26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (4548)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Ég ætla mér að bera fram dagskrá við þetta frv. nú við þessa lokaumr. Ég byggi þetta á því, að aðstaða þessa máls hefur breytzt, vegna þess að dýrtíð hefur vaxið, kaupgjald og embættislaun hækkað, án þess að bændur hafi fengið tilskilda hækkun, en tilgangurinn var, að bændur hefðu jafngóða afkomu og aðrar stéttir. Það er hv. þm. kunnugt, að Alþ. samþ. l. um það, að ef sex fulltrúar frá stjórnmálafl. kæmust að einróma niðurstöðu, skyldi það gilda sem l. Þetta varð. Sex manna n. var skipuð af þrem stjórnmálafl., og hún komst sameiginlega að ákveðinni niðurstöðu. Nú var tilgangslaust að gera þessa löggjöf, ef ekki átti að fylgja henni. Þetta var túlkað þannig í blöðum, að bændur skyldu ekki verða verr úti af völdum dýrtíðar en aðrar stéttir, og bændur trúðu, að þessi loforð yrðu haldin. Það er því enginn vafi á því, að bændur áttu ekki um annan kost að velja en fylgja l. En í fyrravetur gerðist það, að Dagsbrún hækkaði kaup um 16%, síðan komu sams konar hækkanir hjá öðrum félögum. Síðan kom að því, að bændur áttu að hækka sínar afurðir 15. sept. s.l., en á því voru miklir erfiðleikar. Ef ekkert hefði verið skipt sér af afurðaverðinu, hlaut vísitalan að hækka gífurlega og þar með útgjöld ríkisins. Þá var það, sem bændur buðust til að slá af sínu afurðaverði, ef aðrar stéttir hækkuðu ekki sín laun. Það var búnaðarþing, sem tók þessa ákvörðun, og hún var tekin í þeirri trú, að það mundi greiða fyrir myndun þingræðisstj. af hálfu þeirra fl., sem mátti gera ráð fyrir, að væru ábyrgir um atvinnuvegina. Búnaðarþingsfulltrúarnir höfðu mikla ástæðu til þess að ætla, að þetta leiddi til stjórnarmyndunar með þeim fl., sem höfðu gert samþ. á fundum um þessi mál. En ekkert af því, sem hafði verið lofað, var efnt. Í staðinn fyrir, að mynduð væri borgaraleg stj., var mynduð öðruvísi stj., þar sem fl., sem stóð á byltingargrundvelli, kom inn í stj., og hér kom á allt annað stjórnarkerfi heldur en það, sem búnaðarþing hafði gert ráð fyrir.

Í staðinn fyrir að stöðva kauphækkanir var nú kaupið hækkað stórkostlega, t.d. í mörgum iðngreinum. Þannig voru bændur gersamlega sviknir í þessum efnum. Þar sem það er orðið ljóst nú í dag, að öll þessi loforð hafa verið svikin, fyndist mér eðlilegast, að frv. þetta yrði fellt, og um það ætla ég að koma með dagskrá, þar sem sagt er, að grundvöllurinn sé fallinn undan þeirri málamiðlun, sem gerð hafði verið. Nú er tækifæri fyrir Alþ. til þess að fella burtu þessa samþ., sem bændur voru gabbaðir til að gera.