22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (4533)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bjarni Benediktsson:

Ég sé ástæðu til að segja nokkur orð út af umr., sem orðið hafa í tilefni af samningum um stjórnarmyndun, sem reyndir voru í vor og á s.l. sumri. Það mun hafa verið um mánaðamótin maí-júní. að sjálfstæðismenn hófust handa um það að reyna að mynda hér þingræðisstj., og var þeim samningaumleitunum haldið áfram má segja daglega fram yfir 17. júní s.l. vor.

Það er rétt hjá hv. þm. Str., að á þeim tíma virtist svo sem ekki stæði á Framsfl. Ég rek þá sögu ekki nánar, enda lítið á því að græða. En það er rétt, að á þeim tíma virtist ekki standa á Framsfl., en með því er ekki sagt, að flokkurinn hafi haft trú eða áhuga á stjórnarmyndun. Að minnsta kosti tókst ekki að mynda stjórn, en samningaumleitunum var ekki lokið í júlílok og var haldið stanzlaust áfram, þangað til Framsfl. sleit þeim í október. En áður en hann sleit þeim, var að miklu leyti búið að taka saman þá stefnuskrá, sem núverandi stjórn var mynduð um, þó ekki að öllu, til dæmis voru launalögin þá ekki með.

En þótt samningarnir væru komnir þetta áleiðis, virtist hvorki reka né ganga með það að koma stjórninni á. Þá er það, að Framsfl. lýsir því yfir, að hann telji gagnslaust að halda samningum áfram.

Hv. þm. Str. virtist vilja láta skína í, að Framsfl. hefði viljað kveða niður dýrtíðina. Þetta er rangt. Allar umleitanir voru byggðar á því að halda kyrrstöðu, og það var gert. Hitt er vitað, að Framsfl. taldi þýðingarlaust að halda samningum áfram af einhverjum ástæðum, þrátt fyrir það að margt virtist benda til, að saman drægi. En eðlilegt var, að menn þreyttust á því, er hvorki rak né gekk. En það var ekki sýnilegt neitt höfuðatriði, sem strandaði á. Þá var það, að Sjálfstfl. kannaði nánar, á hverju stóð, og var þá fyrst leitað til Framsfl. En þá kom það á daginn, að sitt hvað vakti fyrir þessum tveim flokkum. Framsfl. vildi bráðabirgðastjórn, helzt endurreisa utanþingsstjórnina, gömlu með formlegri ábyrgð Sjálfstfl. og Framsfl. Þeir töldu ekki tímabært að mynda sterka stjórn, en vildu hafa kosningar á næsta sumri. Jafnframt þessu gerðu þeir að skilyrði, að Björn Þórðarson fyrrv. forsrh. myndaði hina nýju stjórn. Hv. þm. Str. segir þetta ekki hafa verið svo rætt sem skyldi. Þetta er ekki rétt, því að Framsfl. hélt við þetta, eftir að Sjálfstfl. hafði lýst því yfir, að hann tæki ekki þátt í stjórnarmyndun með þennan mann í forsæti, þótt því sé nú haldið fram, að þetta hafi ekki verið neitt aðalatriði.

Það mun sannast, að Framsfl. vildi, að mynduð yrði bráðabirgðastjórn, þar sem Framsfl. og Sjálfstfl. hefðu forustuna.

En hvað sem sagt er um stjórn Björns Þórðarsonar, þá var sú stjórn ekkert annað en þægt verkfæri í höndum Framsfl. Framsfl. vildi mynda stjórn, en ekki varanlega þingræðisstjórn, heldur halda áfram að deila, meira að segja við Sjálfstfl., og með slíka stjórn átti svo að fara út í kosningar á sumri komanda. Það hefði verið óviturlegt af Sjálfstfl. að ganga að þessu. Sjálfstfl. vildi koma á varanlegum friði í atvinnulífi landsmanna, samvinnu milli flokka og atvinnustétta.

Hv. þm. Str. er nú með hrakspár. Það má vera, að ekki lánist að ráða fram úr örðugleikunum, en það er örugg sannfæring okkar sjálfstæðismanna, að eina leiðin til þess sé sú, að sæmilegur friður eigi sér stað milli stjórnmálaflokka og atvinnustétta í landinu.