22.02.1945
Efri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (4540)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég leyfi mér að fullyrða. þó að þetta sé ekki stórvægilegt. að það hefur oft komið fyrir, að embættismenn hafa fengið frí um tiltekinn tíma, og stundum meira að segja með fullum launum, t.d. til þess að afla sér meiri fróðleiks og stundum vegna lasleika. Ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á mjög fróðlegt dæmi. Þorvaldur Thoroddsen fékk fyrir mörgum árum frí frá embætti til þess að geta stundað sín vísindi og' hélt sínum embættislaunum. Og svo held ég, að hafi verið um fleiri, af þessum tveimur ástæðum.

Það væri ástæða til að athuga fleira, sem þessi hv. þm. hefur sagt, en tímans vegna ætla ég að sleppa því. Það er ekki nóg að hvessa bara röddina. Það þarf að geta fært fram einhver rök. En það er engu líkara en hv. þm. álíti það rök, ef hann getur brýnt röddina nógu mikið.

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði hér fyrir nokkuð löngu, að Framsfl. hefði brugðizt sínum kjósendum með því að vera ekki inni í þeirri stjórn, sem mynduð var í haust, — en ég sýndi fram á og gæti gert það betur, að Framsfl. átti í raun og veru ekki þess kost. — þá vildi ég aðeins segja eitt enn, að ég veit ekki betur — a.m.k. var það svo í mínu héraði og í þeim blöðum, sem ég las um kosningarnar — en að það væri af stjórnmálamönnum einmitt í herbúðum þessa hv. þm. talin höfuðsynd að koma nálægt kommúnistum og Alþýðufl.-mönnum. Það var ekki annað vopn, sem flokkur hv. þm. Barð. beitti frekar heldur en því að tala um, að við Framsfl.-menn hefðum stundum starfað með Alþfl.-mönnum. Og svo er þessi fl. nú kominn í stjórnarsamvinnu, þar sem þessir menn, sósíalistar og Alþfl.-menn, hafa 2/3 og ráða vitanlega mestu.

Ég var ekki á framboðsfundum í Barðastrandarsýslu seinast. En ég er viss um, eftir því sem aðrir frambjóðendur flokks hv. þm. Barð. töluðu, að þá hefur sá hv. þm. talað þannig á þeim fundum, að hann hefur nú gersamlega svikið sína kjósendur.