14.09.1944
Sameinað þing: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (4787)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Ólafur Thors:

Ég ætla ekki að fara inn á efnishlið þessa máls. Ég vil aðeins vekja athygli á því atriði í ræðu hv. flm. og sérstaklega beina því til hv. form. fjvn., að hv. flm. sagði, að ef Alþ. samþ. þessa till., væri það um leið skuldbinding af hendi Alþ. að afla þeirra tekna, sem nauðsynlegar væru til þess að standa undir útgjöldum, sem till. legði á ríkissjóð. Ég vil þess vegna, að menn geri sér ljóst, að um leið og till. er samþ., verður að samþ. tekjuöflun, því að það þekkir hv. 1. flm. með sinni löngu þingsetu jafnvel og við hinir, að þótt talað sé um að afla einhverra tekna, þá liggur ekki í því trygging fyrir, að þ. geti komið sér saman um nokkra leið til að afla teknanna. Einn vill afla teknanna með þessum hætti og sýna með því sinn vilja, annar er honum gagnstæður og sýnir með því sinn vilja. Slíkar yfirlýsingar eru því einskis virði og málið ekki afgreiðslufært að dómi hv. flm., eftir því sem hann skýrt kvað á, nema jafnframt sé samið um tekjuöflunina ríkissjóði til handa, og ég hygg, að hæstv. stj. hafi sett sem skilyrði fyrir veru sinni áfram, að hún fengi slíkar tekjur. Ég hygg, að hæstv. stj. skilji líka eins vel og við og almenningur, að yfirlýsingar í þessu efni hafa ekkert gildi.

Þeir, sem þess vegna vilja samþ. þessa till. og standa við skuldbindingar hv. flm., verða einnig að koma sér saman um, með hverjum hætti teknanna sé aflað. Þetta vita allir hv. þm., að er nauðsynlegt, ef samþ. á að hafa nokkurt gildi, sem flm. gat réttilega um, að þyrfti að vera.

Ég vil aðeins, að hv. form. fjvn. taki til athugunar, að að dómi hv. 1. flm. liggur í þessu algerð skuldbinding þingsins til að afla þeirra tekna, sem þarf til að standa undir þeim bagga, sem þessi till. leggur á ríkissjóð. Þetta þarf því hvort tveggja að afgr. í einu.

Pétur Ottesen: Ég skal út af því, sem hér kom fram um afgreiðslu þessa máls í sambandi við, að þessu máli væri vísað til fjvn., lýsa yfir, að ég mun gera tilraun til að ná fjvn. á fund og leggja þetta mál fyrir hana, en ég verð að segja, að það er til ákaflega mikils mælzt, að fjvn. eigi að verða búin að ljúka þessu máli af fyrir kl. 9 í kvöld, þegar maður lítur á, að þetta er einn þátturinn í því samkomulagi um stjórnarmyndun, sem búið er að ræða nú ákaflega lengi, án þess að lausn hafi fengizt á, eftir því sem fram hefur komið. Það sýnir, hvað miklir erfiðleikar eru á að koma málum svo fyrir, að sæmileg skipan geti á orðið. Sem sagt, ég skal reyna að koma á fjvnfundi fyrir þennan tíma, en um afgreiðslu málsins get ég vitanlega ekkert sagt á þessu stigi.