12.01.1945
Efri deild: 101. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (4641)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Bjarni Benediktsson:

Umr. þessar hafa farið nokkuð á við og dreif, eins og ekki er að furða um svo víðtækt mál. Ætla ég mér lítið að blanda mér inn í það. Þó vil ég geta þess, að ég hjó í það hjá hv. þm. Barð. í gær, að hann hélt því fram, að enginn hörgull væri á að fá menn í opinber störf, því að það væri einmitt stöðugur straumur manna, sem vildu vera í ríkisins þjónustu. Þetta er að vissu leyti rétt. en eins og ég skaut inn í ræðu hv. þm. í gær, er þetta ekki rétt að öllu leyti. Það er áreiðanlegt, að sumir starfsmenn hins opinbera eru þannig launaðir, að það er ekki hægt að fá menn til þess að gegna störfunum með þeim kjörum. sem þeir hafa nú, og vil ég til sönnunar því geta þess, að mikill fjöldi verkfræðinga hefur farið frá ríkinu á undanförnum árum vegna þess, að þeim hafa boðizt betri kjör annars staðar. Dæmi í þessu efni er mér kunnugt um frá bæjarstarfseminni. Þar, eins og hjá ríkinu, vantar verkfræðinga til að standa fyrir framkvæmdum, sem ákveðnar eru. Reynt var að ráða bót á þessu með því að fá góðan og gegnan mann, sem vinnur á skrifstofu án þess þó að hafa sérstakt trúnaðarstarf. Þessi maður hafði byrjað á verkfræðinámi, en ekki lokið því. En þegar til átti að taka, kom í ljós, að hann - sem skrifstofumaður hjá stóru fyrirtæki hér í bænum — hann hafði sýnu hærri laun en útlærður verkfræðingur í fastri stöðu hjá bænum, og held ég þó, að bærinn borgi verkfræðingum hærra kaup en ríkið. Þetta sýnir, að ómögulegt er að halda til lengdar mönnum, sem hörgull er á, nema bæta kjör þeirra. Sama hefur átt sér stað um ýmsa aðra; starfsmenn bæjarins. Það hefur orðið að hagræða málum þeirra umfram venjuleg launakjör, svo að þeir væru ekki verr settir en starfsmenn hjá litlum verzlunarfyrirtækjum. Í því er engin sanngirni. Og ég tala nú ekki um það að ætla að laga með þessum l. launakjör í bönkum og í sumum ríkisstofnunum. en þau eru sums staðar miklu hærri en tíðkast hjá ríkinu almennt. En nú hefur n. horfið frá því að gera þessa ómaklegu samræmingu. Ég tel það hart, að n. skuli hafa tekið það nokkru sinni upp. Og ég ítreka það, sem ég sagði við fyrri umr. um þetta frv. og er samþ. hv. þm. Barð. um, að ég get ekki séð annað en n. sé með þessu að ganga frá því samkomulagi, sem gert var, er stjórnarsamningurinn var gerður. Ég get ekki skilið það á annan veg. Og slíkt er ekki hægt að gera nema með samþykki allra þeirra aðila, sem þá bundu sig. Hitt er annað mál, að um þetta verður eitthvað að ræða, áður en lýkur. Þá verður líka meiri hl., sem vill fella þetta úr frv., að geta komið frv. í gegn. Ég vil ítreka þá beiðni mína til hv. n., að hún afturkalli þessa till.

Þá er seinasta atriði frv. Ég vil aðeins vekja eftirtekt á því, að í frv. eða till. n. er gert ráð fyrir sérstökum launaflokki fyrir lektor við háskólann. Slíkt starf er ekki lögboðið, og það er í raun og veru furðulegt, að n. skuli hafa tekið það upp í launalagafrv., þótt einn maður sé launaður í fjárlögum og kallaður lektor. Ég vildi mælast til, að hv. n. athugaði þetta atriði fyrir 3. umr.

