26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1639 í B-deild Alþingistíðinda. (4550)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að viðhafa langar umr. um þetta mál. En það er þó tvennt, sem ég tel ástæðu til að minnast á.

Ég vil þá fyrst leiðrétta þann misskilning, sem hér hefur komið fram, að uppbætur á landbúnaðarafurðir séu eingöngu miðaðar við það, að markaðir hafa lokazt í þeim löndum, þar sem þessar vörur hafa að nokkru leyti verið seldar. Ég held nú, að meira sé við það miðað af löggjafans hálfu, að vegna styrjaldarinnar sé skapað ósamræmi milli verðlags á þessum vörum og verðlags á ýmsum öðrum vörum, og því sé rétt að bæta þetta upp og það sjónarmið sé ekki á neinn hátt horfið, þó að vörurnar verði. eftir að stríðinu er lokið, seldar á öðrum markaði en nú.

Þetta er fyrra atriðið, sem ég vildi minnast á. Í framhaldi af því vil ég taka fram það, sem ég hef oft minnzt á áður, þótt í lengra máli væri, að ég sé ekki betur en bændur hafi í styrjaldarlok í sjálfu sér næstum sama rétt og þeir höfðu samkvæmt sex manna nál. Þeir hljóta að verðleggja sína vöru í samræmi við þær reglur, sem þar eru settar og eru alls kostar eðlilegar. Ég skil ekki, að hægt sé að leggja á það annan mælikvarða, hvort sem stríðinu lýkur í vor eða síðar.

Hv. þm. S.-Þ. vildi halda því fram, að vaktar hafi verið vonir hjá bændum í sambandi við þær ályktanir, sem þeir gerðu um eftirgjöf á verðlagi sínu á landbúnaðarafurðum. Ég veit ekki, hvað Sjálfstfl. hefur gert í þessum efnum. En það hefur verið tekið skýrt fram áður hér í hv. d. og sömuleiðis af búnaðarþingsfulltrúunum, sem tilheyrðu Framsfl., að það, sem þarna var ályktað, var ekki á neinn hátt gert í sambandi við stjórnarmyndun milli Sjálfstfl. og Framsfl., og á fundi, þar sem ég var viðstaddur á Selfossi, tók ég það skýrt fram. (BBen: Er þetta þá eintóm skröksaga?) Það er svo margt, sem fer á milli mála, og getur einhver hafa borið þessa sögu þannig. En þetta hefur ótvírætt verið tekið fram, og ég held, að þeir fulltrúar, sem sátu á búnaðarþingi, muni engir votta, að þannig hafi verið skýrt frá málinu af hálfu Framsfl. Þetta er einmitt það, sem álitið var nauðsynlegt að byrja að lækka. Bændur vildu verða fyrstir til og að aðrir kæmu á eftir. Það voru því mjög mikil vonbrigði, hvernig við þessu var snúizt, og það má fastlega gera ráð fyrir, að bændur endurtaki ekki slíkt tilboð. En þó að þannig hafi verið farið að af þeirri stjórn, sem mynduð var, nýjar kauphækkanir látnar viðgangast á ýmsum sviðum, álít ég, að bændur vilji og eigi samt sem áður að standa við þetta tilboð, sem þeir gerðu, og það jafnvel þótt forsendurnar séu að ýmsu leyti breyttar, því að ég álít satt að segja, að hlutur þeirra, sem hafa hækkað, eftir að bændur báru þetta fram, sé nógu slæmur fyrir því, eins og á eftir að koma á daginn innan stundar, þegar á að bjarga sér fram úr erfiðleikunum næsta haust. Má enn fremur minna á það, að ef frá því er horfið nú, eftir að farin hefur verið þessi leið fram á þennan dag síðan í haust, virðist mér, að mundi skapast það ástand í þessum málum, að yrði vafasamur greiði fyrir þjóðfélagið að gera slíkt.