20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (4729)

83. mál, frestun á fundum Alþingis

Kristinn Andrésson:

Herra forseti. — Ég var hér við í gær, er rætt var um, hvort fresta skyldi þingi nú þegar, og greiddi ég þá atkvæði á móti því. — Ég vil, að við gefum okkur nú góðan tíma til þess að ræða ýmis mál.

Við höfum sameiginlega lifað þá stund, sem dýrlegust hefur upp runnið í sögu Íslendinga, stund, sem íslenzka þjóðin hefur þráð öldum saman og forystumenn hennar háð baráttu fyrir kynslóð fram af kynslóð. Við höfum notið þeirrar hamingju að sjá þjóðina fagna af alhug og fundið þennan fögnuð þjóðarinnar gagntaka okkur. Við höfum lifað hrifningarstund, sem er svo sjaldgæf með þjóðunum, en öllum ógleymanleg, er hana lifa. Við höfum orðið einhuga um mál, sem varðar líf og heill og framtíð þjóðarinnar, einhuga um endurreisn lýðveldis á Íslandi. Þessi einhugur hefur vakið sameinað þjóðarátak og þjóðarhrifningu, sem fram kom við atkvæðagreiðsluna og nú aftur við hátíðahöld um allt land. Stundin að Lögbergi á Þingvöllum, sú er við höfum sameiginlega lifað, er ný upprisustund íslenzkra þjóðarafla, sem hlýtur að verða upphaf að nýrri blómgun þjóðfélagsins og menningarátaks, ef ekki brestur forustu til að einbeita orku þeirrar þjóðarvakningar að þeim stærstu og brýnustu viðfangsefnum, sem þjóðina varða. Vegna þessarar stundar, sem við höfum sameiginlega lifað, og þeirra nýju tímamóta, sem eru upp runnin í sögu þjóðarinnar, tel ég það skyldu okkar, sem hér sitjum, að gera okkur hina alvarlegustu grein fyrir því, hvar við stöndum og hvert framhaldið eigi að verða á störfum okkar.

Þjóðin hefur ekki einungis fundið einhug sinn og óþekkta lífsfyllingu. Hún hefur einnig fundið samúð annarra þjóða umlykja sig, og hún hefur vakið á sér nýja athygli umheimsins. Fjöldi erlendra fulltrúa hefur lifað hinn sögulega atburð með okkur og eignazt skilning á aðstöðu okkar og fundið vilja okkar til að vera frjáls og fögnuð okkar yfir frelsinu. Við höfum tengzt vináttuböndum við aðrar þjóðir. Við erum ekki lengur einangruð þjóð, ekki lengur gleymd þjóð á útskeri. Við erum komin á alfaraleið og í samfélag frjálsra þjóða. Við höfum látið þessar þjóðir finna, að við viljum, þótt í smáu sé, efla málstað frelsisins og baráttu frjálshuga þjóða fyrir nýjum heimi. Aldrei í sögu Íslands hefur jafnnáin vinátta tengzt við norsku þjóðina. Sannfæring okkar er jafnframt sú, að upp frá þessu hefjist fyrst einlæg beizkjulaus vinátta okkar við dönsku þjóðina, sem við vorum að slíta sambandi við. Þær þrjár þjóðirnar, sem mestu verða ráðandi í þeim heimi, sem rís upp úr styrjöldinni, hafa allar átt fulltrúa sína hér og kynnzt af eigin raun vilja okkar til að vera frjáls og vilja okkar til þess að lifa í friði og samstarfi við aðrar þjóðir. Þær hafa kynnzt hugarfari okkar og ást og skilningi okkar á frelsinu, og þær hafa viðurkennt þetta frjálshuga þjóðareinkenni okkar og lært að dást að því.

