20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (4685)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég hef skilað sérstöku nál. um þetta frv. ásamt brtt., og er það á þskj. 1137.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn., 3. þm. Reykv., hefur gert grein fyrir þeim brtt., sem n. flytur sameiginlega við frv. Ég tók þátt í því með öðrum nm. að gera þær brtt., þótt ég sé ekki samþykkur þeim öllum. En eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, þá eru þær brtt. bornar fram af n. í heild, sem meiri hl. nm. var fylgjandi, hvernig svo sem sá meiri hl. var samsettur. Ég hef því eins og aðrir nm. áskilið mér rétt til þess að greiða atkvæði gegn einstökum brtt., sem þar eru fram bornar.

Hv. frsm. meiri hl. lét þess getið í ræðu sinni, að yrði frv. samþ. eins og það nú liggur fyrir, mundu launagreiðslur ríkisins hækka um tæpar 6 millj. kr. Nokkur ágreiningur virtist vera um það, hve miklu hækkunin mundi nema. Einn nm. í fjhn. Ed. hefur haldið því fram, að hækkunin muni verða meiri, og hafa 7 til 8 millj. kr. verið nefndar í því sambandi. Ég hef ekki haft tíma til að kynna mér þetta og skal því engan dóm á það leggja, en hvort sem réttara er, að hækkunin sé nálægt 6 millj. kr. eða allt að 8 millj. kr., þá er víst, að hér er um allmikla útgjaldaaukningu að ræða fyrir ríkissjóð.

Ég hef veitt því athygli, að í nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 1143 er sagt, að ég muni vera mótfallinn afgreiðslu frv. að svo komnu. Þetta er ekki alls kostar rétt, enda tók hv. frsm. það fram í ræðu sinni í gær, að þessu væri ef til vill öðruvísi farið, og eins og kemur fram í nál. mínu og brtt., er það svo, að ég vil samþ. frv., en aðeins gera á því lagfæringar, sem ég tel nauðsynlegar og flyt brtt. um. Mun fylgi mitt við frv. fara eftir því, hvernig fer um brtt. mínar.

Ég tel, eins og ég vík að í nál. mínu, mikla þörf á setningu nýrra launalaga, vegna þess að gildandi l. eru fyrir löngu úrelt orðin og ástandið í þessum efnum þannig, að ekki verður við unað til lengdar, og hefði raunar þurft fyrr að setja ný launalög.

Mér virðist, að undirbúningur þessa frv. hafi verið mjög ófullkominn og sé ófullnægjandi. Vil ég fyrst víkja að því, að frv. er nær eingöngu um einn þátt þessa máls, um laun til starfsmanna, en öllum öðrum atriðum sleppt, sem nauðsynlegt var að taka með við undirbúning og setningu slíkrar löggjafar. Það virðist sem ekkert hafi verið athugað við undirbúning málsins. hvernig unnt væri að draga úr kostnaði við starfsmannahald ríkisins með því að taka upp hagfelldara fyrirkomulag við rekstur hinna ýmsu stofnana og framkvæmdastjórn ríkisins yfirleitt. Ég er ekki í vafa um, að það verður hægt að ná þar miklum árangri, ef þetta mál er rannsakað af skilningi og vilja til að gera allt einfaldara og ódýrara, en nú er. Þetta hefur alveg verið vanrækt í undirbúningi málsins að því er virðist, en hefði verið mikil þörf að athuga þetta, einmitt um leið og launamálið er tekið til meðferðar. Fleiri dæmi má nefna um óvandaðan undirbúning málsins. Frv., eins og það var lagt fyrir, er t.a.m. of takmarkað við Rvík. og nokkra aðra stærstu kaupstaðina, enda munu það eingöngu hafa verið Reykvíkingar, sem unnu að undirbúningi málsins. T.d. hefur algerlega verið sleppt að taka með í frv. og gera ráð fyrir launum til póstafgreiðslumanna og símstöðvarstjóra utan stærstu kaupstaðanna. Það hefur algerlega verið gengið fram hjá þessum mönnum, eins og þeir væru ekki til.

Eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. tók fram. þá fann ég að þessu. í n. Hann orðaði það þannig, að ég hefði alltaf verið að stagast á þessu og hv. þm. a.-Húnv. hefði einnig tekið í sama streng. Þetta mun rétt vera, og ég flutti till. um, að reglugerð yrði sett um laun þessara manna„ og varð samkomulag um þá till. í n. Ég hefði að vísu talið eðlilegast, að laun þessara manna fyrir þau störf, sem þeir hafa með höndum, hefðu verið kveðin í hinum væntanlegu launal., en á þeim stutta tíma, sem fjhn. þessarar hv. d. hafði til að athuga frv., var þess vitanlega enginn kostur að undirbúa till. um það, og þess vegna var farið inn á þessa braut, að gera ráð fyrir reglugerð, sem ráðherra setti að fengnum till. póst- og símamálastjóra. Er þar fram tekið, að laun þessara manna skuli ákveðin þannig, að þau séu hlutfallslega svipuð launum annarra starfsmanna pósts og síma, miðað við þau störf, sem þeir hafa með höndum.

Það eru fleiri en við einstakir menn í hv. fjhn. þessarar d., sem hafa komið auga á, að launalagafrv. væri aðallega miðað við það að ákveða laun þeirra starfsmanna, sem vinna við þær ríkisstofnanir, sem eru í Rvík og stærstu kaupstöðunum. Ég sá t.d. á skrifstofu Alþ. í gær símskeyti, sem borizt hefur frá Vesturlandi og er frá tveimur starfsmönnum ríkisins. Annar þeirra er póstafgreiðslumaður á viðkomandi stað. en hinn símstöðvarstjóri. Þeir gefa þar Alþ. vinsamlega bendingu um, að það ætti að bæta einni gr. í frv., sem hljóði á þá leið, að l. þessi gildi aðeins fyrir Reykjavík. Þeir hafa sjálfsagt heyrt frv. lýst í þingfréttum útvarpsins og komizt að þeirri niðurstöðu, að frv. sé fyrir starfsmenn í Rvík. Þykir þeim því rétt, að tekið sé fram í l. sjálfum, að það sé þannig. Ég tel nú, ef þessi till. fjhn. verður samþ. og reglugerð sett. að þessu máli sé komið í sæmilegt horf, því að ég geri mér vonir um. að reglugerðin verði þannig, að þeir geti við unað.

Eitt sérstakt atriði er það enn, sem ég hreyfði í fjhn., en ekki varð að svo stöddu samkomulag um að flýja till. um, en það var varðandi skóla, sem taldir eru í 30. gr. frv., gagnfræðaskólar, héraðsskólar og húsmæðraskólar. Ég tel, að það verði ekki hægt fyrir þessa skóla að starfa áfram, nema ríkið greiði þeim þá hækkun, sem verður á launum skólastjóra og kennara með samþykkt þessa frv. Það eru lögákveðnar tekjur, sem skólar þessir hafa. og þeir geta ekki aukið þær, en það er sýnt, að án þess að fá auknar tekjur geta þeir ekki borgað þær launahækkanir, sem hér er um að ræða. Ég vænti þess, að fyrir 3. umr. geti orðið samkomulag í , n. eða meðal annarra hv. þm. um að flytja till. varðandi þetta mál.

Eitt af því, sem athuga þarf, þegar sett eru l. um laun starfsmanna ríkisins, er það, að samræmi verði í launum þeirra innbyrðis. Flytur fjhn. till. um það að færa einstaka starfsmenn eða hópa milli launaflokka í því skyni, að betra samræmi náist. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram, að n. hafi í öllum tilfellum hitt á það réttasta í þessu efni, því að það má alltaf deila um þessi mál, og sýnist jafnan sitt hverjum. Ég tel raunar nokkra hættu á því í sambandi við þessa lagasetningu, að sumir þeir fái nokkuð mikið, sem sótt hafa mál sitt fastast. bæði við undirbúningsnefndina og þær þingnefndir, sem fjallað hafa um málið, en að einhverjir aðrir, sem eru ekki eins duglegir ræðarar á þessu sviði, verði afskiptir, og tel ég það illa farið.

