26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1649 í B-deild Alþingistíðinda. (4559)

148. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Ég skal, herra forseti, ekki hafa þetta nema örstutt mál.

Ég tók það fram áðan, hvernig ástatt var um stjórnarmyndun þessara flokka og hvaða loforð lágu fyrir búnaðarþingi, þegar það tók afstöðu sína. Þar lágu engin loforð fyrir, heldur hið gagnstæða. Þetta staðhæfi ég hér og tek búnaðarþingsfulltrúana fyrst og fremst til vitnis um, hvort ég fer ekki með rétt mál. Enda hefur þessu ekki verið mótmælt af neinum, heldur hinu, verið hampað, að menn hafi gert sér vonir um, að á bak við fælust stjórnarsamningar Sjálfstfl. og Framsfl. En um það, hvað menn hafa gert sér vonir um, skal ég ekkert segja.

Það var verið að tala um, að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hefðu farið saman á fund austur í sveit í sambandi við þessi mál. Ég vil segja það, að þegar sá fundur var haldinn, lá nokkurn veginn ljóst fyrir, hvers konar stjórn mundi verða mynduð í landinu. Og hvaða vonir, sem menn kunna að hafa gert sér í sambandi við þessi mál, þá lágu engin loforð fyrir né vilyrði. Um leið og bændur voru að færa fórnir, til þess að reyna að hafa áhrif á fjármál landsins til batnaðar, þá tryggðu þeir sér rétt. Þessir menn voru engir skynskiptingar, sem vissu ekki, hvað þeir voru að gera. Lægra verð afurðanna mundi þjóðfélagslega borga sig, og einnig mundi vinnast markaður innan lands. Það er ekki þýðingarlaust, að nú er mestalls kjötsins neytt í landinu sjálfu. Þannig eru þessar ráðstafanir gerðar. Þetta eru menn, sem gjarnan vildu færa fórnir til þess að rétta við fjármálalífið í landinu, en muna jafnframt að sjá fótum sínum forráð og sjá um sinn hag. Ég er ákaflega hræddur um það, ef þessi dagskrá verður samþ., að það sé ekki greiði fyrir íslenzka bændastétt.

Svo er það annað, sem ég má til með að minnast á, en skal ekki gera það þannig, að það þurfi að vekja deilur. Ég get ekki verið sammála hv: þm. Barð., sem álítur, að bændur hafi raunverulega sama rétt í haust og þeir höfðu áður, ef stríðinu verði ekki lokið þá. Þessi réttur, sem sex manna álitið skapaði, er fyrst og fremst siðferðilegur réttur. Hann er byggður á því, að fundið er, hvað réttlátt er að verðleggja landbúnaðarvörur, til þess að bændur fái réttlátar tekjur. Ég veit ekki, hvernig á að verðleggja vöruna öðruvísi en eftir þessum grundvelli. Ef annað væri gert, væri það svipað og farið væri til húsgagnasmiðs eða manns, sem framleiðir iðnaðarvörur í stórum stíl. Við skulum segja, að hann væri búinn að framleiða í stórum stíl í eitt ár og ætlaði að fara að selja vöruna, svo að hann hefði þær tekjur, sem hann þyrfti að fá til þess að geta borgað iðnaðarmönnum og fleira. Segjum, að þá væri komið til hans og sagt, að hann eigi að lækka vöruna um 25%. Væri þetta ekki rétt kallað eignarán? Sex manna nefndar samningurinn er varanlegur réttur bænda fyrst og fremst vegna þess, að hann er réttlátur. Með honum er þeim skapaður réttlátur réttur. Og réttlætið heldur áfram að vera til, hvort sem stríðinu verður lokið næsta haust eða ekki. Ég álít, ef verðleggja á landbúnaðarvöruna í samræmi við tilkostnað bænda s.l. ár, sé útilokað, að hægt sé að fara eftir öðru en sex manna álitinu. Því að eftir því er hægt að sjá, hvað vörurnar hafa kostað bændur. Ég held því, að aðstaða bænda verði sú sama í haust og hún var s.l. haust, hvað sem stríðinu líður. Og þrátt fyrir það að l. séu úr gildi gengin, þá verður grundvöllur sex manna álitsins áfram til, sjálft réttlætið víkur ekki, þótt stríðinu ljúki. Og ég álít, að einmitt fyrir þær fórnir, sem bændur færðu s.l. haust, verði réttur þeirra enn styrkari næsta haust heldur en nokkru sinni áður. Bændur lækkuðu vöru sína um 9,4%, en aðrar stéttir halda áfram að hækka sínar tekjur. Bændur geta því ekki endurtekið þetta næsta haust, enda ástæðulaust, þar sem það er þýðingarlaust, þótt einn lækki hjá sér, en allir aðrir halda áfram að hækka sínar tekjur. Það er ómögulegt að ætlast til, að ein stétt gefi nema einu sinni 8 millj. kr. til þess að reyna að fá aðra til að fylgja sama máli.

Svo skal ég ekki þreyta hv. d. með frekari umr. um þetta mál, en vil láta þess getið að lokum, að ég vænti þess satt að segja, að hv. þm. Barð. sé og verði á sama máli um þetta atriði, að ekki sé hægt að verðleggja landbúnaðarafurðir eftir neinum öðrum mælikvarða en sex manna n. álitinu.