23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (4714)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Það þýðir náttúrlega lítið að vera að orðlengja þetta. En ég get þó ekki stillt mig um að drepa á einstök atriði, sem komið hafa fram í þessum umr. og í sambandi við brtt., sem fram hafa verið bornar.

Nefndin hefur orðið sammála um að mæla með brtt. frá hv. 2. þm. N.-M. um, að tilraunastjórar verði settir í launal., þó að þeir hafi verið felldir úr, af því að stjórn Búnaðarfélags Íslands hafði færzt undan því, að Búnaðarfélagið eða þessi starfsemi væri tekin í launal.

Hins vegar hefur n. ekki viljað fallast á brtt. frá þessum sama hv. þm. um það að rugla saman mönnum eins og þar er gert á þskj. 1152. N. telur, að það sé svo mikill munur á þessu, að það sé ekki fært að slá því öllu í einn hóp.

Till. hv. 2. þm. Rang. á þskj. 1143 gerir n. ráð fyrir, að flm. fallist á að taka aftur með tilliti til brtt., sem n. flytur um sama efni.

Í þessu sambandi skal ég taka fram út af, ræðu hv. þm. a.-Sk., að þar, sem gerður er greinarmunur á skólastjórum barnaskóla og annarra skóla í sambandi við starfstíma, þá er það væntanlega þannig, að það eru aðeins skólastjórar barnaskóla, sem falla undir þetta, og það er miðað við minni starfstíma. Hins vegar lítum við svo á, að skólastjórar annarra skóla, svo sem gagnfræðaskóla og menntaskóla og fleiri, starfi fyrir skólana jafnvel lengur en kennsla stendur yfir.

Þá hefur n. ekki getað fallizt á till. á þskj. 1155, a.m.k. ekki meiri hl. n.

Um brtt. 2. þm. Rang. er sama að segja og hina brtt. Það hefur ekki heldur fengizt atkvæðamagn fyrir brtt. hv. tveggja landsk. þm., ÞG og LJós, á þskj. 1171, og sama er að segja um brtt. á þskj. 1172 og 1173, sem báðar eru frá hv. 2. landsk. (ÞG) , og tel ég ekki þörf að orðlengja það frekar.

Hér hefur rignt yfir okkur í dag brtt. Það er svona helzt líkast því sem er við 2. umr. fjárl., hvað fjöldann snertir. Það kom okkur nm. ekki neitt á óvart, að það mundi verða hafin herferð á hendur hv. þm., og ekki við öðru að búast en einhver svignaði fyrir þeim árásum. En ég hef áður almennt talað um afstöðu n. til þessara brtt. flestra, og er því óþarft að endurtaka svo mikið af því.

Hv. þm. Snæf. ber fram brtt. um að stofna stöður á tollstjóraskrifstofunni, sem kallaðar eru deildarstjórastöður. Þetta kemur n. ekki heldur á óvart. Það var talað um það við hana. En það er eins ástatt um þessar brtt. og svo margar aðrar. Þessir starfsmenn hjá tollstjóra hafa komizt hærra í launum en n. telur fært að fara. Munar þó minna á þeim en mörgum öðrum. Og þeir eru jafnvel hærra launaðir en margir aðrir, sem hafa orðið fyrir barðinu á þessum niðurskurði, sem gerður hefur verið til samræmis.

Þá er till. sama hv. þm., að fulltrúar fyrsta flokks hækki um flokk eftir sex ára starf. N. getur ekki heldur mælt með þeirri till. Þeir, sem þar er um að ræða, munu að vísu hafa 600 kr. hærri grunnlaun en gert er ráð fyrir í frv. Ég efast ekki um, að þeir starfsmenn, sem þar er um að ræða og hv. þm. Snæf. ber aðallega fyrir brjósti, vinni störf sín ágætlega, en n. hefur virzt, að ef farið væri að raska þeirri flokkun, sem gerð er í frv., þá mundu fleiri þar á eftir fara og af hljótast stórkostleg launahækkun.

