20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (4690)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Ingólfur Jónsson:

Ég mun ekki halda langa ræðu um brtt. mínar. Þær hefðu getað rúmazt á sama blaðinu, en ég tók ekki eftir því, fyrr en brtt. voru prentaðar. Þessar brtt. eru við 17. og 30. gr.

Út af ummælum hv. 2. þm. N.-M. (PZ) , er hann sagði, að ég hefði mælt með, að þáltill., sem hv. þm. Snæf. og hv. þm. N.-Ísf. fluttu, yrði samþ., vegna þess að það kæmi ekki til mála, að launalagafrv. yrði afgr. á þessu þingi, þá vil ég segja það, að þótt svo sé nú komið, að það frv. sé komið þetta langt eða hér til 2. umr., þá er það nokkuð, sem mér þótti ósennilegt, að tækist. Og ég held, að hv. 2. þm. N.-M. hafi verið mér sammála, að honum hafi fundizt það ósennilegt, að það frv., sem enginn vildi kannast við að hafa samið og búið var að leggja fram í d., yrði samþ., því að það er óyfirlýst, hver hefur samið það. Mþm. í launamálum vill ekki kannast við að hafa samið það. Það mun hafa verið minnzt á, að starfsmannafélag ríkis og bæja hafi samið það, en það félag vill ekki við það kannast. Þetta frv. er því í dag föðurlaust frv. Enginn vill kannast við faðerni þess. Frv., sem kom fram í haust, var þannig úr garði gert, að ólíklegt var, að það yrði samþ., og því ólíklegra sem við vonum nú, að þeir tímar, sem við höfum nú lifað á, séu að breytast, við vonum, að senn fari að líða að stríðslokum. Og það er óskiljanlegt, að Alþ. skuli nú á síðustu mánuðum þessa stríðs vilja ganga inn á þá braut að bæta milljóna kr. útgjöldum á ríkið. En sleppum því. Það vill enginn kannast við að hafa samið frv., og það er kannske sennilega vegna þess; að þeir eru margir, sem fylgja þessu frv. ekki með sérstaklega góðri samvizku, þar sem þeir eru að bæta um sjö millj. kr. útgjöldum á ríkissjóð vegna þessa launafrv. En þessir menn segja: Það var komið svo mikið ósamræmi á launagreiðslur ríkissjóðs, að hjá því varð ekki komizt að gera einhverjar ráðstafanir. — En það er allt annað að gera einhverjar leiðréttingar en að auka útgjöld ríkissjóðs vegna launal. um sjö millj. kr. En það er talið af fróðum mönnum, að þessi hækkun muni nema um sjö millj. króna.

Ég hef flutt hér tvær brtt., sem ég tel svo augljóst, að verði samþ., að ég mun taka þær aftur til 3. umr., til þess að n. gefist tækifæri til þess að gera þær að sínum till. Ég hef minnzt á þær við einn af nm. í fjhn., hv. þm. a.-Húnv., og hann taldi líklegt, að n. yrði sammála um að taka þær að sér. Ég kem síðar að efni till.

Í gömlu launal. var ráð fyrir því gert, að kennarar ættu að sjá fyrir sér á sumrin og fengju ekki laun hjá ríkinu nema þann tíma, sem þeir ynnu hjá því. En í þessum launal., sem nú á að samþ., er gert ráð fyrir því, að ríkið greiði launin þannig, að þeir geti með meðalfjölskyldu lifað allt árið af þeim launum, enda þótt þeir vinni ekki nema hálft árið hjá ríkinu og tæplega það. Það segir sig sjálft, að á meðan ríkið launar starfsmönnum þannig, að þeir geti lifað á því allt árið, þá á það rétt á starfskröftum þeirra að heita má allt árið að frádregnu sæmilegu leyfi til hvíldar.