Við stöndum hátt á þessari stundu: einhuga frjáls þjóð, er finnur samúð og vináttu annarra þjóða. Við höfum enn einu að fagna. Það er að miklu leyti ný þjóð Íslendinga, sem nú hefur hlotið fullt frelsi sitt að nýju. Íslendingar hafa aldrei í sögu sinni verið jafn efnum búnir sem nú. Við erum rík þjóð, stórefnuð þjóð. Við höfum aldrei vitað, að við byggðum jafnauðugt land að náttúrugæðum. Við erum fyrst á þessari öld að skilja náttúru landsins, uppgötva auðlegð hennar, auð hafsins kringum strendur landsins, auð hitans í jörðinni, auð fossaflsins, og við erum fyrst nú að byrja að hagnýta okkur þennan óþrjótandi auð náttúrunnar og höfum eflaust ekki enn þá uppgötvað hann nema að örlitlu leyti. Lítum andartak yfir sögu okkar þau nær 1100 sumur, sem við höfum búið hér. Mestallan þennan tíma höfum við búið í landinu án þess að nytja gæði þess nema að örlitlu leyti. Við vitnum oft til þjóðfrelsistímanna, þess 400 ára tímabils, sem þjóðin réð sér sjálf. Meginhluti þess tíma fór til þess að koma sér fyrir í landinu, rækta dálítil tún kringum strjála bæi í einangruðum sveitum. Það tók nærri 60 ár að koma á sameiginlegri stjórn fyrir landið og mynda löggjafarþing. Og svo langt komst aldrei á þessu tímabili, að um nokkra skipulagða atvinnuhætti né verkaskiptingu í landinu væri að ræða. Atvinnutækin öll voru hin frumstæðustu, samgöngur milli byggðarlaga hinar erfiðustu, engin þorp né útgerðarstaðir mynduðust. Síðan tekur við sex hundruð ára tímabil einangrunar og margvíslegrar áþjánar. Um framfarir hjá þjóðinni var alls ekki að ræða, heldur algera stöðvun í atvinnulífi og menningu. Þjóðin gerir ekki einu sinni að halda í horfinu, að draga fram lífið. Íbúatalan hrynur niður öld eftir öld. Varla nokkurt framfaraspor er stigið á þessu tímabili fyrr en undir lok þess. Byggðin færðist saman, engin tækniþróun á neinu sviði, engin frekari hagnýting en áður náttúrugæða lands og sjávar.

Síðustu sjötíu árin hefur hins vegar allt verið að gerbreytast hér á landi. Framfarir hafa orðið hinar stórfelldustu á mörgum sviðum. Íbúatala landsins hefur tvöfaldazt. Landið er orðið allt önnur eign en það áður var, mörgum sinnum verðmætara, sjórinn sú auðsuppspretta, sem forfeður okkar dreymdi ekki um. Er við loks eftir þúsund ára vonlítið og bágborið strit opnum augun, sjáum við, að við eigum hið auðugasta land. Og hvað er það, sem lýkur upp augum okkar? Þjóðin fær tæki í hendur til að hagnýta sér auðinn. Og á þessu stutta tímabili hafa Íslendingar sýnt betur og betur, að þeir eru alls staðar hlutgengir og hafa lært vald á tækni. Þeir stýra skipum sínum sjálfir, reka verzlun sína sjálfir, virkja fossana, nytja jarðhitann, leggja undir sig fleiri og fleiri svið, reisa bæi, hefja margþætt samstarf. Eftirtektarvert er, að því meiri sjálfstjórn sem þeir fá, því hraðari og meiri verða framfarirnar. Og annað: Það er ný þjóð, svo algerlega ný þjóð, sem nú byggir þetta land, með áþjánarmerki strokin burt úr svipnum, þjóð ólotin í herðum, þjóð upplitsdjörf og staðföst, þjóð þroskamikil með sína fyrri eiginleika í nýrri blómgun, þjóð, sem þó aðeins er að byrja að uppgötva auðlegð lands síns og aðstöðu sína í heiminum, þjóð ríkari en hún var nokkru sinni áður, þjóð, sem þó er aðeins að byrja líf sitt. (Forseti: Ég vil nú benda hv. ræðumanni á, að það er málið á þskj. 268, sem um er verið að ræða, og vil biðja hann að koma nú að efninu.) Ég veit, um hvaða mál er verið að ræða, en tel þetta aðeins nauðsynlegan inngang að því, sem ég ætla að segja. — Þessi nýja þjóð er það, sem fagnar nýjum tímamótum í sögu sinni.

Allt þetta, sem er í ljósi þeirrar sögu, sem við höfum lifað í landinu, og ekki síður í ljósi þess umheims, sem við á þessari stundu erum að fæðast inn í, krefst þess af okkur einmitt nú, að við hugsum með dýpstu alvöru til þess framhalds, sem nú á að verða á sögu okkar, þess framhalds, sem við höfum sjálfir í hendi okkar að ráða um, hvað verður.

