29.01.1945
Efri deild: 113. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (4658)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gísli Jónsson:

Ég hafði rætt frv. þetta í meginatriðum við 2. umr. og sé því eig; ástæðu til að bæta miklu við. Ég get þó ekki skilizt svo við þetta mál, að minnast ekki nokkuð á þær brtt., sem ég hafði borið fram við frv., en tók aftur til 3. umr., svo að hv. fjhn. gæfist kostur á að ræða þær nokkru nánar.

Eins og þskj. 964 ber með sér, hefur n. gert nýja till. undir lið 19, um flokkun læknishéraða, og með því að ég get að fullu fellt mig við þá tilhögun, sem felst í næstsíðustu málsgr. till., en er hins vegar andvígur öðrum ákvæðum hennar, vil ég mega vænta þess, að hæstv. forseti beri upp til atkvæða sérstaklega tvær síðustu mgr., því að verði þær samþ., mun ég taka til baka að fullu till. mína á þskj. 857.

Ég óska hins vegar eftir því við hæstv. forseta, að hann láti till. mína á þskj. 714 koma til atkv. við þessa umr. En með því að till. var upphaflega borin fram sem brtt. við frv. á þskj. 306, en verður nú að berast fram sem brtt. við frv., eins og það er eftir 2. umr., breytist greinatalan í samræmi við þær breyt., sem orðið hafa á frv., og verður nú þannig; að á eftir 37. gr. komi ný g,r., er verði 38. gr. Leyfi ég mér hér með að afhenda hæstv. forseta till. þannig. Ég hafði búizt við því, að hv. fjhn. mælti óskipt með því, að einhver slík ákvæði sem þau, er í þessari till. felast, yrðu sett inn í frv., en úr því að n. sá sér þetta ekki fært, er rétt, að hv. þd. láti í ljós vilja sinn um þetta atriði. Það er því ósk mín, að till. komi nú óbreytt til atkvæða.

Skal ég þá víkja nokkrum orðum að þeim nýju brtt., sem enn hafa komið fram frá n. og eru á þskj. 964.

Það hefði verið æskilegt, að hv. frsm., 7. landsk. þm., hefði haft tækifæri til þess að dvelja hér í þd., á meðan umr. fara hér fram um málið, úr því að hann á annað borð tók að sér framsögu. En líklegast þykir honum óþarft að ræða þetta mál úr því, sem komið er, nema því aðeins, að hann ætli hv. 1. þm. Reykv. að svara fyrir sig, líkt og við 2. umr.

Hv. frsm. hélt því fram í ræðu sinni áðan, að frv. hefði ekki tekið miklum breyt. hjá n. frá því, er það var samþ. hér við 2. umr., enda hefðu sárafáar kvartanir komið fram til n. síðan eða kröfur til hækkunar launa nema um laun landlæknis, sem sjálfsagt þótti að taka til greina alveg möglunarlaust. Var helzt að skilja á hv. frsm., að n. hefði eiginlega þótt þetta mjög miður. Kvað hann allar till., sem n. bæri nú fram til hækkunar, vera einungis það, sem ekki hefði unnizt tími til að fá samkomulag um, áður en frv. fór til 2. umr. Það var nú mjög deilt um það þá milli mín og hv. 1. þm. Reykv., hve þáverandi till. n. gengju langt fram úr því, sem samið hefði verið um, er stjórnin var mynduð. Leiddi ég þá rök að því, hve takmarkalaust ábyrgðarleysi n. hefði sýnt í till. sínum, sem allar leiddu til stórhækkunar frá því, sem ákveðið var í frv. í upphafi. Hv. 1. þm. Reykv. hélt því hins vegar fram, að hnífnum hefði miskunnarlaust verið beitt og alls staðar til niðurskurðar. En hvaða hugmyndir sein þm. kunna að hafa gert sér um þær staðhæfingar, þá er hitt víst, að það getur engum blandazt hugur um, að í till. n. á þskj. 964 felst enginn niðurskurður. Hækkunin á öllum sviðum er þar svo auðsæ, að fullyrða má. að nú sé n. að skera upp það, sem hún hefur sáð á fyrri fundum sínum. Ég held, að það verði ekki lengur dulið, að moldin er svo frjó, að það þurfa ekki að líða nema dagar eða klukkustundir, frá því að n. hefur sáð nýrri hugmynd til hækkunar, þar til hún hefur uppskorið margfaldan ávöxt og fengið margvíslegar nýjar hugmyndir til nýrra hækkunartill., og það alveg án þess að vera undir utanaðkomandi áhrifum, eins og hv. 7. landsk. þm. vitnaði um áðan, heldur fyrir einskæran innblástur frá hinum sterka vilja n. um að komast sem lengst út fyrir öll skynsamleg takmörk í þessu máli. Sem dæmi þessu til sönnunar vil ég leyfa mér að benda á, að n. lagði til í fyrri till. sínum, að laun hæstaréttardómara yrðu færð upp í 14 þús. kr. grunnlaun. Þótti þá mörgum öðrum þm. nóg komið. En síðan þetta var samþ. í n. með öllum atkv., fá nm. alveg óstjórnlega löngun til þess að bæta enn við einu þúsundi við þennan launaflokk, og það alveg án íhlutunar annarra, eftir því sem hv. 7. landsk. þm. upplýsir. Sama má segja um allar aðrar till. n., þær eru allar sprottnar af sömu óstjórnlegu lönguninni að koma flokkunum sem hæst upp, gera eyðsluna sem allra mesta. Ég gæti hugsað mér, að það yrði engan veginn lítil fjárfúlga, sem það gæti em kostað ríkissjóðinn, ef n. væri enn falin nánari athugun og endurskoðun á till. sínum og hún fengi enn nokkrar vikur til þess að velta þessu verki fyrir sér, sem hún nú loks hefur skilað til 3. umr. með þeim endemum, sem raun ber vitni um.

