29.01.1945
Efri deild: 113. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (4662)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég get tekið undir það með hv. þm. Str., að eðlilegast hefði verið að afgr. um leið launal. og l. um réttindi og skyldur embættismanna, en eins og ég gat um við 2. umr., er alveg ófært að láta launal. bíða, og veldur því hinn mikli mismunur á launum milli stétta og ýmiss konar óvissar greiðslur og uppbætur, sem greiddar eru frá ári til árs. Ég hygg því, að öllum sé ljóst, að ástandið er þannig, að svo búið má ekki standa, og er því nauðsynlegt, að þessum hluta sé ráðið til lykta nú þegar. Læt ég þetta nægja sem svar við ræðu hv. þm. Str. og hv. þm. Barð. Að vísu bætti hv. þm. Barð. því við svikaupptalningu sína frá 2. umr., að nú hefði n. einnig svikið launamenn. En þetta er algerlega talað út í loftið. Meginhlutinn af till. n. er leiðréttingar. og flestar voru till. n. um lækkanir á starfsmönnum pósts og síma. Ég vil líka benda á, að loforðið hljóðaði upp á að ganga til samvinnu við BSRB. Þetta es því ekkert annað en fleipur hjá hv. þm. Barð. Þá þótti hv. þm., að forstjóri tryggingastofnana ríkisins hefði verið of ríflegur í greiðslum til tryggingastofnananna, en ég vil benda á, að hér er einungis greitt samkvæmt lögum.

Þá sagði hv. þm., að allar aukatekjur skyldu niður falla, en í frv. stendur:

„Um leið og lög þessi öðlast gildi, skulu niður falla hvers konar greiðslur fyrir aukastörf, sem unnt er að telja til aðalstarfs, aðrar en fyrir nauðsynlega eftirvinnu, svo og innheimtulaun þau, aukatekjur og skrifstofufé embættismanna, sem ætlað var til greiðslu starfslauna þess fólks, sem nú er tekið í launalög.“ — Og er ekki hægt að skilja þetta svo, að aukatekjur hjá innheimtumönnum falli niður, og er þessu því alveg snúið við hjá hv. þm.

Ég skal þá víkja að brtt., sem ég flyt ásamt hv. 7. landsk., á þskj. 978, en þar er lagt til, að aftan við 16. gr. skuli bætast ný málsgr., svohljóðandi:

„Hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög skulu enn fremur sjá forstöðumönnum kaupstaðabarnaskóla og heimavistarskóla fyrir hæfilegu húsnæði. Skal slíkt húsnæði metið til launa skv. 34. gr., jafnt 1/5 hluta grunnlauna að viðbættri hækkun skv. húsaleiguvísitölu, eins og hún er á hverjum tíma.“ En í þessu sambandi koma mér í hug ummæli hv. þm. Str., að níðzt væri á sveitarfélögunum. með greiðslum til kennara, en þá má geta þess, að útlit er fyrir, að launagreiðslur til barnakennara í Reykjavík lækki að mun. En nú skal ég víkja að sjálfri tillögunni. Samkvæmt gildandi launal. hvílir sú skylda á bæjar- og sveitarfélögum að sjá skólastjórum fyrir húsnæði. og er þetta sett til að bæta lág laun þeirra og eins sökum þess, að nauðsynlegt er, að skólastjórar búi nærri eða í skólanum, sem þeir veita forstöðu. Ég legg til, að þetta standi áfram í launal. Þetta gæti þó valdið missætti, og yrði að meta húsnæðið til launa og taka tillit til, hvernig ástatt er um íbúðirnar. Þar, sem skólastjórar búa í skólahúsum, má ekki meta íbúðirnar of hátt, þar eð þær eru ekki alls kostar heppilegar. En þar, sem um leiguíbúðir er að ræða, verður að fara eftir grunnlaupum og hækkun skv. húsaleiguvísitölu hvers tíma. Ég mæli því eindregið með því. að þessu ákvæði verði haldið í launalögunum.

