23.02.1945
Neðri deild: 137. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (4720)

113. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Herra forseti. — Ég vil alveg mótmæla þeim ummælum hv. 4. þm. Reykv., að fram hafi komið í því, sem ég hef sagt, nokkur andúð gegn þessum mönnum, sem hann talaði um. Mér er alveg óskiljanlegt, að þessi hv. þm. skuli leyfa sér að segja þetta. (SÁÓ: Andúð gegn launum þessara manna.) Og þar sem ég var í mþn. og var með í að hækka laun þessara manna um 1000 kr. og með verðlagsuppbót, sem þá var reiknað með, 2500 kr. og nú 2740 kr., þá virðist mér það lýsa allt öðru en andúð, þó að það atvikaðist svo í hv. Ed., að starfsmenn, sem jafnir voru gerðir þeim frá hendi mþn., væru hækkaðir upp fyrir þá. Að því get ég ekki gert.

Það, sem ég sagði um hæstaréttardómarana, var það, að þeir hefðu til skamms tíma ekki haft nema 10 þús. kr. Ég sagði ekkert um það, hvað þeir hefðu haft nú á allra síðustu tímum. En þar til aukauppbótin var ákveðin í ágúst 1942, höfðu þeir ekki nema 10 þús. kr. í grunnlaun.

Hv. 4. þm. Reykv. lýsti því, að ósamræmið hefði mest hneykslað hann í sambandi við skipaskoðunarstjóra, af því að sá maður hafi haft sömu laun og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu. Ég held, að hann hafi sagt, að skipaskoðunarstjóri hafi haft 10 þús. kr. og skrifstofustjórar í stjórnarráðinu hafa haft 10 þús. kr. síðustu árin. Það er rétt, að skrifstofustjórar í stjórnarráðinu hafa hækkað úr 10 þús. kr. í 12 þús. kr. samkv. frv. En þó að það hafi verið gert, sé ég ekki ástæðu til að láta laun skipaskoðunarstjóra endilega fara eftir því. Um afstöðu mína til þessarar hækkunar skal ég ekki hér segja neitt. En í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að það er allt annað mál, þegar starfsmaður er ráðinn til þess að vinna vandasamt starf og öll laun eru við neglur skorin, að þá er ekki hægt að komast hjá því að veita honum hærri laun vegna þess vanda, sem starfi hans fylgir. En þar með er ekki endilega sjálfsagt, að hann eigi að vera í launum sambærilegur þeim mönnum, sem í hæstu launaflokkum eru. Og það getur verið fullkomlega réttlátt, þegar laun eru hækkuð, að laun annarra manna séu hækkuð upp fyrir hann. Nú hafa þessi laun skrifstofustjóranna verið hækkuð um það að vera 1800 kr. fyrir ofan laun skipaskoðunarstjóra. Skrifstofustjórar í stjórnarráðinu hafa hækkað meira en skipaskoðunarstjóri og hafa líka lagt allt annan og meiri tíma í að undirbúa sig undir starf sitt en þessi starfsmaður, skipaskoðunarstjórinn. Ég held, að það sé ekki vafi á því.

Mér þykir leitt, að hv. 8. þm. Reykv. er ekki hér. Hann taldi það ófært, að í stofnunum ríkisins væru menn til þess settir að meta störf starfsmannanna og segja: „Þessi á að vera í 2. flokki og þessi í 1. flokki.“ Hins vegar vildi hann láta skussana fara. En verður þá ekki að hafa mann í stofnunum til þess að meta, hverjir eru skussar og hverjir ekki? Mér finnst hann detta um þá torfæru, sem hann þóttist ætla að stökkva yfir.

Satt að segja ætla ég að leiða hjá mér að svara hv. 7. þm. Reykv. Hann er svo gersamlega í mótsögn við skoðun sína og stefnu um þessa hluti, að hann mælir bezt sjálfur við sína eigin persónu.