En það er fleira í sambandi við málið en innbyrðis samræmi í launum starfsmanna, sem athugunar þarf við. Það, sem ég tel mestu máli skipta í sambandi við þetta mál, er það, hvað þjóðfélagið getur greitt mikið fé til framkvæmdastjórnar ríkisins og til opinberra stofnana yfirleitt. Hvað er hægt að verja miklu af þjóðartekjunum til þeirra hluta á hverjum tíma? Ég er hræddur um, að þessu þýðingarmikla atriði hafi ekki verið nægur gaumur gefinn í undirbúningsn., svo sem átt hefði að vera. Það er óhjákvæmilegt, ef slíkt mál á að vera vel undirbúið og afgreitt, að það sé sérstaklega athugað, hvað sanngjarnt er að greiða opinberum starfsmönnum samanborið við það, sem aðrar stéttir þjóðfélagsins eiga við að búa. Í nál. undirbúningsn. er ekkert minnzt á þessi atriði, og lítur ekki út fyrir, að það hafi borið á góma þar. Ég vil benda á, að áður hefur öðruvísi verið unnið að þessu máli.

Árið 1934 starfaði hér mþn. í launamálum, sem skilaði ýtarlegu áliti og till., og sést af því áliti og till., að málið hefur þá verið undirbúið með allt öðrum hætti en nú. Ég vil í þessu sambandi geta um nokkur atriði, sem komu fram í þessu nál. frá 1934. Þar segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta: „N. var það líka þegar við upphaf starfa sinna fullljóst, að til þess að gera till. um laun starfsmanna ríkisins þarf tvennt: Annars vegar, að litið sé á launaþörf starfsmanna og verðleika þeirra sakir undirbúnings til starfans, svo og kostnað og ábyrgð, sem honum er samfara, — hins vegar, að athugaður sé efnahagur þjóðarinnar og hvað framleiðslan og iðnaður landsmanna veitir almenningi til framfæris.“ Síðan segir í framhaldi af þessu: „Laun fyrir opinber störf þurfa að vera í sanngjörnu hófi miðað við það, sem skattgreiðandi á eftir til sinna þarfa. Framleiðslan að iðnaði meðtöldum skapar skattþol íbúa landsins, og skattþolið setur takmörk fyrir þessum sem öðrum útgjöldum ríkissjóðs.“

Þessi n., sem starfaði 1934, gerði líka yfirlit um þjóðareignirnar næsta ár á undan, yfirlit um tekjur af landbúnaði og sjávarútvegi og yfirlit um meðaltekjur þeirra manna, sem þá unnu við þessa atvinnuvegi. Hún gerði yfirlit um tekjur og kjör iðnaðarmanna og verkamanna og einnig hátekjumanna. Hún birti einnig yfirlit um launakjör á Norðurlöndum. — Allt þetta tók n. til athugunar og birti um það skýrslu í nál. sínu til stuðnings þeim till. um launamál, sem hún bar fram, svo að mönnum gæfist kostur á samanburði. Þannig tel ég, að átt hefði einnig nú að vinna að þessu máli, því að það liggur í augum uppi, að það er ekki auðvelt fyrir þm. í miklum önnum, er mörg mál bíða athugunar og úrlausnar, að taka alla þætti þessa máls til nákvæmrar athugunar, svo sem þörf væri. Til þess vinnst ekki tími, að gera á málinu þær athuganir, sem þörf er á.

