26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1640 í B-deild Alþingistíðinda. (4552)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jónas Jónsson:

Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp þá rökst. dagskrá, er ég ber fram, svo hljóðandi:

Þar sem sex manna sáttmálinn hafði fullkomið lagagildi og átti að tryggja sveitabændum jafna afkomu öðrum stéttum, þá áttu samkvæmt því tekjur bænda að hækka í haust sem leið um 9,4%, en um það leyti, sem hækkunin átti að gerast, taka fulltrúar á búnaðarþingi á sig þá siðferðilegu ábyrgð að mæla með, að þessi hækkun falli niður, enda var bændum heitið því, að þá þegar yrði mynduð þingræðisstjórn tveggja stærstu borgaralegu flokkanna og að sú stjórn skyldi þá undir eins koma í framkvæmd hliðstæðri lækkun á launum og kaupgjaldi. En þegar til kom, var ekki staðið við neitt af þessum heitum, heldur var mynduð ríkisstjórn með flokki, sem ekki starfar á borgaralegum grundvelli. Auk þess hefur kaupgjaldið verið hækkað mjög mikið og nýlega fullgerð launalög með stórfelldri launahækkun. Þar sem því það, sem hér um ræðir, er byggt á algerlega röngum forsendum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Ég vil, fyrst ég stóð upp. víkja örfáum orðum að ræðum hv. þm. Str. og hv. 1. þm. Reykv.

Hv. þm. Str. hélt því fram, að það hefði ekki neitt komið til tals sú stjórnarmyndun. sem um getur í nefndri dagskrá. Hann veit manna bezt, að þessu var öðruvísi háttað, enda ekki lengra að rekja en það, að þessu máli var komið svo langt um það leyti, sem búnaðarþinginu sleit, að þessir flokkar auglýstu saman fundarhöld og sendu báðir valið lið á þessa fundi. Var ekki neitt verið að fara í launkofa með það gagnvart bændum, að hér væri verið að byrja nýtt tímabil og nú ætti að fara að framkvæma það, sem þeir á búnaðarþingi óskuðu eftir, þ.e. að lækka dýrtíðina.

Það er staðreynd, að hv. þm. Str. gekkst fyrir því með núverandi hæstv. forsrh. að undirbúa þessa herferð á uppreistarsvæðinu með þeim málflutningi, sem þeir héldu uppi. Ég vil benda á, að það var ekki neitt smáræði, sem þeir höfðu gert, þar sem hv. þm. A.-Húnv. og hv. 2. þm. S.-M. voru saman eins og beztu bræður austur í Árnessýslu og gengu hvor við annars hlið út í hina nýju baráttu. sem var í þann veginn að hefjast, þessir hv. þm., sem þó hafa ekki borið gæfu til samþykkis sín á milli.

Ég held, að það taki varla gagnvart hv. þm. Str. að þessu sinni að leggja fram önnur gögn en þessa fyrirhuguðu herferð, sem hann og hæstv. forsrh. stóðu fyrir og bændur áttu að skilja svo sem þessir tveir flokkar væru að taka upp sameiginlega gegn dýrtíðinni.

Út af orðum hv. 1. Reykv. um uppbæturnar vil ég minna hann á það, að annaðhvort var sex manna nál. einskis virði eða það gilti yfirleitt um allar afurðir bænda. Það segir sig sjálft, að launalögin, sem hv. 1. þm. Reykv. hefur ötullega barizt fyrir, eru sama fyrir launastéttina og sex manna nál. fyrir bændur. Hv. þm. veit, að launalögin eru til þess að tryggja þeim, sem undir þau koma, vissa fjárhæð á mánuði. meðan l. standa, og uppbætur eftir því sem l. standa til. En sex manna nál. var einmitt sömu launalög fyrir bændastéttina, bundin við það, hvað atvinnugreinar við sjóinn borguðu sínu starfsliði. Alþ. hefur sett l. og hefur því tekizt sömu skyldur á hendur gagnvart bændum og gagnvart launamönnum með launalögunum.

Það gleður mig, af því að ég hef alltaf ánægju af að hlusta á hv. 1. þm. Reykv. og hann hefur verið talsmaður í launal., að heyra hans skýringu flokksins vegna, hvernig hafi átt að skilja þetta, og að Morgunblaðið hefur á ábyrgð flokksins talið þetta algerlega bindandi, og svo er birt yfirlýsing í sama blaði, að þetta sé ekkert að marka og að það hafi verið klókindi af bændum að reyna að fá eitthvað, sem gagn var í, af því að þeir hafi engan rétt haft.