19.06.1944
Efri deild: 37. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (4765)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég skal játa, að mér er þetta mál lítið kunnugt og að ég er ekki fær að dæma um það af þekkingu. En ég heyrði á ræðu hv. flm., að hann ætlast til þess, að hæstv. dómsmrh. veiti t.d. bifreiðarstjórum, verzlunarmönnum og veitingasölum auk náðunar og borgaralegra réttinda atvinnuréttindi sín aftur. Mér dettur ekki í hug að neita því, að í einstökum tilfellum getur verið, að þetta kæmi ekki að sök, en sennilegt er, að í mörgum tilfellum sé það mikið álitamál, og í sumum tilfellum mun það alls ekki koma til mála að veita aftur þessi réttindi. Það er að vísu ætlazt til þess, að hæstv. dómsmrh. meti í hverju einstöku tilfelli, hvort rétt sé að veita aftur réttindin eða ekki. Ég hygg, að það geti þó orðið mjög erfitt og vandasamt verk fyrir hæstv. dómsmrh. að draga þar takmörkin. Það er t.d. með þá, sem aka bifreið ölvaðir, að þeir eru ekki einungis hættulegir sjálfum sér og þeim, sem í bifreiðinni eru, heldur einnig vegfarendum.

Ég álít einnig ákaflega misráðið, ef menn hafa verið sviptir veitingaleyfi vegna misnotkunar á þeim réttindum, að þeim verði veitt þau réttindi aftur eða að menn, sem hafa verið riðnir við stórfelld fjársvik í sambandi við verzlun eða annan stóratvinnurekstur, fái tækifæri til þess að hefja slíka starfsemi á nýjan leik. Mér dettur ekki í hug að fullyrða, að þetta eigi við í öllum tilfellum, en það má fullyrða það í sumum, og ég tel, að það verði mjög erfitt að draga þar markalínuna.

Það hefur verið óskað eftir því, að þessu máli yrði flýtt gegnum þingið, en ég get ekki séð, að fyrir því séu svo aðkallandi ástæður, og geri því till. um, að frv. verði vísað til allshn.