Mér dettur ekki í hug að gera lítið úr störfum embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins. Þeir hafa að sjálfsögðu nauðsynleg störf með höndum, og það er mjög þýðingarmikið fyrir þjóðina, að hæfir menn veljist til þeirra. Það þarf því að launa þeim mönnum svo, að hlutur þeirra sé viðunandi, og það þarf að sjálfsögðu að ákveða launin m.a. með tilliti til þess, hve löngum tíma menn hafa orðið að verja til náms og hversu kostnaðarsamt það hefur verið að búa sig undir þessi störf. En um leið og laun þessara manna eru ákveðin, er óhjákvæmilegt að líta til þess, hvað aðrir landsmenn bera úr býtum, því að hér þarf að vera samræmi, ef vel á að fara. Ekki sízt þarf að athuga í því sambandi, hvað þeir bera úr býtum, sem vinna að framleiðslustörfum, því að það er framleiðslan, sem heldur þjóðarbúskapnum uppi. Eins og ég hef áður tekið fram, tel ég, að þetta hafi verið vanrækt og þessir hlutir ekki nægilega athugaðir. Ég held, að það væri gott fyrir hv. þm. að gera sér grein fyrir því í sambandi við þetta mál, hvað aðrir hafa fyrir störf sín nú á þessum tímum. Hverjar eru t.d. tekjur daglaunamanna? Hér í Rvík er það svo, að verkamenn, sem vinna 8 klst. á dag alla virka daga ársins, munu hafa í grunnlaun 5800 kr. um árið. Er þá gert ráð fyrir 300 virkum dögum á ári, sem mun láta nærri. Víða annars staðar mun þetta vera heldur minna, þó að kaupgjald sé nú meir og meir að færast í það horf að vera hið sama eða svipað um allt land, þá eru nokkrir staðir enn, þar sem það er lægra en í Rvík. Iðnaðarmenn hafa að vísu nokkru meira kaup en verkamenn, og mun kaup þeirra líklega að meðaltali um 25% hærra. En hvað bera fiskimennirnir úr býtum? Um það er erfitt að segja. Skýrslur liggja ekki fyrir um það nema þá úr einstaka verstöðvum yfir stuttan tíma, en viða frá heyrast nú raddir um það, að erfitt sé að fá fiskimenn á báta, vegna þess að þeir telja sig hafa meira í aðra hönd með því að vinna í landi með því kaupgjaldi, sem nú er orðið við landvinnu, ef þeir hafa hana stöðuga, og bendir þetta til þess, að fiskimenn hafi yfirleitt ekki meira en daglaunamenn.

Í þessu sambandi er líka ástæða til þess að athuga, hverjar tekjur bændastéttin muni hafa. Með því samkomulagi, sem varð í vísitölun. landbúnaðarins árið 1943, var gert ráð fyrir, að bændur, sem hafa meðalbú, hefðu 14500 kr. á því ári. Ég tel hæpið, að meðaltekjur þeirra hafi náð því, vegna þess að sumar framleiðsluvörur þeirra seldust fyrir lægra verð en áætlað var af vísitölun. landbúnaðarins, en jafnvel þótt gert væri ráð fyrir, að tekjurnar næmu þessari upphæð, þá samsvarar það ekki nema 5660 kr. grunntekjum reiknað með þeirri meðalvísitölu, sem var árið 1943.

Nú er á það að líta, að það er vafasamt, að ekki sé meira sagt. að þessar tekjur geti haldizt, þegar samkeppni hefst við önnur lönd um sölu á framleiðsluvörum okkar. Það er margra álit, að kaup megi ekki hærra vera en það er nú, til þess að framleiðslan geti borið sig, þrátt fyrir það stríðsverð, sem nú er á útflutningsafurðum. Ég tel, að þurft hafi að athuga — betur en gert hefur verið — tekjur þessara manna, sem vinna að framleiðslu, einmitt í sambandi við afgreiðslu launal. Þeir, sem vinna að framleiðslustörfum á sjó og landi, eru mennirnir, sem afla brauðs handa þjóðinni, sjá fyrir því, að eitthvað sé í búrinu á þjóðarheimilinu. Það er um þessa menn, sem góðskáldið Örn Arnarson kvað á þessa leið í ljóðabréfi sínu til Vestur-Íslendingsins Guttorms J. Guttormssonar árið 1938:

Þú skilur, hve annríkt þeir eiga

til innsveita djúpmiðum frá,

sem nytja vorn harðlynda hólma

og hafdjúpin grimmlynd og flá.