Ég held við verðum að forðast nú að líta of smátt og einangrað á hlut okkar. Okkur ber einmitt á þessari stundu að skynja og hugleiða, inn í hvaða heim við erum að fæðast, því að nú ber líka svo merkilega við, að það er nýr heimur með gerbreyttum viðhorfum, sem við erum að fæðast inn í. Hin ógnarlegasta styrjöld geisar, en tekur nú brátt enda, jafnvel miklar líkur til, að svo verði þegar á þessu ári. Það fer fram fyrir augum okkar í heiminum nú hin stórfenglegasta mannfélagsbræðsla, þar sem allt, er manninn varðar, ríki, þjóðir, atvinnuhættir, hugmyndalíf, umsteypist í nýtt mót. Það er óvéfengjanlegt, að í hundruð, jafnvel þúsundir ára hefur slík umsköpun þjóðanna og allra mannlegra viðhorfa í heiminum ekki átt sér stað. Til þess að skilja þær gerbreytingar, sem eru að fara fram, verðum við að hugsa allt upp af nýju. Gamlar hugsanir eru fljótar að verða úreltar á svona hraðfleygum umbyltingartímum. Við verðum að sjá jafnóðum hin nýju viðhorf, sem skapast, ef við viljum ekki verða aftur úr og einskis nýtir í þeim störfum, sem eru fram undan. Við skulum vona, að hér inni sitji engir, í sjálfum forystuhóp þessarar endurfæddu þjóðar, að hann geri sér ekki ýtarlega grein fyrir, að undanfarna áratugi og ár hafa höfuðátökin staðið um tvenns konar skipulag í heiminum, skipulag sósíalisma og auðvaldsskipulagið. Fyrsta ríki sósíalismans, Sovétríkin, risu upp úr síðustu heimsstyrjöld. Ríkjum gamla skipulagsins, það er ríkjum auðvaldsins, varð svo mikið um, að þau flýttu sér að binda endi á styrjöldina til þess að reyna að kollvarpa hinu nýstofnaða ríki sósíalismans. Sú kollvörpun tókst ekki. En allt tímabilið milli styrjaldanna snerist pólitík auðvaldsríkjanna um það að einangra Sovétríkin, ekki aðeins viðskiptalega og stjórnarfarslega, heldur einnig hlaða um þau múr fjandskapar og hleypidóma og jafnframt að undirbúa nýja styrjöld, egna ákveðin ríki út í styrjöld, sem leiddi hrun yfir hið nýja ríki sósíalismans. Og sú styrjöld, sem undirbúin var, varð ekki stöðvuð, og flestar þjóðir heims hafa orðið að kenna á henni. En hið sögulega og stórfenglega við okkar tíma er það, að þessi styrjöld snerist í höndum þeirra, sem mest unnu að undirbúningi hennar, snerist í höndum hinna voldugu auðdrottna og nú æ meir gegn þeim sjálfum. Hið heimssögulega gerðist, að hin fyrirhugaða og undirbúna styrjöld auðvaldsins snerist ekki gegn Sovétríkjunum einum, varð ekki styrjöld milli þeirra skipulaga, sem keppt hafa í heiminum, heldur varð bandalag milli ríkis sósíalismans og nokkurra hinna máttugu ríkja auðvaldsskipulagsins, er sameinuðust á síðustu stundu um það að koma í veg fyrir, að hin ágengustu auðvaldsríki, fasistaríkin, ofbeldisríkin, gætu hneppt heiminn allan í þrældóm, eins og takmark þeirra var. Þessi samvinna hefur í fyrsta lagi breytt öllum gangi styrjaldarinnar og bjargað þjóðunum frá áþján í aldir fram og í öðru lagi skapað gerbreytt viðhorf í heiminum. Ríki sósíalismans hefur sýnt þá yfirburði og þann mátt á því örstutta friðartímabili, sem það naut, og ekki síður í þessari styrjöld, að framtíð þess og sigur í heiminum eru tryggð og viðurkennd. Enginn stjórnmálamaður innan auðvaldsskipulagsins, sem á raunsæja hugsun eða óbrjálað vit, lætur sér lengur detta það í hug, að ríki sósíalismans verði kveðið niður með vopnum eða öðru valdi nokkurra þjóða í heiminum. Ríki sósíalismans er grundvallað á jörðinni við hlið hins eldra skipulags kapítalismans eða auðvaldsins, og það er ekkert vald í heiminum, sem getur afmáð það héðan í frá. Enn er annað, sem gerzt hefur í þessari styrjöld: Forystumenn hinna tveggja skipulaga hafa fengið reynslu fyrir og sannfærzt um, að þeir geta unnið saman að því, fyrst og fremst að bjarga frelsi þjóðanna, sem fasisminn hefur kúgað, og enn fremur að því að skapa nýjan heim upp úr þessari styrjöld, og það er að þessu marki, sem hinir vitrustu og framsýnustu forystumenn hinna sameinuðu þjóða vinna. Við skulum ekki láta okkur detta í hug að taka samninga þeirra og undirskriftir sem dauðan bókstaf, heldur felst í þeim vilji til að tryggja þjóðunum nýja framtíð og sannfæring um, að ríki, sem búa við ólíkt þjóðskipulag, stéttir, sem eiga ólíkra hagsmuna að gæta, geti unnið saman að þessu takmarki. Við getum ekki aðeins vitnað í yfirlýsingu Teheranráðstefnunnar, þar sem foringjar þriggja voldugustu ríkja hinna sameinuðu þjóða gefa heiminum hið mikla fyrirheit, sem felst í þessum orðum yfirlýsingarinnar: (Forseti: Ég vil nú alvarlega áminna hv. ræðumann um það að koma nú að efninu. Þetta er fullkomin misnotkun á leyfinu til þess að tala um málið.) Þetta er aðeins nauðsynlegur inngangur. (EOl: Málfrelsi er nú enn í íslenzka lýðveldinu. Það stendur í stjskr. — Forseti: Svo er nú fyrir að þakka, að enn þá eru einnig til lög og reglur í lýðveldinu og það einnig á Alþ., og þeim verður að fylgja.)