Ég skal þá víkja að einni brtt., sem meiri hl. fjhn. flytur við 37. gr., um aukatekjur og greiðslur fyrir aukastörf. Það er rétt, sem hv. frsm. tók fram, að þessi till. er miðlunartill., sem enginn er ánægður með og er niðurstaðan af tilraunum til að fá lausn á þessu. Það var upplýst af hv. frsm., að tekjur af innheimtulaunum árið 1943 hefðu numið allt að 300 þús. kr., og fullvíst má telja, að þær hækki, því að slysatryggingar hækkuðu um áramótin 1943 og 1944, svo og greiðslur til lífeyrissjóðs. Það, sem hér um ræðir, er einnig innheimtulaun af verðtolli, stimpilgjaldi og skipagjöldum. Víða hagar svo til, að sýslumenn eða bæjarfógetar annast ekki innheimtuna, heldur hreppstjórar, og rennur þá helmingur innheimtugjaldsins til hreppstjóranna. En samkv. till. meiri hl. er ætlazt til, að helmingur innheimtulaunanna renni til ríkissjóðs, 4 til hlutaðeigandi embættismanns og '/4 til tryggingarsjóðs, sem fjmrn. varðveitir. Í sambandi við þetta hefur meiri hl. lagt til, að grunnlaun bæjarfógeta og sýslumanna hækki um 1500 kr.

Nokkrir tekjuhæstu embættismennirnir, þ. á m. bæjarfógetar og tollstjórinn í Reykjavík, verða fyrir stórkostlegri launalækkun. Ég hygg þó, að það, sem eftir verður af innheimtulaununum, nægi til að gera þann mismun, sem ég álít, að eigi að vera á þessum launum og öðrum.

Ég hygg, að eðlileg samræming á launum þessara embættismanna náist með því að greiða þeim 1/4 innheimtulauna. Ég gat ,um, að af innheimtulaunum rynni 1/2 til hreppstjóra. Að vísu er till. orðuð svo, að ætlazt er til þessa, en til þess að taka af öll tvímæli um, að greiðsla þessi haldist, er brtt. á þskj. 976 flutt. Þar segir svo:

„Á eftir orðunum „iðgjöldum slysatrygginganna“ í 3. mgr. till. komi: að frádregnum innheimtulaunum hreppstjóra.“

Um önnur atriði þessarar gr. hygg ég, að ekki né neitt sérstakt að segja.

Þá er að minnast á gjaldskrána fyrir héraðslækna um afslátt frá taxta, þegar sjúkrasamlag er annars vegar. Gjaldskráin hefur verið miðuð við, að læknarnir innheimtu sjálfir. Þessar tekjur hafa mjög farið eftir því, hvernig læknarnir hafa verið gerðir, og hefur sumum læknum ekki orðið mikill tekjuauki að þessu. Það hefur ekki þekkzt, að læknir hafi neitað um hjálp, þótt greiðsla væri ekki trygg. Í brtt. frá hv. 1. þm. Eyf. (BSt) er lagt til, að þessar tekjur verði felldar niður með öllu, en í stað þess ákveði ráðherra, hvað mikla þóknun skuli greiða læknum fyrir úr ríkissjóði á hverjum tíma. En þá er að ákveða, hvað mikið skuli greiða. Í umr., sem fram hafa farið um þetta mál, kom fram frá ráðherra, sem við var, að hann taldi ógerlegt að ákveða upphæð þá, sem greiða skyldi árlega í uppbætur, og ekki væri hægt að leggja það undir vald ráðherra, bæði gæti ráðherra verið í vafa um, að framtal væri rétt, og í annan stað hygg ég, að það væri ekki ánægjulegt fyrir viðkomandi embættismann að sækja undir ýmsa ráðherra, hvað mikla upphæð þeir fái. N. hvarf frá þessu ráði eftir viðræður við ráðherra. Það hlýtur stundum að vera um talsverða fúlgu að ræða, t.d. hjá tollstjóra, eftir þeim tekjum, sem hann hefur haft. Það má segja, að því embætti fylgi nokkur fjárhagsleg áhætta, en slík áhætta fylgir starfi fjöldamargra embættismanna. Í rauninni er áhættuféð hluti af laununum, og virðist óheppilegt að hafa ákvæði sem þessi í lögum.

