22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (4538)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég vildi víkja örlítið að þessu dæmi, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á, um hlutdrægni Björns Þórðarsonar. Ég efast nú um, að það sé hægt að kalla það því nafni, þó að hægt sé að tilfæra þetta eina dæmi, þar sem hann hefur gert á miska eins stjórnmálaflokks. Þessi sýslumaður setti annan mann í sinn stað, og ríkið hafði engan kostnað af þessu fríi, þar sem mönnum hefur stundum aftur á móti verið veitt frí með fullum launum. En til hvers var honum veitt þetta frí? Það var vegna þess, að hann hefur verið erlendis við framhaldsnám og er nú að fara út til að ljúka doktorsritgerð við háskóla þar. Ég veit ekki, hvort það er hægt að kalla þetta hlutdrægni. Það eru ekki margir lögfræðingar, sem hafa slíkan áhuga á því að afla sér framhaldsmenntunar og þessi ungi maður. Auk þess veit ég ekkert, hvort þetta leyfi hefur verið veitt af Birni Þórðarsyni, og í annan stað býst ég við, að hann, sem hefur slíkan áhuga fyrir fræðimennsku, mundi hafa veitt slíkt leyfi sérhverjum ungum manni, sem ætlaði að taka sér slíkt fyrir hendur, og ég efast meira að segja um, að hv. 6. þm. Reykv. hefði neitað um slíkt leyfi sjálfur. Sannleikurinn er sá, að Björn Þórðarson var mjög hlutlaus maður, þó að hægt sé að tilfæra þetta eina tilfelli.

Ég vil geta þess að lokum í sambandi við kauphækkanirnar, að ég held satt að segja, að það sé öllum ljóst nema þessum hv. þm., að almennar kauphækkanir hafa orðið í landinu. Þær hafa máske verið birtar með minna letri og á minna áberandi stöðum í blöðunum. En þær hafa eigi að síður orðið og það e.t.v. meiri en nokkur dæmi eru til, nema 1942. Það er stöðvunin á dýrtíðinni.