„Við erum þess fullvissir, að samtök okkar munu skapa þjóðunum varanlegan frið. Við erum okkur þess fyllilega meðvitandi, hvílík ábyrgð hvílir á okkur og öllum hinum sameinuðu þjóðum, — að koma á friði, sem mun leiða í ljós samhug yfirgnæfandi meiri hluta allra þjóða heimsins og koma í veg fyrir endurtekningu styrjaldarógna í margar kynslóðir.“ — Í yfirlýsingu þeirra segir enn fremur: „Við höfum athugað vandamál framtíðarinnar með stjórnmálaráðgjöfum okkar. Við munum leita samvinnu og virkrar þátttöku allra þjóða, sem af heilum huga, eins og okkar eigin þjóðir, helga sig baráttunni fyrir afnámi harðstjórnar og þrælkunar, kúgunar og umburðarleysis. Við munum bjóða þær velkomnar, er þær óska eftir að ganga í alheimsbandalag lýðræðisþjóðanna:

Ekki einungis þessi sameiginlega yfirlýsing Roosevelts, Stalins og Churchills, heldur ótal aðrar tilvitnanir mætti greina frá áhrifamestu stjórnmálamönnum og öðrum víðsvegar í löndum, þar sem allt vitnar um hið sama, skilning og sannfæring um breytt viðhorf og trú á því, að þjóðunum takist upp úr styrjöldinni að skapa nýja tíma, þar sem samstarf og viðskipti, en ekki ófriður og keppni verði ríkjandi. Söguleg nauðsyn hefur knúið þjóðir tveggja skipulaga til þess að vinna saman, og með samvinnu sinni í styrjöldinni hafa þær bjargað lífi hver annarrar, bundizt mannlegum tengslum og jafnframt sannfærzt um, að þær geti lifað og starfað saman einnig í friði. Sú sögulega staðreynd verður ekki kæfð, að í lok þessarar styrjaldar er ríki sósíalismans orðið voldugasta ríkið á meginlandi Evrópu og Asíu. Sú staðreynd hefur m. a. fengið Bretland til þess að yfirgefa aldagamla stjórnarstefnu sína, þess efnis að vega salt milli ríkjanna á meginlandi Evrópu og ná einlægt bandalagi við hið næstöflugasta. Nú hafa þau tengzt bandalagi við öflugasta ríkið, Sovétríkin. Bandalag þessara ríkja er byggt á nýjum staðreyndum. Yfirlýsing Teheranráðstefnunnar er enn fremur byggð á nýjum staðreyndum, þeim staðreyndum, að ný viðhorf hafa skapazt í heiminum, viðhorf, sem heimta samvinnu, en ekki ófrið. Það má færa óteljandi rök að því, þótt hér sé ekki gert, að bandalag og samningar hinna voldugu sameinuðu þjóða er byggt á hagsmunum þeirra allra og nákvæmu mati á hinu nýja ástandi, sem skapazt hefur í heiminum á sviði atvinnuhátta, viðskipta og stjórnarfars.