Hv. þm. a.-Sk. tók svo til orða um þá hækkun, sem hann vildi gera, að ríkissjóð munaði ekki mikið um það. Maður hefði ekki búizt við, að slík orð kæmu úr þeirri átt, eftir því sem hans flokkur hefur talað. Það má segja, að ekki muni mikið um eitt og annað, en safnast, þegar saman kemur. — Svipað má segja um till. þær, sem fram eru komnar frá hv. þm. Snæf. og fleirum viðvíkjandi póst- og símamönnum. Þar er lagt til, að þeir hækki um flokka. Ég hef gert þetta svo rækilega að umtalsefni áður, að það er óþarft að bæta þar við. Aðeins verð ég að geta eins atriðis, þar sem hv. þm. Snæf. gerði þá grein fyrir því, hvað þessir menn væru hart leiknir, að þeir lækkuðu um 3700–5200 kr. Samkvæmt þeim gögnum, sem mþn. hafði við að styðjast og rn. hafði búið í hendur á henni, þá hafa þessir starfsmenn komizt upp í 6750 kr., en þeim eru ætluð 6600 kr. hámarkslaun í frv., að ég hygg. Mismunurinn er 150 krónur, og þó að á það komi verðlagsuppbót, þá getur það ekki skipt þúsundum. Ef þetta samt sem áður á sér stað, þá er það aðeins fyrir það, að þeir hafa aukaþóknun, sem hefur ekki komið fram í þeim plöggum, sem n. hafði til að fara eftir. Nú er það algild regla í þessu frv., að öll aukaþóknun skuli falla niður nema sú undantekning, sem gerð er um innheimtumenn ríkisins, sem mest ábyrgð hvílir, að vera vel vakandi í starfi sínu og allt veltur á hverjum einstaklingi í sínum verkahring.

Það kom mér ekki á óvart, að fram kæmi till. um að fella niður þessa 2. flokks starfsmenn. Það má vel vera. að mönnum þyki þetta lítil lækkun að vera kallaðir 2. flokks menn, en það er að gera við því, sem er, að það er einu sinni svona, að menn eru misjafnlega færir og afkastamiklir starfsmenn. Ég geri ráð fyrir, að það vaki fyrir þeim mönnum, sem leggja til að flokka starfsmennina þannig í flokka, að það eigi að greiða mönnum laun eftir því starfi, sem þeir inna af hendi. Ég held, að hv. 7. þm. Reykv. sé fylgjandi því, að ekki eigi að greiða skussa jöfn laun og afburðamanni fyrir störf þeirra. Ég er alveg sannfærður um, að þessi hv. þm. hefur margsinnis haldið fram þeirri skoðun, því að það er skoðun, sem flokksstefna hans byggist á m.a., að einstaklingurinn fái að njóta hæfileika sinna, en ekki greiða öllum sömu laun, afburðamönnum jafnt sem skussum, því að með því er stefnt að því að gera alla að skussum, eftir því sem hægt er. Ég get því ekki fallizt á þau rök, sem færð hafa verið fram fyrir því, að gera eigi alla starfsmenn í hverri grein jafna, gera rétt allra starfsmanna í sömu grein jafnan til launa. Ég álít, að rétt sé að gera mismun, eftir því, hvernig starfið er leyst af hendi. Ég tel sjálfsagt, að þeir, sem vinna mikið og gott starf, fái að njóta þess og séu hækkaðir í launum, og það er áreiðanlegt, að vinnuveitendur græða á því. En ef öllum er greitt jafnt, þá verður afleiðingin sú, að starfið verður yfirleitt lélegra, og þá verða framkvæmdirnar öllu dýrari, jafnvel þó að einstakur maður fái minni laun, því að það þarf marga menn til að vinna fárra manna verk, sem duglegir eru. Ég get þess vegna ekki fallizt á, að þessi till. eigi rétt á sér, enda er það vitanlegt, að þær till. eru ekki stríð um, hvort skipta eigi mönnum í flokka, það er bara áróður fyrir því að hækka laun.

