svo ákveðið í stjórnarskrá landsins, að þm. eiga að greiða atkv. samkvæmt sannfæringu sinni.

Hv. þm. Barð. vék að þessu atriði líka. Hann sagði, að þessi afstaða væri ófyrirgefanleg. En hvað finnst honum þá um það að styðja menn í stj. landsins, sem vitanlega hugsa nákvæmlega á sama hátt eins og hv. 7. landsk. og starfa á sama hátt?

Að öðru leyti er það varla svaravert, sem hv. þm. Barð. sagði út af mínum ummælum. Ég sagði ekkert orð um það, að búnaðarþingsmenn hefðu yfirleitt ætlazt til þess, að Framsfl. stjórnaði landinu. En hv. þm. Barð. getur talað við alla búnaðarþingsmenn og spurt þá, og ég er alveg sannfærður um, að enginn einasti þeirra hefur búizt við, þegar þeir gerðu þessa samþykkt, að þeir flokkar í landinu, sem beinlínis hafa að ýmsu leyti komið fram sem fjandsamlegir bændum, eins og hann mun sjálfur álíta, mynduðu þingmeirihl. til að stjórna landinu.

Það er líka misskilningur, að ég hafi átt við það með mínum ummælum, að búnaðarþing hafi búizt við því, að fyrrverandi stj. mundi halda áfram að sitja. Ég held, að á því tímabili hafi flestir átt von á því, — og þar sem það er vitanlegt öllum og það er ekki til neins að leyna því og fara í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut. þá þýðir ekki annað en að segja það upphátt, að þótt búnaðarþing sé að sjálfsögðu ekki pólitísk stofnun, þá hafa fulltrúar á búnaðarþingi sina pólitísku skoðun og eru flokksmenn ekki eingöngu í Framsfl., heldur einnig í Sjálfstfl.

Og ég held, að fleiri flokkar hafi ekki fulltrúa á búnaðarþinginu. Ég hygg, að það sé ekki vafi á því, að þegar þessi samþykkt var gerð, þá hafi verið búizt við því, að þeir flokkar, sem að því stóðu á búnaðarþinginu að leysa þetta mál, mundu aftur á landsmálasviðinu standa saman um stjórn landsins. en ekki til að styðja þar menn, sem hafa þær skoðanir, sem hv. þm. Barð. var rétt áðan að lýsa. Þetta hygg ég, að sé það rétta. En að sjálfsögðu settu fulltrúarnir á búnaðarþinginu engin skilyrði, og þar af leiðandi má láta umr. um þetta niður falla. Það er í raun og veru mælt með því af öllum, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ., líka af þeim, sem í hjarta sínu eru á móti því, svo að um það þarf ekki frekar að ræða.

En hitt er vitanlegt, að þó að bændur eða fulltrúar þeirra hafi bjargað atvinnuvegum landsins í haust með þessu móti, sem. búnaðarþingið gerði, því að ég tel, að það hafi bjargað við atvinnuvegum landsmanna yfirleitt, þá er það vitað mál, að það getur ekki gengið til lengdar, að ein stétt í landinu láti af sínum réttmætu kröfum, ef allar aðrar krefjast þess ýtrasta, sem hægt er.