Hv. 1. þm. Reykv., formaður n., féllst á það, sem ég hef haldið fram, að ráðherrar væru of lágt launaðir samkv. þessu frv., og telur eðlilegt, að um það verði flutt brtt. En nú eru það aðrir, sem halda því fram, að ekki sé hörgull á mönnum í þetta starf og því séu launin nógu há. En það er út af fyrir sig engin sönnun fyrir því, að launin séu ekki of lág, eins og sakir standa, vegna þess að þar eru aðrar ástæður, sem koma til greina. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því, að það er ákaflega óheppilegt, að ráðh. og aðrir trúnaðarmenn ríkisins skuli vera þannig launaðir, að þeir eigi verulega fjárhagsafkomu sína undir öðru en embættistekjum sínum. Það er vitað mál, að þau laun, sem ráðh. hafa haft, hafa menn alls ekki getað komizt af með ein, sbr. yfirlýsingu fyrrv. forsrh., hv. þm. Str. Þetta er ekki eingöngu vansæmandi fyrir ríkið, heldur einnig stórhættulegt fyrir stjórnarfarið í landinu. Og þetta opnar dyrnar fyrir ýmiss konar spillingu, sem koma á í veg fyrir. Það má kannske segja það, að þeir menn, sem valdir eru í þessar trúnaðarstöður, eigi að hafa það mikinn manndóm, að eigi þurfi að bæta þeim upp með góðum launakjörum. En hitt er ekki nema mannlegt, og reynslan hefur sýnt það að það leiðir oft til vandræða, ef menn fá ekki þau laun fyrir störf sín, sem þeir geta lifað af sómasamlega.

Ég hef nú þegar vikið að nokkrum atriðum, sem máli skipta, til áréttingar ýmsu því, sem ég hef sagt áður. En það, sem gerði það að verkum, að ég tók til máls á ný, voru ummæli í gær um það, hvort telja bæri, að heimilt væri að lækka laun þau, sem nú væru sett, nema því aðeins, að settur væri sérstakur fyrirvari um það inn í lögin. Hv. þm. Barð. fannst lítið koma til fullyrðinga manna í því efni, og get ég að vísu skilið það, eftir að ég hef heyrt sýnishorn af lagafræði hans, að honum finnist lítið til annarra koma á því sviði. En sannleikurinn er sá, að það er ákaflega lítið hægt að byggja á fullyrðingum einum, ekki hvað sízt í lögfræðilegum efnum. Það, sem máli skiptir, er það, hvaða rök eru færð fyrir ákveðinni skoðun. Fram til þessa hefur verið fullyrt á víxl, hver réttur embættismanna væri í þessu efni, án þess að það mál væri rakið ofan í kjölinn. Nú er hér að vísu um mikið mál að ræða, og ég ætla mér ekki þá dul að rekja það hér til hlítar. En það er sérstaklega mikilvægt fyrir afgreiðslu málsins. hvort menn trúa því, að með þessum l. fái starfsmenn ríkisins óhagganlegan rétt til þessara lífstíðarlauna, sem ekki má breyta með venjulegum lagasetningum. Það fyrsta, sem mér skilst, að þá hljóti að koma til athugunar, er þetta: Við hvað styðjast þeir menn, sem líta á þetta eins og hv. þm. Barð. og 3. landsk.? Við hvað styðjast þær efasemdir um það, að ekki megi lækka launakjör starfsmanna ríkisins þannig, að það komi fram við þá sjálfa? Þeir menn, sem halda þessu fram, þeir bera fram fullyrðingar, sem mér skilst þeir hljóti að verða að færa rök fyrir. Löggjafinn hefur rétt til þess að skipa málum eins og honum lízt, nema því aðeins, að einhverjar ákveðnar takmarkanir standi þar fyrir, og þær takmarkanir er ekki að finna nema í stjórnarskrá ríkisins. Og meira en það: Ef einhver vafi er á um það, hvort löggjafinn heldur sér innan sinna takmarka eða ekki, þá er það venjulega reglan í slíkum vafatilfellum, að löggjafinn hafi þar fullt vald. Það, sem liggur nú fyrir þessum mönnum, hv. þm. Barð. og 