23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (4716)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Hv. 8. þm. Reykv. hefur að nokkru leyti tekið af mér ómakið. Að sönnu get ég verið þakklátur hv. frsm. fjhn. fyrir það, að hann gerði engar aths. við brtt. okkar félaganna, sem eru á þskj. 1227, nema eina þeirra. Og þó að hann minntist ekki neitt á hinar brtt. á þskj. og þá ekki heldur til viðurkenningar, þá vil ég líta svo á, að hann hafi ekki álitið þær neitt fráleitar, fyrst hann mótmælti þeim ekki. En brtt. sú, sem hann gerði þarna að umtalsefni og taldi, að væri ekki réttlát og ekki bæri að samþ., er 2. brtt., sem hv. 8. þm. Reykv. hefur nýlokið við að tala um. Hv. frsm. sagði, að hann byggist við því, að ég hefði gert það einhvern tíma og líklega oft, sem hann taldi réttmætt vera, að haga því svo. að menn fengju misjafnt kaup eftir dugnaði. Ég hef haft töluvert með vinnu að gera, en ég get ekki minnzt þess, að ég hafi nokkurn tíma goldið þeim misjafnt kaup, sem unnið hafa sama verk, og það þótt þeir hafi verið misjafnir að dugnaði. Hitt reyndi ég, að fá duglega menn til vinnu. En þegar þeir voru ráðnir, fengu allir jafnt, ef þeir voru fullorðnir menn. En hitt vil ég leggja áherzlu á, að með því að búa til 1. og 2. flokks menn í þessum stöðum, sem brtt. fjallar um, er tekið upp algert nýmæli í íslenzka ríkinu. Það hefur gilt hjá okkur hingað til að setja viss skilyrði fyrir því, að menn væru hæfir til þess að fá störf að vinna fyrir ríkið. Það eru viss skilyrði, sem sett eru fyrir því, að maður geti arðið sýslumaður. prestur eða læknir o.s.frv. En þegar menn hafa uppfyllt þessi skilyrði, hefur engum dottið í hug að segja við neinn sýslumann: Nú ætla ég að vita, hve duglegur þú ert, og kaup þitt á að vera I. eða II. flokks kaup eftir því, hversu duglegur þú reynist. — Og það er ekki heldur sagt við prestana: Við viljum ekki ákveða laun þín nú, því að verðir þú pokaprestur, færð þú II. flokks laun, en verðir þú skörungur, færð þú I. flokks laun. — Nei, íslenzka ríkið hefur fyrir löngu markað þá stefnu að setja mönnum viss skilyrði. sem þeir verði að uppfylla til þess að teljast hæfir til starfa fyrir það, en stöðurnar hafa svo verið veittar með afmörkuðu kaupi, þannig að stöðurnar hafa verið jafnt launaðar, hvort sem menn hafa verið taldir duglegir eða miður duglegir í starfi sínu. Og í þessum tilfellum, sem um er að ræða í brtt., er eins á komið. Mönnum er gert að skyldu að hafa vissa undirbúningsmenntun og þar að auki að vera nemendur við vissa stofnun vissan árafjölda. Síðan taka þeir próf. Ef menn hafa lokið þessu öllu, eiga þeir að njóta þeirra launa, sem stöðunni fylgja, án þess að mismunur á launum komi þar til greina, þar sem þeir hafa allir fullnægt sömu kröfum, sem til þeirra eru gerðar.

Það er líka annað í þessu. Nú fer því mjög fjarri, að ég vilji álíta það eða halda því fram. að þeir menn, sem ráða yfir þessum stöðum, mundu misbeita umráðarétti sínum yfir því. hverjir ættu að teljast í þessum tilfellum I. flokks og hverjir II. flokks menn. En ég vil þó minna á það, að það þekkist varla, að slíkt sjálfdæmi sé sett, að sá, sem eigi að gjalda kaup, skuli ráða, hvort það eigi að gjaldast eftir hærri eða lægri taxta. Ef t.d. mönnum, sem ráða menn til alls konar vinnu, svo sem t.d. á vélaverkstæði eða við uppskipun eða því um líkt, væri sett í sjálfsvald, hvort þeir greiddu I. eða II. flokks kaup, og ættu að ákveða það eftir á, þá hygg ég, að þar reyndust ekki vinna margir I. flokks menn. Ætli þeir, sem svona væri sett í sjálfsvald að ráða um kaupgreiðslu, vildu oft greiða I. flokks kaup? Ég held ekki. En það er eftir frv. sett í sjálfsvald ráðamönnum við ýmsar stofnanir, hverjum þeir vilja greiða I. flokks kaup og hverjum ekki. Stofnunin er ekki skuldbundin til að ráða fleiri menn en hún þarf, en hún á ekki að geta sagt eftir eigin geðþótta, hvaða menn — hún telji I. flokks og hverja II. flokks, ef þeir hafa allir jafnt uppfyllt skilyrði, sem stofnunin hefur sett þeim.

Hv. frsm. fjhn. sagði, að það, sem kæmi fram í brtt. okkar, væri áróður til þess að fá hækkuð launin. Þetta er ekki rétt. Landssíminn og pósturinn fá mikið af nemendum. Og á því skeiði láta þeir þá vinna ýmis léttari verk og með öðrum til aðstoðar. En þegar mennirnir eru orðnir fullfærir, ræður stofnunin þá menn til sín, sem hún þarf að nota. Það er þess vegna ekki um neina þvingun að ræða fyrir neina stofnun í þessu efni, sem farið er fram á í brtt., og ég hygg því ekki heldur um neinar auknar launagreiðslur að ræða, nema við það sé miðað, að stjórnendur þessara stofnana misbeiti valdi sínu og haldi fullkomnum mönnum á II. flokks launum, sem væri ekki annað en áníðsla á mönnum.