20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (4733)

83. mál, frestun á fundum Alþingis

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég get verið stuttorður um þá brtt., sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. S.-M. En ástæðan til þess, að við teljum heppilegra, að Alþ. komi saman 2. sept., er sú, að núgildandi verðákvörðun á landbúnaðarafurðum nær ekki nema til 15. sept., og ef Alþ. gerir enga nýja ákvörðun áður, hækka landbúnaðarafurðir af sjálfu sér. Komi þ. ekki saman fyrir 15. sept., verður því erfið aðstaða í dýrtíðarmálunum. Hugsi Alþ. sér að vinna bug á dýrtíðinni, er ekki of mikið að hafa 10–12 daga til ákvörðunar á þeim leiðum, sem fara skal. Ég held, að hv. þm. ættu því að samþ. þessa till. okkar.

Það er talað um, að þetta mundi verða til að skapa langt þ. En er nauðsynlegt, að þ. standi alveg til hátíða? Er ekki hægt að ljúka við fjárl. í nóv.? Ég held, að það ætti ekki að þurfa að lengja þ., þó að samkomudagurinn yrði 2. sept. Það væri hægt að ljúka þ. fyrr. Ég óska því, að till. okkar verði samþ., svo framarlega sem hv. þm. vilja gera eitthvað í dýrtíðarmálunum, en ekki kasta öllum sínum áhyggjum upp á hæstv. ríkisstj. — Hugsum okkur, að sá skilningur verði fyrir hendi í haust, sem nú er ekki fyrir hendi, að ekki sé vænlegt að halda áfram gegndarlausum kaupkröfum, þannig að atvinnuvegirnir verði að ganga saman og hrynja. Hugsum okkur, að mönnum verði ljósara en nú, að undirstaðan að afkomu verkalýðs og launþega í landinu er sú, að atvinnutækin beri sig og gera beri einhverjar skynsamlegar ráðstafanir í dýrtíðarmálunum. Þá er sannarlega ekki of mikill tími að hafa 10 daga upp á að hlaupa. Með því, að þingflokkarnir hafi n. starfandi í sumar til að athuga leiðir í dýrtíðarmálunum, mætti hugsa sér þetta nægilegan tíma til að ganga frá málunum, og vil ég leggja til, að flokkarnir hafi slíka n. starfandi á milli þ. í sumar til að undirbúa þessi mál. Mætti með því gera sér vonir um einhvern árangur.