Till. mínar fara í þá átt að lengja frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., starfstíma þeirra manna, sem fá laun til þess að geta lifað af þeim allt á,rið. Það er nú svo, að ákvæðin samkv. 16. gr., um laun barnakennará, eru þannig, að dregið er frá launum þeirra, ef þeir vinna ekki nema níu mánuði. Þetta er til stórbóta, og með því er gert ráð fyrir, að kennarar skuli vinna minnst níu mánuði hjá ríkinu til þess að geta öðlazt full árslaun. Þannig mun það líka vera um menntaskólakennara, því að menntaskólakennarar starfa átta og hálfan til níu mánuði á ári. Hvernig er það svo um aðra skóla? Hvernig er það um kennara alþýðuskóla, gagnfræðaskóla, kennaraskóla, vélstjóraskóla og stýrimannaskóla? Það mun ekki vera nema um sjö mánaða skólaár. Kennslutímabilið hjá þessum skólum verður þá ekki nema hálft árið, þegar frá eru dregin fríin. En kennarar við þessa skóla eiga að hafa eftir þessu frv. sömu laun og kennarar menntaskólans, sem þurfa þó meiri undirbúning undir starf sitt en kennarar við hina skólana. Það sjá allir, þó að fjhn. hafi ekki enn leiðrétt þetta í frv., að þessi leiðrétting þarf að komast á, bæði vegna þess, að ef frv. yrði samþ. eins og það er nú, þá verður þetta ranglátt gagnvart menntaskólakennurunum, sem verða að vinna níu mánuði til þess að fá sín árslaun, og líka vegna þess, að ríkið, sem veitir þessum kennurum laun til þess að lifa af allt árið, á rétt á starfskröftum þeirra. Og það er ekki nema sjálfsagt og eðlilegt, að starfstími þeirra sé lengdur með þessu móti. Nú er það þannig um marga þessa skóla, gagnfræðaskóla og kennaraskóla og fleiri skóla, að þeir halda námsskeið að vorinu, — hafa það a.m.k. í reglugerð sinni. Ef þeir fara að hafa námsskeið á vorin, verður að launa kennurum sérstaklega, ef þeir vinna lengur en sjö mánuði, og þá koma þeir til með að hafa hærri laun en menntaskólakennarar. Þetta misræmi er svo augljóst, að sjálfsagt er að leiðrétta það. Ef þetta misræmi launal. verður látið standa, má búast við, að kennarar menntaskólans, sem vinna níu mánuði til þess að fá full árslaun, komi með kröfur um hækkun launa til þess að fá að minnsta kosti eins há laun og kennarar við þá skóla, sem ég hef nefnt hér á undan. Ég held, að það beri að keppa að því, fyrst kennarar eru launaðir með það fyrir augum, að þeir geti lifað af því allt árið, að nota starfskrafta þeirra sem mest. Kennarastéttin er fjölmenn og býr yfir mikilli starfsorku. En ríkið notar ekki starfskrafta þessarar stéttar eins og æskilegt væri og nauðsynlegt er.

Það var í frv. eins og það kom fyrst fram, í 43. gr., tekið fram, hve margar kennslustundir kennara skyldu vera á viku í hverjum skóla. Ef ég man rétt, skyldu barnakennarar vinna 30 stundir á viku, menntaskólakennarar 24 stundir og mig minnir við hina óæðri skóla, gagnfræðaskóla o.s.frv., 27 stundir á viku. (SigfS: Allt þetta er ákveðið í l. um þessa skóla.) Þá er það enn þá tryggara, að gert er ráð fyrir þessum vinnutíma. Þá skulum við leggja niður fyrir okkur, hve margar vinnustundir koma til jafnaðar á dag hjá kennurum yfir árið, sem fá þessi laun. Ef barnaskólakennarar stunda skóla sína níu mánuði á ári til þess að fá full árslaun, má segja, að það sé sama sem að þeir kenni átta mánuði, því að það er ekki of mikið að segja, að einn mánuður fari í frí og annan frádrátt. Ef kennarar kenna átta mánuði og 30 stundir á viku, þá mun það láta nærri, að vinnustundir séu til jafnaðar þrjár stundir á dag yfir árið. Og fyrir að vinna til jafnaðar þrjá tíma á dag yfir árið á kennarinn að fá lífsframfæri, sem nægir meðalfjölskyldu. Það er náttúrlega mjög gott, ef þjóðarbúið er svo öflugt, að það standist við að borga mönnum lífsframfæri handa meðalfjölskyldu fyrir að vinna þrjár stundir á dag. — Svo koma aðrir kennarar, sem samkv. þessu frv., ef það verður samþ. óbreytt, koma til með að hafa enn þá styttri vinnutíma, þ.e. kennarar við gagnfræðaskóla og héraðsskóla, sem samkv. l. nú eiga að starfa sjö mánaða kennslutíma. Ef á sama hátt og ég áður sagði er dreginn frá kennslutíma þeirra einn mánuður vegna fría og þeir þurfa ekki að kenna nema 27 stundir á viku í sex mánuði, þá eru það ekki nema tvær og hálf klst. á dag til jafnaðar, sem þessir menn þurfa að vinna til þess að fá laun, sem nægja meðalfjölskyldu til lífsframfæris á ári. Það er áreiðanlegt, að með þessu fyrirkomulagi er þessi fjölmenna stétt, kennarastétt landsins, þannig sett, að hún hefur stytztan vinnutíma allra þegna þjóðfélagsins til þess að geta lifað sómasamlegu lífi. (SigfS: Hvað hafa prestar langan vinnutíma? Og hvað hafa sýslumenn og læknar langan vinnutíma?) Það er óhætt að fullyrða, að læknar hafa langan vinnutíma yfirleitt. Og líka hafa sýslumenn, margir hverjir, langan vinnudag. Það er ákaflega misjafnt um presta, en ég geri ráð fyrir, að sumir þeirra, a.m.k. hér í Reykjavík. hafi nokkuð langan vinnudag. (SigfS: Þeir eru hundrað utan Reykjavíkur.) Nú. hv. 8. þm. Reykv. fór út, svo að ég þarf ekki að eyða tíma í að svara honum. Og um vinnutíma þessarar fjölmennu stéttar, kennaranna. er dálítið langt gengið í því að innleiða svo stuttan vinnutíma fyrir svo fjölmenna stétt. Verkamenn, sem hafa öflug samtök með sér og vinna átta stundir á dag og hafa á síðustu tímum vitað, hvað þeir máttu bjóða atvinnurekendum, hafa ekki farið fram á, að vinnutíminn væri styttur úr átta stundum, og þeir hafa miðað við átta stunda vinnudag til þess að geta lifað sómasamlegu lífi. Það er ákaflega mikill munur á þessu hjá verkamanninum og kennaranum. Kennarinn vinnur tvo og hálfan tíma og upp í þrjá tíma á dag til jafnaðar, en verkamaðurinn átta tíma á dag. — Ef við snúum okkur til sjómanna og bænda, verður samanburðurinn enn þá hagstæðari kennurunum.

