23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (4711)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Það er fremur fámennt hér í deildinni og ekki til mikils að halda langa ræðu, enda mun ég stilla orðum mínum mjög í hóf, en vil minnast á þær brtt., sem ég er flm. að.

Ein meginástæðan til afgreiðslu þessa máls er sögð vera sú, að þörf sé að samræma launagreiðslur. En samræming er venjulega í því fólgin að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu. En út af þessu er brugðið í 16. gr. frv., það er, að farkennarar, sem vinna sama starf og aðrir kennarar, skuli hafa lægri laun. Yfirleitt mun það vera svo, að ef menn á annað borð eru ráðnir til starfsins, þá fá menn sömu laun og þar hafa við gengizt. Þannig er það til dæmis um skrifstofustörf. Nú er rétt að athuga, hvers vegna þessir farkennarar eru til. Það liggja fyrir skýlaus ákvæði um, að menn með kennararéttindi skuli sitja fyrir um embætti. Það er þess vegna ekki tilfellið, að þessir menn hafi bolað öðrum frá, og þeir hafa enga tryggingu fyrir starfinu áfram, þar eð þeir verða að víkja, ef maður með réttindi sækir um starfið. Mér virðist þetta ekki alls kostar réttlátt, og ég hygg. að kennurum sé ekki gerður neinn greiði með þessu. En hins vegar munar ríkissjóð þetta litlu. Það eru helzt hreppsfélögin, sem kynnu að hafa tilhneigingu til að spara með því að ráða til starfsins menn með lægri launum. Ég hef því flutt brtt. um þetta ásamt hv. þm. V.-Húnv., en fallist hv. þdm. ekki á hana, höfum við flutt aðra brtt. til vara.

Farkennurum má skipta í tvo flokka. Annars vegar eru menn, sem hafa gegnt þessu starfi árum saman og eru vaxnir inn í stöðuna. Hins vegar eru allmargir menn, sem ráðnir eru til bráðabirgða og ætla sér ekki að verða kennarar framvegis. Mér virðist ekki hægt að líta sömu augum á þessa menn og teldi rétt að undanskilja hina fáu reyndu og þykir hæfilegt að miða við 5 ára starfstíma, þannig að í stað þess, að þeir fái 75% miðað við full laun, skuli þeir fá 80 %.

Þá hef ég leyft mér að flytja brtt. um að hækka laun heimavistarbarnaskólastjóra. Eins og nú er frá gengið, mundi starfstími þeirra oftast reiknast 7 mánuðir, en launin eru miðuð við 9 mánaða starfstíma, og fengju þeir þau því ekki öll greidd. Þetta er lækkun frá því, sem var og mþn. ætlaðist til. Starf þessara manna er eitt hið erfiðasta og ábyrgðarmesta, og má segja, að þeir strjúki aldrei um frjálst höfuð. Þetta er nokkuð öðruvísi í heimangönguskólum. Þar eru kennararnir frjálsir, þegar kennslu er lokið, enda er það kunnugt, að menn hafa þreytzt á þessum starfa og sótt burtu. Ég hafði orð á því við 2. umr., að í l. um héraðsskóla væri svo ákveðið, að starfstími kennara miðaðist við þarfir stofnunarinnar. en þessir skólar eru sjálfseignarstofnanir, sem skólastjórnirnar ráða að mestu. Nú legg ég til, að í stað „kennslutíminn“ komi: starfstíminn. Þetta er brtt. við brtt. fjhn.