Ég vildi leggja áherzlu á þetta, að það er inn í nýjan heim alþjóðlegrar samvinnu, alþjóðlegrar skipulagningar í fjölmörgum greinum, sem við erum nú að fæðast. Og okkur er brýn nauðsyn einmitt á þessari stundu, strax í dag, að átta okkur á viðhorfum og stefnum þessa nýja heims, sem okkur ber lífsnauðsyn að taka upp samstarf við og það sem margþættast. Á þessum tímum gerast allir hlutir hratt. Hver þjóð, sem vill eiga þátt í hinu nýja starfi þess tíma, sem í hönd fer, þarf að vera fljót að ákveða sig.

Ég er þeirrar skoðunar, að nú sé stund Íslands til að taka ákvörðun um samstarf við aðrar þjóðir, tryggja aðstöðu sína út á við og leggja grundvöll að nýjum atvinnuháttum, velmegun og menningu í landinu. Ég er þeirrar skoðunar, að nú eigi þjóðin fjölmörg tækifæri, sem hún verður að grípa strax, tækifæri, sem geta gengið henni úr greipum og ekki komið aftur, ef þeim er sleppt nú.

Á grundvelli alls þess, sem ég hef hér sagt, er mér það sárt hryggðarefni, ef forysta þjóðarinnar á Alþingi ætlar að bregðast og neita að skilja þá stund, sem nú slær og er stund Íslands. Ég endurtek, að við eigum nú áður óþekkt tækifæri til að vinna framtíð Íslands gagn. Við höfum bundizt vináttutengslum við aðrar þjóðir, sem aldrei hafa verið slík í sögunni. (Forseti: Ég vil nú biðja hv. ræðumann að stanza, næst þegar kemur að punkti hjá honum, vegna þess að nú þarf að fresta fundi vegna opnunar sögusýningarinnar, sem nú fer að hefjast. En þess er vænzt, að þm. verði þar viðstaddir.) Þjóðin hefur aldrei verið jafnauðug, aldrei vitað fyrr, að hún ætti jafnauðugt land. Hún hefur lifað vakningarstund, sem hún hefur um aldir þráð. Aldrei hefur hún vænt sér jafnmikils af framtíðinni sem nú og aldrei átt jafnmikla möguleika til þess að umskapa atvinnuhætti sína og lífsskilyrði sín öll. Við gerum okkur alls ekki grein þess, hve stórkostleg umsköpun gæti farið fram á atvinnuháttum, ef varið væri 400–500 millj. eingöngu í því skyni. Við getum keypt nýtízku atvinnutæki í stórum stíl, tugi togara, fjölda vélbáta, reist verksmiðjur, hafnargerðir, raflýst bæi og byggðir, hagnýtt afl fossanna, ræktað landið, í stuttu máli lagt grundvöll að nýju atvinnulífi. Jafnframt eigum við tækifæri til að tryggja viðskipti okkar við aðrar þjóðir og markaði fyrir afurðir okkar, ef við höfum djörfung til að skilja, að við eigum ekki að reka neina stafkarlapólitík eða sultarpólitík lengur í landinu, heldur snúa okkur með einbeittum kröftum að stórum viðfangsefnum, sem skapa okkur auð og grundvöll menningar, viðfangsefnum, sem sameina okkur og fá okkur til að gleyma nöldri og argi um deilumál, sem í ljósi hins nýja viðhorfs og nýrra möguleika eru smávægileg og verða aukaatriði, áður en við vitum um. Við eigum í fyrsta skipti í sögunni nægilegt fjármagn til þess að hefja þetta starf, verulegt viðreisnarstarf þjóðfélagsins, ef við aðeins viljum nota okkur þetta fjármagn. Ég er þess algerlega viss, að ekkert mundi vera þjóðinni, þúsundunum, sem framtakið þrá meira en allt annað, kærara en að fjármagn hennar væri notað til að skapa öruggari framtíð með verklegum og menningarlegum framkvæmdum. Ég veit, að þjóðin bíður aðeins eftir því, að forystumenn hennar leggi henni skynsamleg verkefni upp í hendurnar, gefi henni hagsýna áætlun til að vinna eftir, og þá mun ekki standa á henni að vinna af dugnaði og áhuga að framkvæmd þeirrar áætlunar.

