01.03.1945
Neðri deild: 141. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (4847)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég hef lýst yfir, að ég tel þetta frv. af ýmsum ástæðum nokkuð varhugavert. Og ég hef bent á það, að í frv. er gert ráð fyrir að taka vald, sem forseta er veitt í 84. og 85. gr. hegningarl., og leggja það í þessu tilfelli í vald dómsmrh., að vísu án þess, að þess sé getið í l., að þetta sé breyt. á hegningarl. Ég veit, að meiri hl. hv. allshn. hlýtur að vera kunnugt um það, að samkv. bifreiðal. er dómsmrh. leyfilegt að veita mönnum, sem hafa verið sviptir ökuleyfi ævilangt, ökuleyfi aftur eftir tvö ár, ef þeir hafa verið reglusamir á þeim tíma og ekki brotið af sér. Hins vegar er forseta einnig leyfilegt eftir hegningarl. að veita mönnum uppreisn æru að fimm árum liðnum. Mér er kunnugt um, að það er siður að nota þessar heimildir, ef hæfileg skilríki liggja fyrir, og ég veit ekki, hvort dæmi eru til þess, að neitað hafi verið að nota þessar heimildir. Í öðru tilfellinu liggur valdið í höndum dómsmrh., en í hinu í höndum forseta.

Ef þetta frv. verður samþ. með þeirri breyt., sem liggur fyrir till. um frá meiri hl. hv. allshn., þá virðist vanta í það m.a. ákvæði um, að veita megi þessa heimild innan þess tíma, sem nú gildir í l. Ef menn lesa brtt. og frv. saman, þá virðist þetta vera frv. um að veita heimild, sem nú þegar er til. Ég segi þetta sem mitt álit á þessu. En vera má, að ég hafi rangt fyrir mér og það sé einhver önnur meining á bak við hjá þeim ágætu lögfræðingum, sem standa að þessari brtt. En það væri þá æskilegt, að það kæmi fram, annaðhvort í n. eða við umr.

Ég hef líka lýst þeirri skoðun minni, að ef það væri vilji Alþ. að sýna verulegt stórlæti í tilefni af lýðveldisstofnuninni, þá væri viðkunnanlegra, að Alþ. ákvæði sjálft um það, að sakir skyldu niður falla og menn fá aftur réttindi sín, sem þeir hefðu misst vegna refsidóma fyrir afbrot framin fyrir 17. júní 1944. Ég teldi það eðlilegra en leggja það í vald dómsmrh., hvað sem hann heitir.

Ég hef óskað eftir að fá að tala um þetta mál við n., en af einhverjum ástæðum hefur hv. form. n. ekki orðið við því að halda fund né heldur að boða mig á fund um málið í n.

Af þeim ástæðum, sem ég nú hef greint, lýsi ég yfir því, að ég tel mjög vafasamt, að ég sjái mér fært að nota heimild þá, sem gefin yrði með þessu frv., ef samþ. verður, umfram það, sem fyrir er mælt í gildandi l. Það er því vissara fyrir þá, sem áhuga hafa á að útvega mönnum borgararéttindi að nýju innan þess tíma, sem nú er leyfilegt, að færa frv. í annað form en það, sem það nú liggur fyrir í.