20.02.1945
Neðri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (4696)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Hv. þm. V.Húnv. hafði sitthvað að athuga við meðferð þessa máls af hálfu þeirra, sem unnið hafa að undirbúningi launalagafrv. En ég held, að hann hafi sagt meira en rök voru fyrir. Hann taldi upp ýmislegt, sem mþn. í launamálum frá 1933–1934 hefði afrekað í þessu efni með skýrslusöfnun, sem hún hefði unnið að, og ýmsum gögnum, sem hún hefði aflað sér, en þessi n. eða þeir, sem að undirbúningi þessa frv. unnu, hefðu ekki aflað sér neinna slíkra gagna. En hann gætir ekki þess, að þeir, sem hafa undirbúið málið að þessu sinni, höfðu fyrst og fremst öll þau gögn, sem þessi ágæta mþn. frá 1933–1934 hafði aflað. Það er, að því er ég hygg, beinlínis tekið fram í nál., að n. hafi haft fulla hliðsjón af þeim gögnum í starfi sínu, og það er einnig tekið fram, að hún hafi ekki aðeins borið sig saman við opinberar stofnanir um launagreiðslur, heldur líka einkafyrirtæki og hálfopinber fyrirtæki og hagað till. sínum um launaákvarðanir með hliðsjón af því. Ég get vísað til þess, sem hæstv. forsrh. hefur sagt í ræðu sinni um það, hvernig hlutfallið mundi vera milli kaupgreiðslna einstakra fyrirtækja og opinberra stofnana. Það er enginn vafi á því, að það er rétt, sem hann sagði, að laun opinberra starfsmanna eru lægri en gerist í einkarekstri, og þarf ekki að leita til einkarekstrar í því sambandi, því að við vitum, að það eru hálfopinber fyrirtæki, sem starfa hér og n. hefur lagt til, að yrðu tekin upp í launal., en Ed. hafði fellt það úr frv., því að þar eru greidd miklu hærri laun en hér er lagt til í þessu frv.

Þá fann hv. þm. að því, að þeir, sem undirbjuggu þessa löggjöf, hefðu ekkert gert til þess að athuga, hvað hægt væri að gera til þess að draga úr rekstrarkostnaði ríkisins. Þetta álít ég rétt. Það var ekki lagt fyrir þá n., sem skipuð var til þess að undirbúa málið, og stj. mun .ekki hafa gert ráðstafanir til þess, og ég er fullkomlega sammála hv. þm. um það, að það sé nauðsynlegt fyrir íslenzka ríkið að gera gangskör að því, að reyna að færa niður rekstrarkostnað sinn. En þess verður að gæta, að leiðin til að gera það með því bara að lækka laun þeirra starfsmanna, sem ríkið hefur í þjónustu sinni, það er ekki hægt nema með því að gera reksturinn einfaldari. En án allrar áreitni við hv. þm. vil ég vekja athygli hans á því, að það, að ríkisreksturinn er orðinn svo margbrotinn og kostnaðarsamur sem raun er á, það er vitanlega fyrir tilverknað þeirra, sem hafa farið með völdin í þessu landi undanfarin ár og undanfarna áratugi. Og það er ekki hlaupið að því að gera breyt. á því með fáum pennastrikum. Menn verða að gera sér ljóst. að ef færa á saman reksturinn, þá leiðir það líka til minni tekjustofna fyrir ríkið og til minni aðgerða af ríkisins hálfu til framdráttar athafnalífinu í landinu, því að því meira sem gert er í þessa átt, því meiri kostnaður verður við starfsrekstur ríkisins. En þá verða menn að gera sér grein fyrir, hvort þeir kjósa heldur að minnka kostnaðinn eða slá í engu af um afskipti ríkisins af framkvæmdum í landinu og atvinnubótum eða þá að draga úr því.

Þá fann hv. þm. að því. að ekkert hefði verið athugað um það, hvað þjóðarbúinu væri fært að bera. Það er náttúrlega — á tímum eins og nú eru og hafa verið á undanförnum árum —. ekki svo auðgert. og ef maður á að skapa sér einhverja hugmynd um það eða byggja launal. á nokkuð öruggri vissu um það, hvað þjóðarbúinu kunni að vera fært að bera í einhverri framtíð, sem við vitum ekki, hvernig kann að verða, þá þýðir það ekkert annað en það að fresta löggjöfinni. Og það er það, sem ég held, að hafi vakað fyrir þessum hv. þm. og flokki hans, að það séu farnar krókaleiðir að því marki og það sé rétt að svo stöddu að ráðast ekki í að fastákveða laun opinberra starfsmanna. Hann vill samt ekki taka ábyrgð á eða segja, að það vaki fyrir fjhn., en vill, að þetta sé gert með öðrum hætti, og á þá lund er sú brtt., sem hann flytur. Ég skal fúslega játa, að þetta væri ágætt, ef það væri jafnauðvelt og hann vill vera láta. Til þess að láta laun hækka og lækka eftir því, hversu þjóðarbúskapurinn gengur, þyrfti þó að hafa einhver lágmarkslaun, og eins og nú horfir, þegar flestir ætla, að ýmsir liðir, svo sem húsaleiga, fari hækkandi, þá yrði erfitt að ákveða þau lágmarkslaun.