Vegna allra þessara verkefna og hinna einstöku tækifæra, sem einmitt nú eru til að tryggja framkvæmd þeirra, fellur mér það sérstaklega illa, að Alþingi skuli fara heim án þess að hafa falið ríkisstj. framkvæmd ákveðinna verkefna, sem brýnast kalla á úrlausn.

Rétt að baki er stofnun lýðveldisins, viðurkenning margra ríkja á hinu nýstofnaða lýðveldi, athygli vakin og aukinn skilningur á þjóð okkar, þjóðin sjálf í vakningarhug, erlendis að renna upp nýir tímar, þar sem allt stefnir að alþjóðlegu samstarfi og vísindalega skipulögðum þjóðarbúskap. Á stundu sem þessari, er þjóðin væntir nýrra athafna, ber okkur, sem hér sitjum, skylda til þess að hagnýta til blessunar fyrir þjóðina þau tækifæri, sem skapast, og vinna jafnframt að því með öðrum frjálsum þjóðum að græða sárin eftir þessa styrjöld. Á svona stundu tel ég, að Alþingi beri skylda til að vera vakandi og finna þau verkefni og velja þau úr, sem við, þm. af öllum flokkum, getum sameinazt um og orðið geta til eflingar lýðveldi Íslands.

Við höfum orðið einhuga um að stofnsetja lýðveldið. Öll þjóðin hefur séð hinn glæsilega árangur af því, að við gátum orðið einhuga. En þá hljótum við næst að spyrja: Eru ekki fleiri málefni, sem við getum staðið saman um, málefni, sem varða þjóðina alla og eru svo mikilvæg, að önnur smærri ágreiningsefni geti horfið í skuggann fyrir þeim? Við vitum, að þessi mikilvægu mál eru til. Þau eru trygging lýðveldisins og þjóðarviðskipta út á við og aukning atvinnulífs og öryggis innan lands. Ég fæ ekki skilið — og tel ekki fullreynt —, að við getum ekki sameinað kraftana um framkvæmd á þessum málum. Ég vil, að framhald verði á því samstarfi, sem verið hefur við lýðveldisstofnunina. Við leysum vitanlega ekki andstæður stéttanna, ágreiningsmál flokkanna né margvíslegan skoðanamun okkar. Það, sem hér er um að ræða, er einungis að taka út úr nokkur veigamikil mál, sem örlagaríkust eru fyrir þjóðina alla, sameinast um að styðja að framkvæmd þeirra í beinu framhaldi af því, sem unnið hefur verið með stofnun lýðveldisins, til frekari tryggingar því stjórnarfarslega, atvinnulega og menningarlega. Ég veit, að þjóðin ætlast til þess af okkur, og hún á kröfu til þess af fulltrúum sínum, að þeir sleppi ekki vegna ágreinings um stéttarmálefni innan lands þeim tækifærum, sem þjóðinni nú bjóðast í samvinnu við aðrar frjálshuga þjóðir til þess að styrkja aðstöðu okkar um alla framtíð. Ég skírskota til þm. úr öllum flokkum, að þeir láti ekki bráðlæti sitt að komast heim af þessum fagnafundi við lýðveldisstofnunina verða til að hindra, að flokkarnir taki sér enn dálítinn frest í samræmi við brtt. hv. 2. þm. Reykv. til að gera ýtrustu tilraun til að ná samkomulagi. Mér finnst, að við megum ekki fara héðan heim, fyrr en við höfum komið okkur saman um fá, en ákveðin verkefni, sem við felum ríkisstj., sem helzt væri mynduð á þingræðislegan hátt, að framkvæma nú þegar. Sú ríkisstj. yrði að hafa á bak við sig traust þingsins, allra flokka þess, til framkvæmda á þessum ákveðnu verkefnum, sem henni eru falin. Það er ekki víst, að þau tækifæri, sem nú bjóðast þjóðinni, komi nokkurn tíma aftur. Ég skírskota til ábyrgðartilfinningar hvers þm. Ég tala hér ekki oft. Mér er ekki lagið að blanda mér í afgreiðslu allra mála, og ég tala nú, af því að mér finnst brennandi nauðsyn og skylda, að við höfum ekki nein tækifæri af þjóðinni með deyfð okkar og sljóleika eða ábyrgðarleysi. Ég skora á þm., að þeir samþ. till. hv. 2. þm. Reykv.