10.01.1945
Efri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (4631)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil aðeins segja örfá orð um þetta, gera grein fyrir atkv. mínu og afstöðu. Ég játa, að launal. frá 1919 hafi í raun og veru verið orðin mjög ranglát og misjöfn, eftir því sem nú lá fyrir, jafnvel þótt samræmi hafi, verið í þeim í upphafi, sem menn hafa nú borið brigður á, þannig að ýmsir hafi borið skarðan hlut frá borði. Ég skal aðeins taka eitt dæmi, mér nærtækt. Það var komið þannig um þá, sem urðu cand. juris frá háskólanum, að fengju þeir stöðu sem sýslumenn úti um land, þá fengu þeir í grunnlaun á ári 4200 kr., en ef þeir urðu fulltrúar hjá embættismönnum í Reykjavík, tollstjóra eða a.m.k. hjá sakadómara eða lögmanni, þá fengu þeir nærri 8 þús. kr. í grunnlaun á ári. Prestar hafa alltaf haft orð á því og það með réttu, að laun þeirra sem langskólamanna séu afar lítil, samanborið við laun annarra. Var þannig komið, að þeir voru litlu eða engu betur launaðir en kennaraskólamenn sumir, sem náð höfðu í barnaskólastjórastöðu. Þrátt fyrir þetta var alltaf vafi um. hvort taka ætti þessi l. til athugunar og breytingar, jafnvel þótt nú sé við athugun komið fram, að launamenn ýmsir hafi ekki hærra kaup eftir árið en sumir daglaunamenn hér í Reykjavík og þeir hafi eytt til undirbúnings starfi sínu 10 til 15 beztu árum ævinnar.

Hækkun á launum þessara manna er talin muna ríkissjóð sex til sjö millj. kr., og er því tæpt á, að maður geti haldið, að ríkið hafi efni á þessu. Það má segja, að það sé hart, að ég skuli ekki fylgja þessu máli sem einn úr embættismannastéttinni, en það er sérstaklega eitt atriði, sem gerir mér erfitt fyrir að fylgja þessari launahækkun. Ég tók þátt í yfirlýsingu, sem gefin var á búnaðarþinginu s.l. haust fyrir eina fjölmennustu stétt landsins, þar sem hún afsalaði sér tekjuhækkun, sem henni bar jafnvel samkv. l., og gerði þetta í trausti þess, að aðrar stéttir gerðu yfirleitt ekki kröfu til hærri launa. Og það hefur farið þannig, að því tilboði, sem þessi stétt bauð fram, var tekið og hún situr við hið sama og áður, en hér er hins vegar farið fram á mikla launahækkun, sem mun nema fyrir ríkissjóð, þegar öll kurl koma til grafar, 6–7 millj. kr. Er þetta því erfið aðstaða fyrir mig, og mun ég fyrst og fremst greiða atkv. gegn öllum hækkunartill. við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og geri ráð fyrir, að ég geti ekki fylgt frv. sjálfu.