14.09.1944
Sameinað þing: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í D-deild Alþingistíðinda. (4796)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Eysteinn Jónsson:

Það eru örfá orð. Út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði áðan, þá er það alveg rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., að ef till. eins og þessi yrði í gildi um lengri tíma, yrði að fylgja henni um tekjuöflun eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið um fjárhag ríkisins. En ég er ekki þeirrar skoðunar, að ókleift sé að samþ. þessa till., þó að henni fylgi ekki um leið tekjuöflun, af því að hér er um algert bráðabirgðaástand að ræða. Það kom greinilega fram hjá hæstv. ríkisstj., þegar hún lagði fram dýrtíðarfrv., að hún ætlaði að taka á sig veruleg viðbótarútgjöld vegna dýrtíðarinnar út þetta ár, án þess að ný tekjuöflun ætti sér stað, svo að hún hefur álitið, að fjárhagur ríkisins leyfði það til bráðabirgða, svo að menn ættu ekki að vera hræddir næstu dagana, þó að þessi till. verði samþ. En það stendur glöggt fyrir öllum, að ef ekki fyndust aðrar leiðir og þetta yrði látið standa áfram, þá yrði að afla fjár með sérstökum hætti til að standast þessar niðurborganir.

Ég tók eftir því, að hv. þm. Borgf. sagði, að nokkur vandi væri á höndum fyrir fjvn. að taka afstöðu til málsins, þar sem þetta væri einn þátturinn í stjórnarsamningunum. Ég held, að það sé misskilningur. Það vita allir, að þessir samningar standa yfir og verður sjálfsagt ekki lokið í dag. Hér er því aðeins um bráðabirgðaástand að ræða, unz sést, hvort aðrar leiðir er hægt að fara í málinu og samkomulag fæst um ríkisstj.