09.02.1945
Efri deild: 122. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (4573)

256. mál, gjald af söluverði fisks erlendis

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Frv. þetta var í upphafi flutt af meiri hl. fjhn. þessarar hv. d., fyrir tilmæli hæstv. ríkisstj., og er eitt af þeim skattafrv., sem lögð hafa verið fyrir þingið nú að tilhlutun hæstv. ríkisstj. N. flutti þetta frv. þá án ábyrgðar, að maður getur sagt. En því var svo vísað til hennar aftur, og hún hefur yfirfarið frv. og mælir eindregið með því, að það verði samþ. óbreytt, að öðru leyti en því, að leiðrétt verði tilvísun í 3. gr. frv., og leggur n. til, að gerð verði á frv. sú breyt. við 3. gr. frv., að í stað „1. gr.“ komi: 2. gr., — og er þetta leiðrétting á villu, sem hefur slæðzt inn í frv.

Það var, sem sagt, meiri hl. fjhn., sem flutti málið í upphafi, og sá hv. nm., sem ekki var með í þeim meiri hl., sem mundi því verða minni hl. n. um þetta mál, var ekki viðstaddur á fundi, þegar málið var afgr. í n., svo að ekki verður sagt um afstöðu hans til þessa frv.