3. landsk., er, að þeir færi einhver rök fyrir þessu og láti í ljós, við hvað þeir styðja þá skoðun sína eða efasemdir, að um breyt. á þessum l. gegni öðru máli en venjulega lagasetningu. (BSt: Það er ætlazt til, að stuðzt sé við reynsluna.) Það er annað mál. Reynsla sú haggast ekki á nokkurn hátt, þótt fyrirvari sé settur inn í l. á svipaðan hátt og hv. þm. Barð. vill láta gera. Með þessu er farið inn á allt annað svið, en ekki verið að ræða hina formlegu hlið málsins. Ef formleg heimild væri fyrir hendi, sem tryggði embættismönnum og starfsmönnum þennan rétt, væri gagnslaust að setja þennan fyrirvara inn í frv. til að taka þennan rétt af þeim. En því fer alls fjarri, að slíkur réttur sé til samkv. gömlum skilningi eða skilningi á stjórnarskránni, þótt allt sé grandskoðað, sem snertir embættismenn ríkisins. l. heita ekki heldur lög um embættismenn ríkisins, heldur starfsmenn ríkisins, — svo að það er berlega átt við víðtækara hugtak en embættismenn. En það kom í ljós í ræðu hv. þm. Barð. í gær, að hann taldi þessa starfsmenn embættismenn ríkisins og þeir hefðu einhvern óhagganlegan og ævilangan rétt til starfa sinna, sem ekki mætti rýra á nokkurn hátt. Það var ekki hægt að skilja ræðu hans á annan veg. En það skorti með öllu, að hann færði rök fyrir þessari skoðun sinni. Hv. 3. landsk. sagði aftur á móti, að þessir menn hefðu öðlazt samningsbundinn rétt. Nú er það að vísu svo um mikinn hluta þeirra manna, sem hér koma til greina, og alla þá, sem þessi l. hafa þýðingu fyrir, að þeir eru teknir undan almennum samningsreglum og látnir sæta reglum, sem eru allt annars eðlis. Við skulum fyrst setja sem svo, að það væri rétt hjá hv. 3. landsk., að það væru gerðir samningar við þessa menn um það, að þeir ættu að halda þessum launakjörum, samningur, sem nyti verndar ákvæða stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Þá vil ég halda því fram, að á þennan samning bæri að líta sem venjulegan starfssamning. Og hver hefur heyrt um það, að einstakur maður geri samning, sem veitir honum starf alla ævitíð, án þess að þeim samningi megi segja upp? Ef þessi samningur er gerður, þá er alltaf gert ráð fyrir því, að samningurinn sé uppsegjanlegur, að vísu með einhverjum fyrirvara. Frá þessu sjónarmiði gæti það ekki orðið lakara fyrir ríkið en það, að hægt væri að segja öllum starfsmönnum upp með hæfilegum fyrirvara. Það má segja, að samningsréttur mundi njóta verndar samkv. ákvæðum stjskr., þar sem fjallað er um eignarrétt, en verndin, sem þessir menn fá samkv. þessum l. og reglum um opinbera starfsmenn, er sú, að kjörum þeirra má ekki breyta nema með lögum. Það er vernd og það mikil vernd. Yfirmenn þeirra, ráðherrar o.fl., geta ekki breytt launum þeirra upp á eigin spýtur. Til þess að koma við breyt. á kjörum þeirra verður það að ganga í gegnum Alþ. og fá staðfestingu forseta Íslands. Þessir menn eru ekki réttlausir, þeir hafa meiri rétt og öruggari en flestir aðrir starfsmenn. Það hefur verið sagt hér, að ekki séu dæmi til þess, að laun hafi verið lækkuð við starfsmenn, eftir að þeir hafi verið komnir í stöðu. Ég hef ekki grandskoðað þetta, hvað snertir ríkið. og slíkar fullyrðingar eru oft byggðar meira á hugboði og tilfinningum en rannsókn, en ég veit það, að hjá Reykjavíkurbæ hafa laun verið lækkuð hjá mönnum í starfi og þeir orðið að sætta sig við það. Hitt er svo allt annað mál, að telja má ólíklegt, að laun