Sú niðurstaða, sem nú er fengin, er byggð á gögnum frá liðnum árum, og það er í rauninni hið eina, sem hægt er að byggja á. Hitt er alls kostar ófært að ætla sér að ráða í ókomna tímann og miða nokkuð við hann.

Einhver hv. þm., ég held helzt, að það hafi verið 2. þm. Rang., sagði hér áðan, að enginn vildi kannast við að hafa samið þetta frv., og efaði jafnvel, að það væri byggt á þeim undirbúningi, sem fram hefur farið. En hitt er þó vitað, að frv. er í aðalatriðum byggt á niðurstöðum launamálan. frá 1934. Hv. þm. V.-Húnv. talaði um hækkun þá, sem frv. mundi valda. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, er talið, að hækkunin á grunnlaunum muni nema rúmlega 9%. Um þetta held ég, að ekki sé ágreiningur. En þegar við þetta bætast uppbætur, sem voru ekki greiddar á upphæðir síðasta ár, en þær nema um einni millj. kr., þá verður þetta alls um 4 millj. kr., þar sem auknar launagreiðslur vegna grunnkaupshækkunar munu nema um þrem millj. kr. Þetta eru að sjálfsögðu aukin útgjöld fyrir ríkissjóð, ef til vili þó ekki svo tilfinnanleg miðað við núverandi upphæðir, en miðað við okkar venjulega fjárhag. Ég hef ekki trú á, að þetta verði lagfært með þeim aðferðum, sem hv. þm. V.-Húnv. leggur til, en það eru til aðferðir, sem eru heppilegri. Það er augljóst. að þegar kreppir að ríkinu, neyðist það tiI að hækka tekjuskatt á þessi laun, og því verri sem hagurinn er, því hærri verður tekjuskatturinn. Þessi leið verður farin eða þá, að launin verða lækkuð. Ég held, að yfirleitt máli menn þetta of svart. Ég fyrir mitt leyti tel, að þetta hefði að vísu getað verið minni hækkun hjá hv. Ed., en úr því sem komið er, þá verður það svo að vera. Það liggur í augum uppi, að fjhn. hefur ekki haft aðstöðu til að bera sig saman um þær brtt., sem komið hafa fram, og hef ég því ekkert um þær að segja. Ég , get að vísu getið þess, að margt, sem þar er nefnt, var rætt í n., og get ég vikið að nokkrum þeirra af þeim sökum.

Verður þá fyrst fyrir mér till. um hækkun á launum dýralækna. Nefndin leit svo á, að ekki væri tímabært að hækka þá meir. Það má vera, að við höfum haft þá tilhneigingu að meta meir mannalækna en dýralækna. enda mun það vera svo, að meira er vandað til menntunar mannalækna. Ég tel vafasamt, að n. fáist til að mæla með þessari till.

Hv. þm. Snæf. og 1. þm. Rang. bera fram till. um að fella úr 37. gr. ákvæði um afslátt í gjaldskrá, héraðslækna. Ég skal játa, að mér fannst þetta einkennilegt, en ég fékk þá skýringu, að læknar ætluðu að mynda með sér félagsskap þessu viðvíkjandi. Ég geri ráð fyrir, að það sé rétt hjá hv. þm. Snæf., að „skólahverfi“ skuli koma í stað „skólahéraðs“, og ber þá að samþykkja það.

Annars getur komið til mála að lækka laun þeirra, sem hækkaðir hafa verið, og væri það sennilega heppilegasta leiðin fyrir n., þegar alltaf er legið á henni að hækka til samræmis.

Hv. þm. N.-M. taldi það mundu vera gleymsku, að tilraunastjórar voru ekki í frv. Þetta var þó ekki svo, en n. taldi þetta heyra undir búnaðarþing.

Ég geri ekki ráð fyrir, að n. fallist á brtt. um hækkun launa skólastjóra húsmæðraskóla. Um brtt. hv. þm. Snæf. um, að síðasta málsgr. 30. gr. falli niður, vil ég segja það, að ég fyrir mitt leyti get fallizt á., að þessir skólar verði teknir út úr. Það er svo um héraðsskólana, að aðstaða þeirra er mjög á hverfanda hveli. Fyrst þegar gengið hefur verið frá því, hver á að bera ábyrgð á þeim skólum, þá má taka þá inn á launalög.

Svo skal ég að lokum geta þess, að fjhn. hefur ákveðið að taka aftur til 3. umr. brtt. við 22. gr. svo og brtt. varðandi utanrrn. Þótt ég geti ekki stillt mig um að vara við því að gera þetta rn. að yfirráðuneyti, — slíkt er vel fallið til að koma á metingi, — þá hygg ég, að það sé rétt, sem þar er lagt til, enda gat ég þess í framsöguræðu.

Þá hefur mér láðst að geta þess, að n. hefur ekki tekið ákvarðanir viðvíkjandi launum sýslumanna. Hún er þeirrar skoðunar, að á þeim sé óheppilegt fyrirkomulag, eins og gert er ráð fyrir í frv., en hefur ekki komið sér niður á neitt endanlegt í þessu efni.