Ég skal ekki fara nánar hér út í einstakar till., þótt það hefði verið freistandi, en ég vil, áður en ég lýk máli mínu, aðeins beina þeirri fyrirspurn til n., hvort hún hafi yfirleitt gert sér ljóst, hve gífurlegar breyt. hún hefur gert á þessu frv., frá því að það var borið fram á þskj. 306. En það þskj. var, eins og kunnugt er, grundvöllur fyrir skilyrðum, sem sett voru til stjórnarmyndunar, snertandi afgreiðslu launal. á þessu þingi. Hafi n. gert sér þetta ljóst, getur ekki hjá því farið, að hún sé sér þess meðvitandi að hafa með þessu haft í frammi stórkostlegar vanefndir á gerðum samningum, bæði að því er snertir hagsmuni einstakra launþega og landsins í heild.

Ég minntist á það við 2. umr., hvernig n. hefði brugðizt öllum loforðum, sem gefin hefðu verið og snertu hagsmuni ríkissjóðs, með því að ganga miklu lengra í till. sínum um öll útgjöld en gert hafði verið ráð fyrir og samið um, og hirði ég ekki um að endurtaka það. En jafnframt því, sem þetta var gert, lagði n. einnig til, að felld yrði í burtu 48. gr. á þskj. 306, en sú gr. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. farseta: „Nú á fastráðinn starfsmaður að lækka í launum samkvæmt þessum l., og haldast þá laun hans óskert, meðan hann heldur starfinu.“

N. hefur nú við þessa umr. upplýst, að ákvæði þetta kosti launþega hvorki meira né minna en 440 þús. kr. á ári. Og það má hver trúa því, sem vill, að þeir taki því möglunarlaust. Hitt mun sanni nær, að enginn friður skapist um þetta, fyrr en þeim hefur verið bætt það upp á einhvern hátt, enda mun það og vera tilgangur n., að svo verði gert síðar meir. Ég þekki þá illa hv. 3. landsk. þm. og aðra, sem óvægnastir hafa reynzt í sókninni í fjárhirzlur ríkissjóðs, ef þeir láta langan tíma líða, þar til þeir benda á þetta og krefjast leiðréttingar „til samræmis“, eins og þeir kalla það, þótt þeir hafi hægt um sig nú á þessari stundu. Og satt að segja mundi ég ekkert lá þeim það, þegar víst er, að samið var um fullan rétt til handa þessum aðilum. Ég hef talið mér skylt að benda jafnt á þetta atriði, þótt það nú sé talið til niðurskurðar, eins og á hin, sem breytt hefur verið til útgjalda fyrir ríkissjóð.

Þá vil ég einnig leyfa mér að benda á, að það var til þess ætlazt, eins og frv. var í upphafi, að allar aukatekjur fyrir innheimtu skyldu niður falla. En nú kemur n. með alls konar till. um, að þeir embættismenn. sem nú taka tugþúsundir í slíkum aukatekjum, skuli halda þeim framvegis, m.a. stórum fjárfúlgum fyrir að innheimta lögboðin lífeyrissjóðsgjöld fyrir tryggingastofnanir ríkisins. Væri nú ekki í sambandi við þessar upplýsingar tilefni til þess að spyrja hv. 3. landsk. þm., hvort hann sem forstjóri fyrir tryggingastofnuninni hafi gætt sem skyldi hagsmuna þeirrar stofnunar með því að hafa enga viðleitni sýnt til þess að spara henni þessi 150 þús. kr. árlegu útgjöld, sem hann sem einn nm. vill, að haldið sé áfram að greiða fyrir innheimtu á þessum öruggu gjöldum, sem eiga ekki aðeins fullan forgangsrétt á undan flestum öðrum gjöldum, heldur og lögtaksrétt á eignum, auk þess sem þau nýlega hafa verið gerð svo rétthá, að heimilt er gegn þungum viðurlögum að krefjast af atvinnurekanda, að hann sendi með þau tafarlaust á skrifstofu innheimtumanns, honum alveg að kostnaðarlausu og án minnstu fyrirhafnar. Hitt er svo alveg ljóst, verði 46. gr. samþ., eins og meiri hl. n. leggur til, að þá er enn einu veigamiklu atriði breytt ríkissjóði í óhag.

