22.02.1945
Neðri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (4822)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Heimild til náðunar og refsingar er, eins og hv. frsm. meiri hl. allshn. hefur tekið fram, bundin í stjskr. og er þar formlega á valdi forseta. Nú er í hegningarl. gert ráð fyrir því, að uppreisn æru, sem kallað er, og endurveiting borgararéttinda, sé í hendi konungs eða nú í hendi forseta. Það væri þess vegna nokkuð mikið rask á hegningarl., ef þetta frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir, þar sem þar er ger t ráð fyrir, að það vald, sem annars liggur formlega í hendi forseta, sé af honum tekið og látið í hendur dómsmrh. Nú má vel vera, að mjög mikill áhugi hafi verið á því hjá hv. Alþ. í tilefni lýðveldisstofnunarinnar að veita mönnum almenna sakauppgjöf, enda hefur sú heimild verið mjög almennt notuð, að ég hygg, af fyrirrennara mínum í dómsmrh.- embættinu. Annað mál er það, að það kann að vera dálítið hæpið, að Alþ. noti þetta vald aðeins að nokkru leyti á þann hátt að gefa þetta í heldur óvissu heimildarformi, og mér hefði fundizt, að áður en þetta frv. væri afgr., þyrfti að taka til athugunar, hvort ekki væri hægt, ef það er vilji Alþ., að veita öllum, sem hafa misst borgararéttindi fyrir misgerðir framdar fyrir 17. júní á sl. ári, slík réttindi aftur. Það ætti ekki að vera heimild, heldur mjög almenn fyrirmæli Alþ. Það er ákaflega erfitt að taka á móti þeirri lýðveldisgjöf frá Alþ. að láta það vera í hendi viðkomandi ráðh., hvort hann útdeilir gjöfunum eða ekki, og ég held, ef hv. Alþ. vill fallast á að veita þeim almenn mannréttindi, sem hafa misst þau fyrir 17. júní, að ekki eigi að gera það að nokkru, heldur öllu leyti. Mér finnst Alþ. eigi að sýna þann stórhug að strika út allar skuldir afbrotamanna við þjóðfélagið í einu lagi, en ekki láta það vera á valdi eins manns, hvort slíkum náðargjöfum er úthlutað til afbrotamanna.

Það kann að vera, að á þessu sé einhver formlegur vandi, og í hegningarl., 84. og 85. gr., er nú þegar nokkuð víðtæk heimild um það, hvort veita skuli mönnum borgaraleg réttindi, sem hafa misst þau með dómi. Í þeim gr. er sagt, að fari refsing ekki fram úr eins árs refsivist, þá sé hægt að veita uppreisn æru, eftir að tvö ár séu liðin, frá því að dæmdi var settur í refsingu, ef ekki hafi neitt komið fyrir hann á því tímabili. Ef refsingin hefur hins vegar verið meiri en eins árs refsivist, þá getur forseti veitt honum uppreisn æru, þegar a.m.k. fimm ár eru liðin, frá því að refsingin var að fullu úttekin eða gefin upp, enda færi umsækjandi sönnur á, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma. Ég hygg, að það sé í rauninni föst regla að nota þessa heimild í hegningarl., í fyrsta lagi að náða þann, sem ekki er dæmdur í yfir eins árs refsivist, eftir tvö ár, og í öðru lagi að náða þann, sem dæmdur er í yfir eins árs refsivist, að fimm árum liðnum, eftir að refsingin er út tekin. Enn fremur er venja að nota heimildina í bifreiðal. til þess að veita mönnum réttindi til að aka bifreið að þremur árum liðnum, eftir að þeir hafa tekið út refsingu sína, jafnvel þó að refsingin hljóði upp á að svipta menn bifreiðaskírteini ævilangt.

Ég hef bent á, að með því frv., sem fyrir liggur, eru þær heimildir, sem gefnar voru forseta í hegningarl., teknar af honum og settar í hendur dómsmrh. Þetta út af fyrir sig finnst mér ákaflega óviðkunnanlegt formsatriði og vildi þess vegna beina því til hæstv. forseta og hv. n., hvort ekki mundi rétt að taka þetta mál til nýrrar athugunar í n. og þá í samráði við ríkisstj.