Þar líturðu landher og flota,

þótt liti ei vopn þeirra blóð.

Sú breiðfylking ein er til bjargar.

Hún brauðfæðir íslenzka þjóð.

Ég tel, að skylt sé að sjá um það, að sú breiðfylking, sem brauðfæðir íslenzku þjóðina, verði ekki út undan, þegar þjóðartekjum er skipt. Það er rangt að gera hlut annarra óeðlilega mikinn á þeirra kostnað, en vitanlega eiga aðrir ekki að vera afskiptir heldur. Það þarf að stefna að því, að tekjum þjóðarinnar verði skipt svo réttlátlega sem unnt er milli landsmanna, og þess vegna flyt ég brtt. við frv. þetta um það að láta launin breytast eftir framleiðslutekjum þjóðarinnar á hverjum tíma.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mjög mörgum orðum um brtt. mína, vegna þess að ég hef gert grein fyrir henni í nál. eftir því, sem mér þótti þörf á, og eins og hægt er. Ég vænti því, að við lestur nál. og brtt. sé mönnum ljóst, hvernig ég vil koma þessu máli fyrir. Það á að reikna út tekjur þjóðarinnar af framleiðslustarfseminni ár hvert, og hefur það raunverulega verið ákveðið áður með þál., sem samþ. var hér í þinginu 5. okt. s.l., en síðan eiga launin að taka breyt. eftir því, hverjar tekjurnar eru eða hvernig þær breytast frá ári til árs. Ég tel, að ríkið eigi að hafa forgöngu um að koma á þennan hátt á réttlátu launafyrirkomulagi. Síðan má vænta þess, að aðrir komi á eftir. Geri þeir það ekki, þá getur verið nauðsynlegt, að löggjafarvaldið láti það mál til sín taka, því að það er vitanlega ekki nóg að athuga eingöngu laun ríkisstarfsmanna, tekjur fiskimanna, verkamanna og bænda. Það er fleira fólk í landinu, t.d. verzlunarstéttin. Hún er nú að margra áliti óþarflega fjölmenn, og sumir í þeirri stétt hafa tekið — á ýmsum tímum — of mikið fyrir snúð sinn. Eru nærtæk dæmi um það, þó að ég hirði ekki að fara út í þá sálma.

Ég hef áður minnzt nokkuð á álit og till. mþn. í launamálum, sem starfaði árið 1934, og í nál. mínu er vikið að till. eins þeirra manna, sem starfaði í þeirri n., Arnórs Sigurjónssonar. Voru. till. hans og ágreiningsatriði um verðstuðul. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp lítið eitt úr þessu nál. Arnórs Sigurjónssonar, en, till. hans voru í rauninni um alveg sama efni og fóru í sömu átt og till. sú, sem ég ber fram.

Arnór Sigurjónsson segir um þetta efni: „Ágreiningurinn milli mín og meiri hl. n. um þetta atriði er um það, hvort miða eigi laun starfsmanna ríkisins við verð á lífsnauðsynjum eða við framleiðslutekjur þjóðarinnar. Með till. meiri h.l. n. er ákveðið, að laun starfsmanna skuli verða breytileg eftir verðlagi á nauðsynjum, og eru starfsmönnunum með því tryggð óbreytileg lífskjör, hvernig sem afkoma þjóðarbúsins verður. Þetta virðist í fljótu bragði vera gott fyrir þá, en ekki mundi það verða nema til bráðabirgða, því að það mundi gera aðstöðu þeirra ótrygga, þegar um harðnar, en sjálfa þá ósæla, þegar vel gengur og þeir vita aðra menn tekjumeiri njóta meiri lífsþæginda. Ég lít þess vegna svo á, að launakjörin eigi að vera breytileg eftir afkomu þjóðaránnar í heild og því, hve mikil framleiðsla hennar er og verðlagi er háttað.“