Hv. 4. þm. Reykv. var með nokkrar till. til hækkunar. Ég verð að segja það að gamni mínu, að ég hef heyrt, að hann sé búinn að setja upp skrifstofu til að taka á móti beiðnum um launahækkanir og flytja þær inn í d. Ég þykist vita, að hann sé svo mikið góðmenni, að hann fengi ekki staðizt slíka ásókn, og mér finnst till. hans vera spegill af því, hvernig menn eru fengnir til að játast undir slíkan áróður. Ég veit, að það er miklu vinsælla fyrir hv. 4. þm. Reykv. að standa upp og mæla með svo og svo miklum hækkunum ýmissa starfsmanna en fyrir mig að standa upp og mæla á móti þeim, en það verður að taka tillit til fleira en þess, hvað vinsælt er og óvinsælt. Hann fór mörgum orðum um skipaskoðunarstjóra og aðstoðarmann hans, hversu mikils varðandi starf þeirra væri, og skal ég á engan hátt draga úr því. En ég verð að segja, að þau laun, sem þarna er um að ræða, hafa ekki verið talin , hingað til nein smánarlaun. Það eru laun, sem til skamms tíma voru ætluð hæstaréttardómurum og ráðherrum, 10 þúsund krónur, og ráðherrum og hæstaréttardómurum hefur ekki til skamms tíma verið greidd verðlagsuppbót nema á hluta af þeim. Ég veit, að það eru að ýmsu leyti breyttar þarfir manna og kröfur til lífsins og verðlagið kannske líka þrátt fyrir verðlagsuppbótina. En það er líka á það að líta, að það er allverulegur munur á þessum launum, sem þarna er um að ræða, og því, sem áður hefur verið borgað fyrir sambærileg störf. Hann talaði um, að þessir starfsmenn ættu ekki að þurfa að vera á snöpum eftir aukastörfum, en ég geri ráð fyrir, að margir líti svo á, að þeir munu ekki að þurfa þess. Það er ekki það, að ég álíti ekki þennan mann alls góðs maklegan, en það eru svo margir starfsmenn, sem segja má svipað um, og ættum við alltaf að láta undan slíkum rökum, þá færu launin að hækka nokkuð mikið.

Í sambandi við aðstöðu þessara manna og þörfina á því að setja þá hærra í launum en gert er í frv. vil ég vekja athygli hv. flm. á því, að samkvæmt þeim gögnum, sem ég gat um áðan í sambandi við annað, sem launamálan. hafði við að styðjast, þá eru laun þessara manna hækkuð um þúsund krónur í grunnlaun, svo að ef mennirnir hafa getað lifað og starfað hingað til, þá ættu þeir því fremur að geta það eftirleiðis, því að það er mikill munur að fá þúsund króna viðbót á grunnlaunin. Er það mikill munur eða hjá þeim, sem haldið hefur verið fram, að yrðu fyrir 3–5 þús. króna launalækkun.

Ég taldi rétt að drepa á einstök atriði í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, en sé ekki ástæðu til að orðlengja mikið um það. Fjhn. hefur ekki haft tíma né tækifæri til að taka afstöðu til þessarar till., sem safnað hefur verið hér saman inn í þingsalinn. En ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því, að það er sitt hvað að starfa að því að setja saman launal. mánuðum saman, vera í því starfi og fara yfir það aftur og aftur, gera samanburð milli starfsgreina og einstakra starfsmanna eða bara að taka við umkvörtunum í 2–3 daga og bera svo fram till. um það í þinginu. Hvort halda hv. þm., að líklegra sé til að byggja á, till., sem eru undirbúnar af mþn., sem starfar mánuðum saman, og þingn., sem starfar þar á eftir líka mánuðum saman. a.m.k. fjhn. Ed., eða þm., sem taka að sé2 að bera fram till. um breyt. til hækkunar og samræmingar? Ég er ekki í vafa um, að allar þær breyt. verða til ósamræmis.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. a.-Sk. var að bera. sig hér upp undan, hvað misjafnlega væri búið að kennarastéttinni, þá vil ég aðeins vekja athygli á því, að í mþn., sem starfaði að þessu máli, áttu sæti þrír kennarar af sjö nm., svo að það ætti að mega treysta því, að gert hafi verið það, sem hægt hafi verið, til að sanngjarnar till. kæmu fram í þeirra garð.