14.09.1944
Sameinað þing: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (4829)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Sem annar af flm. þessarar þáltill. vil ég þakka hv. fjvn. það, hve röggsamlega hún hefur afgr. þetta mál, þannig að mögulegt verður að afgreiða það hér frá Alþ. í dag. Á hinn bóginn vil ég segja það, að mér urðu það nokkur vonbrigði, að n. skyldi klofna og það meira að segja þríklofna, því að það hefur hún gert, þótt ekki hafi komið fram nema tvö nál. Það er að vísu rétt hjá hv. frsm. 1. minni hl., að það er lítið, sem ber á milli hjá l. og 2. minni hl., þar sem í aðaltill. segir, að þetta skuli gilda fyrst um sinn, en í brtt. segir, að það skuli gilda til 23. sept. Þetta gæti þýtt það sama, ef búið yrði að koma öðrum ráðstöfunum í kring 23. sept., því að þessar ráðstafanir féllu þá niður, hvor till. sem samþ. yrði. En þótt lítið beri hér á milli, þá er þó brtt. heldur til hins lakara, því að það er engin vissa fengin fyrir því, að önnur lausn verði fengin fyrir 23. sept. Það gæti eins orðið, að hún næðist ekki fyrr en t. d. 30. sept., og þá stæðum við í sömu sporum þann 23. sept. og við stöndum nú í dag. Hv. frsm. 1. minni hl. benti á, að ef nauðsyn bæri til, þá mætti framlengja þetta ákvæði þann 23. sept., en það væri leiðinlegt, ef til þess þyrfti að koma. Alþ. gæti líka fellt niður þetta ákvæði þegar því sýndist, og það því fremur sem það situr nú að störfum. Það væri því eðlilegra að sleppa nú tímatakmarkinu, og ef til þess kæmi, að Alþ. þyrfti bráðlega að hætta störfum, þá væri óheppilegt að hafa ákveðið tímatakmark.

Það var leiðrétt hér áðan af hv. frsm. 2. minni hl., að ríkisstjórnin hefur ekki enn þá sagt af sér, eins og hv. frsm. 1. minni hl. sagði í ræðu sinni, að hún hefði gert. Ég hef einmitt skilið yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar þannig, að ef þessi till. yrði samþ., þá mundi hún ekki segja af sér á morgun, heldur mundi hún þá athuga betur sinn gang.

Út af því, sem hv. frsm. 1. minni hl. sagði um, að það mætti alltaf framlengja tímatakmarkið, þá vil ég taka það fram, að það er rétt á meðan Alþ. situr, en ef til þess skyldi koma, að Alþ. yrði skyndilega rofið, þá yrði þess ef til vill ekki kostur að framlengja það. Ég mun þó ekki gera þetta að neinu kappsmáli, en mér væri það kærara, að till. yrði samþ. óbreytt, og ég get ekki skilið það, að þeir, sem líta á það sem hreint glapræði að gera ekki einhverjar ráðstafanir í þessum efnum, muni ekki greiða atkv. með þessari till., enda þótt brtt. yrði felld.

Hv. þm. V.-Ísf. ræddi einkum frv., sem hann flytur nú í Nd. ásamt hv. þm. Siglf. Það frv. mun ég ekki ræða nú, til þess mun gefast tækifæri síðar, en það verð ég að segja, að það þyrfti að orða skýrar 3. mgr. 1. gr. þess frv., ef það á að vera öruggt, að framleiðendur njóti sama réttar og þeir njóta nú, einnig þann tíma, sem framkvæmdum þeim, sem um getur í frv. á að vera frestað samkvæmt því. Ég vildi orða þetta skýrar, ef Alþ. teldi réttara að samþ. það frv. en þessa tillögu. Það er hægt að skilja afstöðu hv. 7. þm. Reykv. til þessarar till., hann hefur alltaf verið því mótfallinn að borga niður vísitöluna eins og nú er gert. En það gæti verið rétt að borga hana niður nú, þótt það hefði aldrei verið rétt áður, því að það er mjög hæpið, ef nú er komið að lokum stríðsins, að hleypa þá dýrtíðinni upp úr öllu valdi. Hv. þm. taldi sig hafa upplýsingar um, að það mundi kosta 30–40 millj. kr. að halda áfram þessum uppbótagreiðslum til 1. júlí n. k. Ég hef fengið um þetta allt aðrar upplýsingar, og samkvæmt þeim mundi þetta verða allmiklu lægri upphæð. En segjum, að þetta sé rétt hjá honum. Gæti það samt ekki borgað sig fyrir þjóð, sem á yfir 500 millj. kr. í bönkum og sparisjóðum, að leggja nú fram þetta fé, sem hv. þm. telur þurfa, til þess að standa straum af þessum uppbótagreiðslum og tryggja þar með innstæðurnar? Er víst, nema þessar rúmar 500 millj. kr. rýrnuðu meira að verðgildi, þótt krónutalan yrði sú sama, ef þessar uppbætur væru ekki greiddar?

Þá talaði þessi hv. þm. um það, að dýrtíð væri ekki sama og vísitala, það væri ekkert annað en blekking að álíta það hið sama. Um þetta má deila. en ég vil benda hv. þm. á það, að sumir hafa ekki fengið tekjur sínar hækkaðar að krónutölu, þrátt fyrir dýrtíðina, og sumir fá jafnvel færri krónur nú en áður, eins og t. d. þeir, sem lifa af innistæðum sínum, þar sem vextir eru nú lægri en fyrir stríð. Ég held, að það sé ekki hægt að segja, að vísitalan sé eintóm blekking fyrir þessa menn. Annars yrði það of langt mál að fara nú út í rökræður um þetta. En ef vísitölunni yrði leyft að hækka nú skefjalaust, þá býst ég við, að mönnum mundi ekki finnast það vera blekking.

Ég mun nú ljúka máli mínu, en síðast vil ég segja það, að ég vona, að sá litli munur, sem er á orðalagi aðaltill. og brtt., hafi ekki nein áhrif á afgreiðslu meginmálsins.