14.09.1944
Sameinað þing: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (4832)

116. mál, verðlækkun á vörum innanlands

Frsm. 1. minni hl. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Það er aðeins örlítið, sem ég hef ástæðu til þess að bæta við það, sem ég hef áður sagt. Það kom fram hjá hv. flm., að það væri rétt, sem ég sagði, að það væri lítið, sem bæri á milli hjá okkur í 1. minni hl. fjvn. og hv. flm. Hv. flm. drap á eitt atriði, sem hann taldi á móti brtt. okkar, en það var það, að ef til þingrofs kæmi, þá væri betra að hafa ekki till. bundna við ákveðið tímatakmark. En ég vil benda á það, að ef hér á Alþ. er til meiri hl. fyrir því að vilja greiða þessar uppbætur, og ég dreg ekki í efa, að svo sé, eins og nú standa sakir, og þá mundi sá sami meiri hl. gera ráðstafanir til þess, ef til þingrofs kæmi, að þeirri stjórn, sem sæti við völd, yrði gert fært að halda þessum greiðslum áfram.

Ég hef litlu að svara ræðu hv. frsm. 2. minni hl. Hann sagði, að brtt. okkar væri bros í átt til þeirrar stefnu, sem vildi rífa allt niður og eyðileggja. Ég held, að ef um bros er að ræða, þá sé það svipað hjá báðum, en það er ef til vill af því, að nú er orðið svo algengt að tala um alls konar bros bæði til hægri og vinstri, að hv. þm. hefur talað um þetta.

Þá verð ég að segja það, að það eru einkennilegar umr., sem hér hafa farið fram um hæstv. ríkisstjórn. Eins og kunnugt er, þá hefur ríkisstjórnin lagt fram frv. til laga um ráðstafanir gegn dýrtíðinni, og mér hefur skilizt á ummælum hæstv. forsrh., að ef ekki fengist lausn á því máli, þá mundi ríkisstjórnin biðjast lausnar þann 15. þ. m. Eins og menn vita, þá var þessu frv. vísað til n. og það liggur þar enn. Ég er með þessu ekki að fella neinn dóm á þetta frv., en sú n., sem fékk málið til meðferðar, mun gera sér ljóst, að samkvæmt ummælum hæstv. forsrh. muni stjórnin segja af sér þann 15., ef ekki fengist lausn á málinu fyrir þann tíma, og nú er sá 14. að kvöldi kominn. án þess að nál. hafi verið lagt fram. Ég get ekki séð, að hægt sé að telja, að í þessari þáltill. felist nokkur lausn á því frv., sem ríkisstjórnin bar fram, og verð ég því að telja það furðulegar getsakir í garð hæstv. ríkisstjórnar að halda því fram, að hún muni ekki standa við orð sín og segja af sér, þótt þessi þáltill. verði samþ.

Ég verð að segja það, að það hefði átt að geta tekizt betra samstarf með Alþ. og ríkisstjórninni en orðið hefur, úr því að Alþ. hefur ekki getað myndað stjórn. Og eins og Alþ. er óánægt með ríkisstjórnina, þá er hún sjálfsagt einnig óánægð með Alþ., og má því segja, að sá hjónaskilnaður, sem fram undan er, sé ekki óæskilegur.

Þegar verið er að draga það fram, að ekki sé víst, að búið verði að skipta um ríkisstjórn fyrir þann 23. þ. m., þá verð ég að segja það, að það má ekki dragast lengur. Sómi Alþ. þolir það ekki, honum hefur þegar verið ofboðið.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, þá mun það vera rétt hjá honum, að það sé ekki fyrr en þann 16. þ. m., sem verðhækkun landbúnaðarafurða eigi að koma til framkvæmda. Var eins og hann hefði með þessu helzt verið að gefa það í skyn, að Alþ. væri einum degi of fljótt á sér að þessu sinni, en ég get ekki séð, að það sé nokkur skaði að því.

Þá var hann að tala um það, að mér þætti ef til vill sómi að því að þurfa að framlengja þessa heimild, sbr. framlengingu fjárl. í ársbyrjun 1943. Ég verð að segja, að það er sízt til sóma, en þetta er spegilmyndin af Alþ., og hún er sorgleg.

Hitt er svo annað mál með samanburðinn, sem hann var að gera á sér og mér, að hann hélt því fram, að ég væri hreykinn af því, sem hann skammaðist sín fyrir. (ÓTh: Það er næstum því oflof). Það er ekki ástæða til þess að ætla, að mín sómatilfinning sé eins hvítþvegin og hans. (JJ: Hún gæti verið fullgóð fyrir því). Sem sagt, við leggjum til, að mál þetta fái þá afgreiðslu, að hún feli í sér lausn á þessu ástandi, þangað til sá dagur rennur upp, sem ég vonast eftir, — ef ekki á morgun, þá hinn daginn — að Alþ. reki af sér slyðruna um það, að því geti ekki tekizt að mynda stjórn í þessu landi, fyrst svo hefur atvikazt, að ekki tókst að koma á góðu samstarfi við þá ríkisstj., sem nú hefur lýst yfir því, að hún segi af sér á morgun.