manna verði lækkuð, ef þeir eru komnir í launal. Það er erfitt að koma fram á Alþ. breyt., sem snerta hag fárra manna, hvað þá fjölda manna, eins og hér um ræðir. En telji Alþ. þörf að lækka launin vegna hags ríkisins, þá getur það gert það, hvenær sem það vill. Þeir, sem öðru halda fram, verða að færa einhvern snefil af rökum fyrir þeirri skoðun sinni. Það er nóg komið af fullyrðingum um þetta mál hér nú og eins fyrr á þessu þingi í tilefni af þál., sem hv. þm. Snæf. flutti hér um nauðsyn þess, að settar væru almennar reglur fyrir embættismenn. Það ríkir ákaflega mikil óvissa um rétt þeirra og aðstöðu. Menn vita ekki glöggt, hver réttarstaða þeirra er. Þess vegna er ekki hægt, eins og hv. þm. Barð. gerði, að slá því föstu, að maður, sem kemst í ríkisins þjónustu, öðlist um leið óhagganlegan rétt til að mega sitja í stöðu sinni til viss aldurstakmarks, ef hann brýtur ekki af sér. Það má kannske segja, að í framkvæmdinni sé þetta þannig, en fyrir því er enginn lagastafur. Og lagastafur einn mundi ekki nægja. Það, sem máli skiptir hér, er, hvort nokkuð standi um þetta í stjórnarskrá ríkisins. Ákvæði um embættismenn er að finna í 20. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Ég get ekki séð, að nokkuð sé vikið að þessu atriði þar. En þar segir í 4. mgr.: „Forseti getur flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum, og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.“ — Sannleikurinn er nú sá, að þetta ákvæði er nú orðið meira og minna úrelt og að vissu leyti botnlaust. En það er of langt mál, til þess að hægt sé að ræða það hér. Eins og hv. þm. er kunnugt, getur forseti flutt menn úr einu embætti í annað. En þar er vald forseta takmarkað. Hann getur ekki flutt menn og minnkað launatekjur þeirra. En það er hvergi vikið að því að Alþ., hinn almenni löggjafi, geti ekki sett hvaða ákvæði, sem því lízt um launakjör embættismanna. Og þetta er eina ákvæðið í stjskr. varðandi launakjör. Og það sjá menn, að þótt embættismenn séu verndaðir gegn ríkisstj., svo að þeir verði ekki of háðir henni í starfi sínu, þá gegnir allt öðru máli um það, hvort almenni löggjafinn. fulltrúi sjálfrar þjóðarinnar saman kominn á Alþ., og forseti lýðveldisins megi ekki setja lög um launakjör manna í samræmi við fjárhagsgetu þjóðarinnar á hverjum tíma.

Það er beinlinis viðurkennt af hæstarétti, að það liggi fast að heimild fyrir því, að leggja megi stöðu niður með lögum. Vildi ég hér mega lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, úr dómasafni hæstaréttar, f. bindi, bls. 274–275. en þar er eina helztu leiðbeininguna að fá varðandi réttarstöðu embættismanna, sem fram hefur komið hjá dómstólunum, þótt að vísu sé hægt að finna fleiri leiðbeiningar í öðrum dómum. Þar segir svo:

„Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 71/1919 er staða sú, er aðaláfrýjandi var skipaður í samkv. framanskráðu, talin meðal embætta þeirra, sem föst laun eru lögð til. Verður því að telja hana fasta stöðu í þarfir ríkisins. Og með því að aðaláfrýjandi var skipaður í stöðuna án nokkurs fyrirvara, mátti hann treysta því, að hann fengi að halda henni, meðan hann vildi, hefði krafta til og bryti ekki af sér, nema hún yrði lögð niður. en það hefur ekki verið gert. Eins og í hinum áfrýjaða dómi segir, hafa ekki verið færðar sönnur á það, að aðaláfrýjandi hafi gerzt brotlegur í stöðu sinni eða með öðrum hætti, svo að missi hennar geti varðað, og verður því að telja frávikninguna fela í sér réttarbrot gagnvart aðaláfrýjanda. Með því að ekki eru til í gildandi lögum um embættismenn og sýslanar fyrirmæli. er kveða á um rétt þeirra til bóta á hendur ríkissjóði vegna óréttmætrar frávikningar úr stöðu sinni, verður um það atriði að fara eftir almennum reglum löggjafarinnar.“