Ég held, að ekki sé gerlegt að fylgja till. hv. 1. þm. Reykv. Sá hluti innheimtulaunanna, sem ætlazt er til. að embættismaðurinn fái, nægir til að jafna þann mun, sem leiðir af því erfiði og amstri við embættið sem það er umfangsmeira. Tjón getur alltaf komið fyrir, það skal viðurkennt. Innheimtumenn geta glatað fé, mistalið og annað slíkt, en á löngum tíma eiga þessi skakkaföll ekki að vera svo mikil, að það fé, sem ætlað er til að greiða slíkt, nægi ekki. Ef fara ætti að greiða þá fúlgu út eftir langan tíma, yrði það til að raska öllu samræmi, það yrði óviðráðanlegt. Ég tel því ekki ráðlegt að samþ. þessa till. hv. 1. þm. Reykv. Ég tel, að með því að samþykkja hana náist ekki sá tilgangur að jafna það misræmi, sem hún átti að jafna.

Þriðja till. hv. 1. þm. Reykv. er um sama efni og till., sem felld var hér við 2. umr., — það er að segja, að þeir menn, sem nú sitja í embættum og stöðum, sem undir þessi l. falla, megi ráða því sjálfir, hvort þeir sitji undir eldri launal. áfram eða þessum. — Þessi till. hefur þann galla, að hún er fullkomlega óskiljanleg. Hvað eru laun samkv. þessu? Er það samkvæmt launal. eða samningum við forstöðumenn stofnananna? — Eða laun eins og greidd eru nú með öllum þeim uppbótum, sem þeim fylgja? Ef miðað er við föstu launin, hygg ég, að engir taki lækkun. Ef miðað er við 25%, hygg ég, að nokkrir taki lækkun. Vegna margflæktra uppbóta á föst laun gæti svo farið, að allir launaðir menn yrðu jafnir þeim, sem hæst höfðu. Ein meginástæðan til þess, að þetta frv. kom fram, var sú, að ósamræmi í launagreiðslum var orðið svo mikið, að ekki varð við það unað. Ég er sammála hv. flm., ef miðað er við lögbundin laun, en ekki, ef miðað er við laun, sem einhvers ráðherra ákveður. — En eru innheimtulaun ekki laun líka? Vissulega. Það verður því að setja þeim ákveðin takmörk, t.d. að láta 3/4 hluta þeirra renna í ríkissjóð.

Ég skal að lokum taka það fram, að eins og hv. þdm. er kunnugt, eru l. um alþýðutryggingar í endurskoðun, og er gert ráð fyrir,, að henni verði lokið á þessu ári. Sé ég því ekki, að ástæða sé til að gera á þeim miklar breytingar. Mér þætti rétt að hafa föstu launin sómasamlega há, en telja ekki til þeirra nema lítinn hluta innheimtulaunanna.

Um till. hæstv. ráðh., sem hann gerði grein fyrir, er það að segja, að þar er ætlazt til, að ákvæði hennar nái einnig til þeirra, sem hafa laun undir 8000 kr. Þetta hlyti að raska al1ri flokkaskiptingu. Það þarf ekki mikla röskun, til þess að þeir, sem eru í 9. og 10. flokki, yrðu hærri en þeir, sem eru í 6. og 7. flokki.

Ég skal svo ljúka máli mínu, en ég tel heppilegast fyrir hv. d. að halda sér sem mest við till. nefndarinnar.