11.01.1945
Efri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (4635)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að tala ýtarlega um þetta stóra mál að sinni, en ætla frekar að ræða það við 3. umr., ef það kemst svo langt. — Ég vil einungis benda á, hversu það er varhugaverð aðferð að gera slíka samninga, sem hér um ræðir, við nokkur hundruð manna, þegar verðbólgan er sem mest, og þótt ég sé þessu andvígur, þá get ég þó fallizt á þetta, ef þessir samningar gilda einungis til þriggja ára. Það væri þá einungis einn liðurinn í að skipta upp stríðsgróðanum, og má segja, að ekki sé ósanngjarnt, að embættismennirnir fái sinn skerf. En ef setja skal launal., þá mun það skapa mikla erfiðleika í framtíðinni. Ég hef því lagt til, að endurskoðun fari fram eftir tiltekinn tíma, og virðist hæfilegt, að það verði 3 ár.