23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (4597)

256. mál, gjald af söluverði fisks erlendis

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Mál þetta hefur tekið svo miklum breytingum í Nd., að mér finnst ástæða til að ræða það nokkuð, og vildi ég fyrst og fremst beina orðum mínum til hæstv. fjármálaráðherra.

Í 3. gr. frv. á þskj. 1181 segir: „Nú hefur verið seldur úr skipi erlendis ásamt eigin afla þess fiskur, keyptur í það úr öðrum skipum, og skal þá gjald það, sem um ræðir í lögum þessum, greitt af heildsöluverði alls farmsins, að frádregnum þeim hluta þess, er svarar til hlutfallsins milli þunga þess fisks, er keyptur var í skipið, og þunga alls farmsins, er úr því var seldur erlendis.“ Með þessu er gengið á rétt útgerðarmanna, og vil ég nefna dæmi þessa um smærri skip. Þessi skip flytja um 150 vættir og geta aðeins fiskað 2/3 parta sjálf og það af ódýrari fiski. Nú er um 4 pund hver vætt, og þá er aflinn um 4000 pund. Af þessu mega þau nú, samkv. breytingum þeim, sem gerðar hafa verið í Nd., greiða 107 pund í stað 80 punda áður, og gildir þetta um 300 pund á ári. Nú má segja, að 300 pund sé ekki mikið í raun og veru, en þessi skip standa svo tæpt og hafa barizt í bökkum, og er þessi tollur því ósanngjarn.

Stærri skip, sem samkv. 2. gr. skyldu greiða um 170 pund af afla sínum, verða nú samkv. þessari breytingu að greiða 190 pund. Ég hygg, að þetta hafi ekki verið meining ríkisstj., og mun ég því bera fram skriflega brtt. við þetta. Ég vil benda á, að það er enginn vandi að vita, hvaða verð fæst fyrir fiskinn, og skal ég veita fjhn. þau gögn, sem til þess þarf.

Þá mun ég og flytja brtt. við 6. gr., um það, að 2. málsgr. hennar falli niður, en hún er um það, að sé gjaldið ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga, skal greiða af því 1% dráttarvexti fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði, er greiðslan dregst fram yfir gjalddaga.

Þetta er ranglátt, en ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég vænti, að þessari umr. verði frestað og fjhn. taki brtt. mínar til greina.