13.06.1944
Efri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

77. mál, laun forseta Íslands

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Eftir því sem fyrir er mælt í 9. gr. stjskr., skulu laun forseta lýðveldisins eða þeirra, sem fara með forsetavaldið, ákveðin með l., og þess vegna er þetta frv. nú fram komið. Það er í aðalatriðum samhljóða ákvæðum um þetta efni í l. um ríkisstjóra íslands frá 16. júní 1941 að öðru leyti en því, að hér eru launin ákveðin hærri en í þeim l. Í 7. gr. þeirra l. er fram tekið, að ríkisstjóra skuli greidd 30 þús. kr. á ári. Þessi laun hafa nú verið hækkuð fyrir nokkru og eru nú 60 þús. kr., enda var dýrtíðin ekki nærri því eins mikil og nú, þegar þessi l. voru samþ. Ríkisstj. hefur þótt sanngjarnt og rétt, að grunnlaunin yrðu ákveðin 50 þús. kr., en að öðru leyti færu þau eftir þeim l., sem gilda um laun embættismanna ríkisins, þannig að forseti fengi dýrtíðaruppbót á þessi laun, þar sem tekið væri tillit til þess, ef dýrtíðin breyttist. En þess er að gæta, að laun, sem eru eins há og þessi, taka tiltölulega litlum breytingum við dýrtíðarbreytingar. Eftir vísitölu framfærslukostnaðar nú mundu launin verða 68–69 þús. kr. Það er að vísu heldur hærra en laun ríkisstjóra nú, en ríkisstj. þótti hæfilegt, að grunnlaunin yrðu ákveðin eins og hér er tekið fram í l.

Ég tel svo ekki þörf að gera frekari grein fyrir þessu að sinni, en legg til, að málinu verði vísað til fjhn. að lokinni þessari umr.