Út af till. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 975 vildi ég gjarnan mega spyrja hann að því, hvernig hann hugsaði sér, að farið yrði með það fé, sem þar um ræðir, á framtali viðkomandi skattþegns, ef till. yrði samþ. Í till. þessari segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhæðin, sem um er að ræða, skal greidd, þegar embættismaður skilar af sér embættinu.“

Nú er upplýst, að hér geti hæglega verið um að ræða tekjur, sem nema 15–20 þús. kr. á hverju ári, sem þannig skal draga í sérstakan sjóð og skila viðkomandi embættismanni, þegar hann lætur af embætti, ef engin vanhöld verða á rekstri embættisins. Ætlast hv. flm. til þess, að viðkomandi embættismaður greiði árlega skatt af þessum fúlgum, þótt þeir fái þær ekki útgreiddar fyrr en seint og síðar meir eða jafnvel aldrei, eða ætlast hann til þess, að öll upphæðin verði skattskyld það ár, sem hún er greidd út til viðkomanda? Ef það síðara er ætlunin, og annað er varla framkvæmanlegt, nema þá að undanþiggja fúlguna alla undan skatti, mætti svo fara, að lítill fengur væri í þessum launum, ef skattal. þau, sem vér nú búum við, væru óbreytt til hins betra. Sæti maður á slíkum launakjörum í embætti í 20 ár, gæti þessi upphæð hæglega verið orðin yfir 300 þús. kr., og kæmi þá mestur hluti hennar aftur til ríkissjóðs í skattgreiðslum.

Ég hygg, að hv. þm. sjái af þessum rökum, hve frámunalega ótryggur grundvöllur er fyrir þessu greiðslufyrirkomulagi. Ég veit ekki, hvort það kom til umtals í n., en það vakti strax athygli mína, að hér hlyti að verá vanhugsaður einn liður í þessum hlekk, nema því aðeins, að það sé ætlunin, að ekki sé reiknaður neinn skattur af þessu árlega. En þá er um að ræða sérstök skattfríðindi viðkomandi bæja, sem nema ekki minna en 200 –300 þús. kr. í sambandi við það, sem fram kom í gær, að væri þetta algerlega fellt niður, yrði nauðsynlegt að lækka sýslumenn og bæjarfógeta úti um land í launafl., og voru færð að því þau rök, að það væri vitanlega ósanngjarnt, að stærstu og umsvifamestu embættin væru ekki hærra launuð. Ég skil ekki þessa röksemdafærslu. Mér skilst, að í þessum embættum hafi þessir menn ekki lengri vinnutíma en í hinum embættunum, og venjulega er reynslan sú, að því umsvifameiri sem embættin eru, því fleiri starfsmönnum hafa þeir á að skipa og þeim mun sjaldnar koma þeir í skrifstofu sina. Ég held, að hægt sé að færa rök að því, að menn í þessum svokölluðu umsvifamestu embættum séu miklu færri stundir í skrifstofu sinni en hinir embættismennirnir úti um land, sem hafa kannske aðeins einn skrifara sér til aðstoðar. Það eru t.d. ýmsir embættismenn, sem koma ekki í skrifstofu sína fyrr en kl. 10–11 f.h. og fara þaðan kl. 3–4 e.h. Vil ég í þessu sambandi benda á tollstjóraskrifstofuna hér í bæ; hún er opnuð kl. 10 f.h., og henni er lokað kl. 4 e.h. Hins vegar er mér kunnugt um, að úti um land er hægt að koma á skrifstofur kl. 9 f.h. eða jafnvel kl. 8 f.h. og allt til kl. 7 á kvöldin. Ég vil því ekki viðurkenna, að hér sé um að ræða umsvifameiri störf eða lengri vinnudag, því að til þessara embætta eru lagðir fram miklu meiri starfskraftar til þess að inna störfin af hendi, og eru sumir þessara embættismanna í þeirri aðstöðu, að þeir gegna ýmsum öðrum störfum og eru ekki við embættisstarf sitt nema þegar þeim sýnist. Þess vegna sé ég ekki, að ástæða sé til þess að flokka þessi embætti fyrir hina stærri bæi heldur en héruðin úti um land, nema síður væri. Það væri hins vegar miklu eðlilegra, að ríkissjóður byggði yfir þessa embættismenn úti í héruðum landsins eins og læknana. því að þá væri meiri trygging fyrir þessi héruð, að þau fengju sæmilega menn til þess að gegna þessum embættum, og sérstaklega væri ástæða til þess, ef búið væri að taka þessar aukatekjur af þeim. og get ég alls ekki fallizt á, að ástæða sé til þess að flokka þessar aukatekjur.

