20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (4541)

83. mál, frestun á fundum Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Ég er þeirrar skoðunar, að sízt muni af því veita, að þing komi saman fyrr í haust en gert er ráð fyrir í till. hæstv. stj. Mun ég ásamt 2. þm. Rang. flytja brtt. við þáltill., þess efnis, að þing komi saman á ný eigi síðar en 2. sept. í haust. — Ég fer ekki út í að ræða ástæður fyrir nauðsyn þess, en hv. þm. munu þær kunnar, þar sem það mál hefur verið rætt á lokuðum fundum. En síðari hluta ágústmánaðar mun sýnilega koma hér upp vandamál, sem mjög erfitt verður að ráða til lykta, — í sambandi við verðlag og dýrtíðarmál, — nema þingið komi til. Ég vil, að þessi skoðun komi fram og það komi undir atkv., hvort hv. þm. vilja fallast á þetta eða ekki. Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. þess efnis, sem ég hef nú lýst.