20.06.1944
Sameinað þing: 36. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (4736)

83. mál, frestun á fundum Alþingis

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Út af því, sem komið hefur fram um till. sósíalista um að fresta ekki þ. í dag, vil ég fyrir Sjálfstfl. gefa eftirfarandi yfirlýsingu:

„Eins og öllum þm. er kunnugt, hafa þingflokkarnir undanfarna daga rætt um myndun þingræðisstjórnar í landinu. Enda þótt þær umr. hafi ekki leitt til stjórnarmyndunar á þessu stigi málsins, hefur margt merkilegt komið fram, og standa nokkrar vonir til, að með frekari samningum, er þó vafalaust munu taka nokkurn tíma, megi auðnast að mynda þingræðisstjórn.

Sjálfstfl. hefur ríkan áhuga á því, að takast megi sem allra fyrst að mynda þingræðisstjórn, og telur, að í fullkomið óefni sé stefnt, ef það verður lengi látið dragast. Hins vegar telur flokkurinn víst, að úr því, sem komið er, muni stjórnarmyndun ekki lokið á næstu tveim dögum, og vill ekki styðja að því að fresta þingi, á meðan slíkar tilraunir kynnu að standa yfir.

Flokkurinn telur, að bezt fari á því, að stjórnarskipti fari fram með þeim hætti, að stj. er nýtur trausts meiri hl. Alþ., sé reiðubúin að taka við völdum, en eigi með hinum hættinum, að Alþ. lýsi vantrausti á þessa stj., en hafi þó eigi jafnframt undirbúið myndun þingræðisstjórnar.

Sjálfstfl. bendir jafnframt á, að núv. stj. situr ekki í skjóli stuðnings Alþ. og hefur ekki leitað þess stuðnings.“