02.10.1944
Sameinað þing: 49. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (4880)

98. mál, áætlun strandferðaskipa og flóabáta

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur haft þetta mál til athugunar og hefur sent það til athugunar forstjóra Skipaútgerðar ríkisins og póst- og símamálastjóra og fengið frá þeim umsögn, þar sem þeir leggja báðir til, að till. verði samþ. lítið breytt. Leggur n. til, að till. verði samþ. með þeim breyt., sem er að finna á þskj. 364. Breyt. er í raun og veru ekki önnur en sú, að í staðinn fyrir, að áætlunin skuli samin nú þegar, leggur n. til, að í till. standi: svo fljótt sem unnt er. Enn fremur, að áætlunin skuli samin yfir öll þau skip, sem gerð eru út af Skipaútgerð ríkisins eða eru á hennar vegum um lengri tíma. Þótti rétt að takmarka það þannig, en ekki að fyrirskipa, að áætlun skyldi samin yfir skip, sem kynnu að vera á vegum útgerðarinnar aðeins nokkra daga eða stuttan tíma. Þá er einnig lagt til, að aftan við till. bætist: Við samningu umræddra áætlana skal leita samvinnu við póststjórnina. —

Leggur n. einróma til, að till. verði samþ. þannig breytt.