26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (4551)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Magnús Jónsson):

Hv. þm. Str. tók það fram, sem ég annars ætlaði að minnast á og minntist líka á áðan, að það er alls ekki rétt, að nokkuð hafi verið svikið af því, sem lofað var í þessum efnum. Má segja, að bændur eða ýmsir menn hafi orðið fyrir vonbrigðum, af því að ekki lækkaði verðlag allt í landinu í samræmi við þessa lækkun, sem bændur gengu inn á. En það er ekki hægt að segja, að um nein svik hafi verið að ræða.

Í grg. frv., eins og það var borið fram í upphafi, er þessi ályktun búnaðarþings almenns eðlis og ber þetta allt skýrt með sér. Þar er ekkert minnzt á stjórnarmyndun, ákveðna flokka eða stjórn, enda veit ég ekki, hvaða hugmyndaflug það hefði verið, ef búnaðarþing, ópólitísk stofnun, sem kemur saman fyrir hönd bænda sem stéttar, hefði þar verið að ráðstafa því, í hverra hendur stjórn landsins hefði átt að koma, ekki einfaldara mál, þegar þingið hafði setið yfir því svo að árum skipti.

Ég vil þá víkja örfáum orðum að því, sem hv. 3, landsk. sagði um ástæðurnar til þess, að útflutningsuppbætur eru greiddar á útfluttar landbúnaðarafurðir. Það er raunar rétt hjá honum, að ein ástæðan og hún nokkuð veigamikil var sú, að markaðir höfðu lokazt. Og þetta var miðað við það. En ég held, að þetta hafi þó ekki verið eina ástæðan, og eins og nú er komið, er það alls ekki ástæðan, og væri mjög illa til fundið, ef nú eftir dúk og disk ætti að fara að fella niður þessar útflutningsuppbætur á þeim vörum, sem hér er um að ræða, því að vitað er, að það samkomulag, sem gert var á haustbúnaðarþinginu, var miðað við það, að útflutningsafurðirnar yrðu bættar upp.

Ég skal ekki fara út í þá deilu, sem varð um sex manna nál. En ég held ákveðið, að aðalkaupin, sem gerð voru, hafi ekki að öllu leyti verið fórn af bænda hálfu, heldur að nokkru leyti kaup. Annars vegar féllu bændur frá hækkun, sem þeim hefði borið eftir l., en fengu á hinn bóginn það tryggt, að útflutningsvörurnar yrðu bættar upp, og þetta fékk svo síðan sína sögulegu afleiðingu, að þeir bændur, sem að mjög litlu leyti a.m.k. framleiða vörur til útflutnings, urðu óánægðir.