22.09.1944
Efri deild: 48. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (4617)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Rök hv. flm. eru ekki mikilvæg. T.d. er það vitað mál um læknana og kom fram hér á síðasta þingi, að ástæðan til þess, að ekki, fást læknar í héruðin, er ekki launakjörin, heldur það, að læknarnir vilja hafa sæmileg vinnuskilyrði, svo að þeir týni ekki lærdómi sínum. Þeir vilja ekki bara vera varðmenn, sem séu til taks, ef slys kemur fyrir.

Það væri glapræði að setja föst launal. fyrir allar stéttir á þessum tímum til að bæta laun kennara. Ef flm. heldur; að hægt sé að bæta úr kennaraskortinum með því að hækka laun kennara, þá á að leysa það mál fyrir sig, en ef setja á þessa stétt á 500 kr. föst laun á mánuði með 6 stunda vinnudag 3/4 hluta ársins, þarf að gera sérstakar ráðstafanir fyrir aðrar stéttir landsins, t.d. bændur, sem eiga að vinna fyrir 16 þús. kr. þrisvar sinnum 6 tíma á dag.

Sama máli gegnir um prestana. Laun þeirra hafa verið lág. En mér er líka ljóst, að sum prestaköll eru svo fámenn, að þau geta ekki borið mann með launum fyrir ekki meira starf en þar er ákveðið. Ég get bent á einn hrepp, þar sem eru tvær kirkjur, en aðeins 13 býli, sem eiga að bera uppi prest, sem nú mun hafa 14 til 15 þús. kr. í laun á ári — og náttúrlega ekki nærri fullt starf.

Það þarf þess vegna að taka til athugunar, hvernig hægt er að auka starf launastéttanna og launa þeim svo sæmilega. Og til þess þarf að gera. heildaryfirlit yfir launagreiðslurnar í landinu. Þar þarf að taka til greina, að úr ríkissjóði er greidd viðbót við eftirlaun þau, sem embættismenn og starfsmenn ríkisins skapa sér með eigin framlögum.

Það hefur verið fært fram sem rök fyrir því, að breyta þurfi launal., að það sé nauðsynlegt, til þess að ríkið missi ekki starfsfólk úr þjónustu sinni. En í því sambandi má einnig líta á það, að trygging sæmilegrar lífsafkomu er miklu meiri í stöðum hjá ríkinu en við önnur störf:

Ég álít nauðsynlegt að stöðva þetta mál nú, til þess að ekki verði á þessum tíma hreyft við launal., heldur þurfi að taka málið þeim tökum að bæta úr þeim ágöllum, sem þarf að laga vegna þeirrar óvenjulegu aðstöðu í landinu, til þess að bæta upp þeim mönnum, sem vinna hjá ríkinu og verst eru settir. Mér skilst, að það hafi verið reynt, og væri það skynsamlegri aðferð en samþ. breyt. á launal., eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.