19.06.1944
Efri deild: 39. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (4774)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Haraldur Guðmundsson:

Ég get ekki greitt atkv. með þessu frv., en læt nægja að vísa til þess, sem ég sagði við 1. umr. Málið hefur að formi til verið afgr. í n., en eitthvað mun á skorta, að sú athugun hafi verið eins ýtarleg og æskilegt hefði verið. Það, sem fyrir mér vakti með nefndarathugun, var, að mér virtist nauðsynlegt að takmarka mjög verulega heimild 1. gr. Mig skortir sérþekkingu til þess að geta gengið frá brtt. í þessa átt og sé mér því ekki annað fært en greiða atkv. gegn frv.

Ég tel mjög óheppilegt að láta dómsmrh. fá slíkt vald og hér er um að ræða. Mér er ekki vel kunnugt um það, hve algengt er að veita uppgjöf saka við sérstök tækifæri, en mér hefur skilizt, að fyrst og fremst væri venjan sú að veita sakaruppgjöf fyrir afbrot, sem væru pólitísks eðlis, en ekki almennar náðanir mönnum, sem hefðu framið glæpi. Í sögu okkar er fordæmi Jörundar hundadagakonungs öllum kunnugt, en það er ekki til fyrirmyndar.

Ég tel ekki fært að samþ. frv. eins og það er.