Það hefur nokkuð borizt í tal við þessar umr., að samræma þyrfti starfstíma kennara í landinu. Ég er þessu samþykkur og get í rauninni fallizt á till. fjhn. um 9 mánaða starfstíma. En það ber að athuga, að þegar frv. var upphaflega samið, var ekki reiknað með þessu, svo að grundvöllur sá, er frv. er byggt á, raskast nokkuð, ef þessu er breytt, og þarf því að gera breyt. á frv. í samræmi við það. Fjhn. hefur tekið þetta sjónarmið nokkuð til greina, en ég tel, að þessa sé þó ekki nægilega gætt. Í frv. var gert ráð fyrir, að kennarar héraðs- og húsmæðraskóla væru einum flokk neðar en kennarar gagnfræðaskóla. Þessu var haggað í fjhn., og hef ég nú lagt til, að kennarar héraðs- og húsmæðraskóla verði hækkaðir um einn flokk, svo að hlutfallið sé hið sama og var í upphaflega frv.

Sama gildir eins um kennara stærri skóla, t.d. kennaraskólans, stýrimannaskólans og vélstjóraskólans í Reykjavík. Í frv. voru laun þeirra miðuð við 7 mán. starf, og ég ætla, að skipun þessara kennara í ákveðinn launafl. hafi einmitt byggzt að verulegu leyti á því, að miðað var við þann starfstíma. Með því að samræma nú þetta á þennan hátt, sem ég hef áður drepið á og liggur fyrir í brtt. fjhn., kemur fram í raun og veru hækkun hjá þessum kennurum miðað við það, sem n. lagði til og upphaflega stóð í frv. Ég get ekki komizt hjá því að benda á það t.d., að kennaraskólakennarar, sem kenna 7 mánuði, mundu, ef engin leiðrétting væri gerð önnur en sú að miða laun þeirra við 9 mánaða starf, verða í raun og veru lægra launaðir en barnakennarar, sem þeir sjálfir eru að kenna og útskrifa, ef barnakennarar vinna að vísu a.m.k. 9 mánuði. Mér finnst þetta ekki eðlilegt. Og þess vegna legg ég til á þskj. 1229, að kennarar kennaraskólans, vélstjóraskólans og stýrimannaskólans hækki um einn flokk, en ég ætlast til, að til frádráttar komi aftur hjá þeim og öðrum það, sem þeir vinna skemmri tíma, og er það í samræmi við það, sem fjhn. hefur lagt til.

Þá hef ég veitt því athygli. að í 9. brtt. á þskj. I206 frá fjhn., sem fjallar um það atriði, sem ég hef sérstaklega gert að umræðuefni, að þar er komizt svo að orði: „Árslaun kennara samkv. 15., 16. og 29. gr. og barnaskólastjóra eru miðuð við 9 mánaða kennslutíma minnst, en lækka um einn níunda hluta heildarlaunanna fyrir hvern mánuð, sem kennslutíminn er skemmri.“ — Ég vildi út af þessu gera þá fyrirspurn til hv. fjhn., hvað hún hefði hugsað í þessu sambandi um skólastjóra málleysingjaskólans. Mér finnst, ef þessi regla á að gilda fyrir þá líka, að óþarft hefði verið að orða þetta þarna og segja „barnaskólastjóra“, — heldur, að árslaun kennara og skólastjóra skuli miðuð við 9 mánaða starfstíma. Því væri æskilegt að fá að heyra álit n. og tilætlun um þetta atriði. — Þá má líka benda á það, að þótt ég sé í sjálfu sér samþykkur þeirri breyt., sem ég hef drepið á, um hækkun gagnfræðaskólakennara, sem fjhn. hefur lagt til, þá hygg ég, að sú hækkun hafi það í för með sér, að þeir kennarar verði í raun og veru jafnháir sumum skólastjórum í þessum launafl., og það er náttúrlega ekki í samræmi við ákvæði um laun skólastjóra og kennara að öðru leyti í frv. En vel má vera, að það standi í sambandi við orðalag þessarar brtt., 9. brtt., og að fjhn. hafi hugsað sér, að laun þeirra framhaldsskólastjóra yrðu miðuð við raunverulegan starfstíma, jafnvel þótt styttri væri.

Ég hef þá farið nokkrum orðum um þessar brtt., og skal ég láta máli mínu lokið um þessi atriði.