14.09.1944
Sameinað þing: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (4786)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Ásgeir Ásgeirsson:

Hv. 1. þm. Eyf. spurði, hvernig ég hugsaði mér, að hægt væri að fara þá leið, sem við tveir höfum lagt til, þar sem verðlagsbreyt. eigi að koma í gildi á morgun.

Við setjum okkur ekki á móti því, að till. hans fái afgreiðslu á undan okkar frv. En við þá afgreiðslu, sem sú till. fær í kvöld, kemur í ljós, hvort okkar frv. kemur til meðferðar eða ekki. Skyldi svo fara, að þessi till. yrði felld í kvöld, hefur annað eins verið gert eins og að koma fram smáfrv. gegnum báðar d. þingsins á einu kvöldi. (PZ: Það verður þá að sjást fyrst). Ég býst við, að hv. þm. fái að sjá það nógu snemma. Ástæðan til þess, að ekki er búið að útbýta frv., er sú, að fjhnm. gátu ekki allir tekið það til meðferðar fyrr en síðdegis í dag. Það var rætt í morgun, og átti að ganga frá málinu síðdegis. En svo skeði það, að einn nm. ásamt hv. 1. þm. Eyf. bar fram mál það, sem hér er nú til umr., án samráðs við nm. Svona stendur á því, að frv. er ekki komið fram enn. Verði þessi till. samþ., kemur frv. ekki til umr. í Nd., því að málið er þá afgreitt.

Ég skal ekki fara verulega inn á efnishlið þessa máls. Hv. 1. þm. Eyf. talaði um sömu lausn og verið hefur áður, og það er eitt þess valdandi, að menn halda, að nóg sé að halda niðri vísitölunni, en svo standi á sama, hvernig dýrtíðin fer, en hún hækkar um þessar prósentur, sem hér er um að ræða, þó að vísitalan fari ekki upp. Þetta er því engin bót við dýrtíðinni, þó að reynt sé að draga einhverja slæðu fyrir hana eins og gert hefur verið einu sinni áður hér á Alþingi.