11.09.1944
Sameinað þing: 40. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (4854)

103. mál, endurbygging Ölfusárbrúarinnar o.fl.

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég vil þakka hæstv. samgmrh. fyrir ummæli hans og áhuga þann, sem hann lét í ljós um smíði þessa mannvirkis og fyrirgreiðslu á flutningi. Ég hafði fengið vitneskju um það áður, að vísu af hálfu ráðun., að það mundi verða unnið að þessu máli eftir því, sem tök yrðu á. Og ég vil vona, að hæstv. Alþ. geri af sinni hálfu ráðstafanir til þess, að ekki standi á fjármunum til að gera þær endurbætur, sem þarf að gera til samgöngubóta út af brúarbiluninni. Ég tel nú alveg vafalaust, að helzta fyrirgreiðsla í bili verði að koma upp bráðabirgðabrú, ef takast mætti að gera hana það vel úr garði, að hægt væri að koma nokkurn veginn allra brýnustu flutningum yfir hana. Ég get vitaskuld ekki um það borið, hvað vera kann af efni til þessara hluta hér á landi, t. d. strengjum og öðru þess konar, sem styrkja mætti brúna með. En sé slíkt efni til, skilst mér mega koma upp skyndibrú, sem hægt verður að nota til allra nauðsynlegustu flutninganna. Ég játa ókunnugleika minn á því, hvort heppilegt sé að koma upp kláfferju, en ég hygg, að tæplega verði komið upp slíkri ferju, að með henni verði annað öllum flutningum, sem yfir Ölfusá þarf að koma. Og bátaferja getur ekki verið nema um stundarsakir. En þó að þetta kunni að hjálpa, þá tel ég samt sem áður óráðlegt að treysta því, að ekki geti brostið. Þess vegna hygg ég það alveg óhjákvæmilegt að endurbæta veginn. Ég skal ekki segja fyrir víst, hvort hægt væri að fá betri bátakost til flutninga yfir Ölfusá, en að öðru leyti veit ég, að aðstæður til flutninga á bátum eru þær ákjósanlegustu nú, sem finnast. Áin er lítil og enginn farartálmi umfram það, sem ætíð hlýtur að vera. Og þó er það svo nú, að mikill fjöldi bíla verður að leggja þessa lykkju á leið sína, að Brúarhlöðum, til að koma óhjákvæmilegustu flutningum áfram. En það eru allar horfur á því, að þessi leið lokist gersamlega. Og fara má nærri um, hvort menn geri það að gamni sínu að vera hálfan sólarhringinn að brjótast þetta. En að þetta er gert, sannar bezt, hver nauðsyn er á að halda þarna uppi flutningum. Og þá tel ég alveg óhjákvæmilegt að gera endurbætur á veginum. Vitaskuld kostar það mikinn tíma og sérstaklega mannafla og fjármuni, ef á að fullgera hann. En ég held, að með því að púkka brautina og malbika nokkuð megi fá sæmilegan veg, sem nota mætti, þegar mest á liggur, fram eftir haustinu eða þar til snjór hindrar umferð, sem vonandi verður ekki, fyrr en kemur langt fram á haust.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta. Ég hef mikla ástæðu til að ætla, að ekki verði látið undir höfuð leggjast að gera allt, sem gera þarf, til fyrirgreiðslu, bæði af hálfu ríkisstj. og Alþ.