Þá vil ég minnast á, hvað talið er, að af þessum l. verði mikill kostnaður. Eftir því sem hv. 7. landsk. (KA) hefur gefið hér upp, telur hann. að kostnaður af þessu muni nema rúmlega 6 millj. kr. fyrir utan 342 þús. kr., sem þurfi að bætast við viðvíkjandi einni gr. frv., sem minnzt var á áðan. Nú er þetta töluvert hærri upphæð en ákveðið var í fyrstu, og þó er ekki allt tekið með, sem reiknað var með í fyrstu, þegar frv. var lagt fram, því að þá var reiknað með því, að ríkissjóður tæki á sig alla byrði af kennslu í sveitum, og var þetta ein af ástæðunum fyrir því, að ég vildi fylgja þessu frv. Nú er þessari byrði létt af ríkissjóði og hún látin falla á sveitarsjóðina áfram. Fyrir sveitirnar er þarna um stóra upphæð að ræða, sem ætlazt var til að létta af þeim, og það er því raunverulega verið að falsa þessa till., þegar sagt er, að með þessu sé verið að spara fyrir ríkissjóð, því að með því er skyldan færð yfir á annan aðila, þann aðila, sem á bágt með að standa undir þessari byrði vegna þess, hve ríkissjóður fer djúpt ofan í vasa hvers skattþegns. Er þetta ein af meginástæðunum fyrir því, að ég treysti mér ekki til þess að fylgja meginatriðum þessa frv.

Að síðustu vil ég minnast ofur ð á þá till. mína, sem ég tók aftur til 3. umr. og fjallar um, að inn í frv. komi þetta ákvæði:

„Verði lögum þessum síðar breytt í heild eða í einstökum atriðum til launalækkunar, skulu þeir, sem laun taka eftir þessum lögum, færðir niður í þau laun, sem þar verða ákveðin fyrir sama starf.“

Nú hefur því verið haldið fram, að þessi till. sé óþörf, með því að þetta sé sjálfsagður hlutur. Um þetta hafa orðið nokkuð skiptar skoðanir, en hv. 1. þm. Reykv. taldi, ef 2. liður í brtt. hans á þskj. 975 yrði samþ., að slegið væri föstum þeim skilningi, sem hv. 6. þm. Reykv. hefur haldið fram. En ég er hins vegar á annarri skoðun. Mér finnst, að sá skilningur, sem ég hef á l., sé undirstrikaður, ef 2. liðurinn í brtt. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 975 verður samþ., því að það er einmitt af hræðslu við, að þetta geti verið svona. Það er því nauðsynlegt að slá þessu atriði föstu fyrir þá menn, sem taka laun eftir þessum l., vegna þess að hv. 6. þm. Reykv. veit engin dæmi til þess, að nokkurn tíma hafi verið sett persónuleg launal., ef menn hafa lækkað í launum með þeim l., og það hefur verið upplýst hér í þessari hv. d. Í öllum launal. hefur það alltaf verið tryggt, sem hv. 1. þm. Reykv. vill nú tryggja, að þeir menn, sem hafa fengið laun samkv. öðrum l., séu ekki lækkaðir við það í lögunum. Þegar verið er að semja þessi launal., er hið sama upp á teningnum. Áður en langur tími líður, getur sama krafan komið fram, að hér sé um fasta venju að ræða og sé ekki hægt að breyta því. Ég var alveg undrandi, er hv. 6. þm. Reykv. hélt þessu fram og sló föstu, að réttarvenja mundi vera sterkari en lagaákvæði.

Ég vil svo að síðustu lýsa yfir, að ég tel mig alveg óbundinn af þeim stjórnarsamningum, sem gerðir hafa verið í sambandi við þetta mál, og mun - á því stigi, sem það er nú, — ekki greiða atkv. með brtt. við frv., sem eru til launahækkunar, þótt ég hefði að vísu löngun til að koma samræmi á ýmislegt í frv., sem till. hafa komið fram um, eins og t.d. till. um laun vegamálastjóra, þar sem ósamræmi er í því, að hann hafi lægri laun en símamálastjóri eða landlæknir, en mun þó ekki greiða því atkv., vegna þess að allar þessar till. eru komnar upp fyrir og út fyrir þann samningsgrundvöll. sem í upphafi var lagður. Síðan mun ég greiða atkv. móti frumvarpinu í heild út úr hv. deild.