Í þessu felst, að ef staða er lögð niður, má taka hana af einstökum mönnum bótalaust, og einnig, að alinenn löggjöf gæti gengið svo langt, að víkja mætti mönnum frá bótalaust, ef almenn löggjöf hefði fyrirmæli um ,það. En þau fyrirmæli eru ekki til, og þess vegna segir hæstiréttur, að fara verði eftir almennum reglum. En ef það tvennt er fyrir hendi, sem kemur fram í þessum hæstaréttardómi, að leggja má stöðu niður, án þess að viðkomandi eigi rétt á bótum, og löggjafanum mundi vera heimilt að setja reglur um bætur og mundi ákveða það sem almenna reglu, að engar bætur ætti að greiða, ef hann kysi það sjálfur, hvers vegna skyldi löggjafanum þá ekki vera heimilt það, sem er miklu sanngjarnara við embættismenn, að lækka laun, hvort heldur almennt öll laun eða einstakra embættismannaflokka eða einstakra embættismanna? Það má að vísu aftur segja og er alinenn regla, að menn geta ekki sagt fyrir fram um það, hvernig dómstólarnir líta á málið. En ég get ekki annað séð — í ljósi þess hæstaréttardóms, sem hér liggur fyrir framan mig, — en maður geti sagt með fullri vissu, að það sé fyrir hendi ráðagerð frá hæstarétti, sem sýni, að hann telji, að hinn almenni löggjafi sé frjáls í slíkum atriðum sem þessu, ekki sízt þegar hafður er í huga annar dómur í þessu sambandi, þegar staða, sem hv. 1. þm. Reykv., Magnús Jónsson, var kosinn í, var lögð niður, áður en hann hafði gegnt henni allan sinn ákveðna tíma, og hæstiréttur sagði. að vegna þess að l. ákváðu honum engar bætur, þá ætti hann engar bætur að fá og að ekki væri kunnugt um nein fyrirmæli eða ákvæði, sem skiptu verulegu máli í þessu sambandi, og þess vegna ætti hann engar bætur að fá. Það er vafalaust, að ef Magnús hefði verið ráðinn af einstaklingi í þetta starf, hefði hann átt bætur samkv. samningsriftun, en hæstiréttur segir, að ákvæði stjskr. komi ekki þessu við og vernd hans eins og annarra opinberra embættismanna komi ekki til greina, ef hann er sviptur stöðu, nema með lagabreyt., en það er líka vernd. En hvernig hugsa menn sér að halda uppi ríkisstarfrækslu nú á dögum, ef réttindi embættismanna til launa og kjara eru þannig, að ekki er hægt að hagga þeim með lagabreyt.? Hvernig getur mönnum dottið í hug að setja l. um laun opinberra starfsmanna og ákveða kaup starfsstúlkna við tóbakseinkasöluna og aðrar stofnanir þannig, að þær öðlist ævilöng réttindi til starfs?

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en taldi rétt vegna þess, sem ég hef hér áður sagt, að færa nokkur rök að máli mínu, ekki sízt eftir hinar mjög svo sannfærandi fullyrðingar hv. þm. Barð. hér í gær, sem voru reistar á hinum mikla lærdómi hans í þessum efnum. En ég verð að spyrja, þótt þessi skoðun taki ekki af öll tvímæli um þetta og segi, að launin megi lækka og lækkunin eigi að taka til þeirra starfsmanna, sem eru í embættum: Hvers vegna á að fara að taka það fram, sem er alveg augljóst? Ég sé enga ástæðu til þess, vegna þess að það væri nákvæmlega það sama og ef tekið væri upp í hver einustu lög: Þessum lögum má breyta.