Till., sem hann flutti þarna, er einmitt um þetta atriði. Hann segir enn fremur í niðurlagi kaflans um þetta mál:

„Ég get við því búizt, að starfsmönnum ríkisins þyki till. meiri hl. fýsilegri og tryggilegri fyrir sína hönd heldur en mínar till. En ég segi.: Sá tími verður að vera liðinn, að menn láti kaupa sig til fylgis með yfirboðum, því að þau yfirboð eru öll á kostnað þjóðarinnar í heild og þá líka að lokum á kostnað þess, sem boðinu tekur, því að til er aðeins ein leið til réttrar lausnar í þessu máli eins og öllum öðrum fjármálum þjóðarinnar: réttiát skipting framleiðsluteknanna eftir gildi vinnunnar. Og þá verðum við fyrst að spyrja um, hvað við höfum til skiptanna og hvers virði það er, og forðast það að draga okkur á tálar með svarinu.“

Þetta er viturlega mælt, og ég vil taka undir þetta. Þarna er bent á rétta leið, gera sér ljóst, hvað þjóðartekjurnar eru miklar, og gera sér síðan far um að skipta þeim sanngjarnlega. Til þess höfum við hagfræðinga, að þeir reikni út þjóðartekjurnar, og það ætti að vera vel framkvæmanlegt. Þetta er leiðin að því marki að skapa hér heilbrigðara og betra þjóðfélag. Þetta er það, sem ég tel, að eigi að koma, og um það er brtt. mín. Og þeim mönnum fjölgar stöðugt, sem gera sér ljóst, að inn á þessa leið á að fara. Ég get nefnt það t.d. í þessu sambandi, að á fundi, sem eigendur hraðfrystihúsa héldu í Rvík 16. jan. s.l., samþ. þeir till. um, að launagreiðslur yrðu framvegis miðaðar við verðmæti útflutningsvörunnar, og í gær sá ég grein í blaði, sem nefnist „Víkingur“ og er sjómannablað, þar sem flutt var till. um það, að launin yrðu ákveðin eftir vísitölu fiskverðs. Allar ganga þessar till. í sömu átt og brtt. mín við frv. þetta.

Ég hreyfði þessari till. hér í fjhn., en henni var ekki vel tekið þar, og ég get vel búizt við, að meiri hl. hv. d. fallist ekki á þessa till. nú. Stjórnarflokkarnir munu hafa samið um að samþ. frv. án þess að gera nokkrar breyt. á grundvallaratriðum þess. Ég get búizt við, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. hafi takmarkað frjálsræði til þess að samþ. brtt., jafnvel þótt þeir teldu þær stefna í rétta átt. Það er vitanlega hægt að samþ. frv. eins og það, sem hæstv. ríkisstj. vill láta samþ., án þess að líta á hag ríkissjóðs eða atvinnuveganna, sem eiga að halda öllu uppi, en ef þannig er á málunum haldið, tel ég mjög vafasamt, að l. verði til gagns eða ánægju þeim mönnum, sem laun eiga að taka, og þjóðfélaginu í heild. Sú bygging. sem stjórnarflokkarnir ætla hér að reisa á löggjafarsviðinu. virðist mér að miklu leyti svipuð spilaborg, sem lítil börn setja upp sér til gamans. Ég er hræddur um, að varanleiki byggingarinnar verði lítið meiri. En menn geta að vísu oft lært af árekstrum og töpum, og þegar spilaborgin er hrunin, þá verður reynt að byggja upp aftur, og þá þætti mér ekki ólíklegt, að haldið yrði inn á þá leið, sem ég hef hér bent á og vil, að farið sé inn á nú þegar.

Ég hef áður vikið að því, að það koma nú fram till. frá ýmsum mönnum, bæði í ræðu og riti, um að þessi stefna verði tekin, og ég geri mér vonir um, að henni aukist fylgi á næstu árum, hvernig sem fer um brtt. mína að þessu sinni.