Ég tel nú ekki ástæðu til að vera að lengja ræðu mína um þetta atriði að svo stöddu. Þessu verður nú sennilega ekki um þokað að öðru leyti en því, að ég geri ráð fyrir, að þær brtt., sem ég flyt hér á þskj. 1153 og 1162, verði samþ. og þá komi nokkur leiðrétting á, þannig að kennarar muni verða að vinna nokkru lengur en sex mánuði til þess að fá full árslaun, svo að skólinn verði að miðast við níu mánuði. Er það nokkur leiðrétting, þó að vinnutíminn fari samt sem áður ekki niður úr þrem stundum á dag, ef miðað er við allt árið.

Ég gat um, að ég væri í flestum atriðum á móti þessu frv. Og ég gat um, hvers vegna ég kæmi ekki með fleiri brtt. við frv., sem sé um því, að vonlaust mundi vera að fá samþ. allar brtt., sem miða til lækkunar, vegna þess að meirihlutafylgi mun vera fyrir því að samþ. frv. næstum óbreytt hér á hæstv. Alþingi.

Þeir, sem fylgja þessu frv., halda, að þeir séu að gera launastétt landsins greiða með því að samþ. frv. Og því færi betur, ef þjóðarbúið væri svo vel statt, að það gæti gert svona vel við þegna sína. En það er ekki nein sérstök svartsýni hjá mér, og ég er ekki með neinar illspár, þó að ég freistist til þess að halda það og segja það hér, að það sé mjög hæpið, að það sé hægt að standa undir þeim bagga, sem ríkissjóði er bundinn með þessum launal., ef frv. verður samþ. lítt eða ekki breytt. Hvernig fer ríkissjóður að standa undir þessum bagga, eftir að fiskurinn er fallinn í verði? — Með launal. er gert ráð fyrir, að launamenn beri óskertan hlut frá borði, hvernig sem atvinnuvegunum vegnar. En það er vitað, að um leið og atvinnuvegunum fer að hraka, um leið og atvinnuvegirnir hætta að bera sig, kemur það niður á launamönnum, því fólki, sem tekur laun hjá ríkinu. Það endar þá með því, þegar boginn er spenntur þetta hátt, að ríkissjóður getur ekki staðið við þær skuldbindingar og getur ekki staðið undir þeim bagga, sem Alþ. bindur honum með þessari löggjöf.

Ég tók fram, að ég færi ekki fram á, að brtt. mínar kæmu til atkv. við 2. umr. málsins, heldur mun ég taka þær aftur til 3. umr. og gefa hv. fjhn. tækifæri til þess að athuga þær og gera þær að sínum till., ef hún svo vildi við hafa. Ég teldi eðlilegast að koma breyt. fyrir á einni brtt., taka í eina brtt. þessa breyt., sem felst í brtt. mínum á þskj. 1153 og 1162, sem eru við 17. og 30. gr. frv. og vísa báðar til ákvæða 16. gr. frv.

Ég skal svo láta máli mínu lokið að sinni. Ef hv. fjhn. treystir sér ekki til að taka till. minar til greina að einhverju leyti og treystir sér ekki til að taka þær svo mikið til greina, að þær nái tilgangi sínum, þá getur verið, að ég sjái ástæðu til að rökstyðja mál mitt frekar við 3. umr. málsins.