03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (4886)

126. mál, opinberir starfsmenn

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég lít svo á, að sú endurskoðun, sem farið er fram á, að hæstv. ríkisstj. láti framkvæma samkv. till., verði að fara fram á þann veg, að fyrir liggi, hvaða réttindi og skyldur embættismenn skuli hafa að lögum, þegar ákveða á, hver laun þeirra skuli vera í krónutölu. Nú liggur fyrir þessu Alþ. frv. til nýrra launal., og tel ég, að samtímis þeim l. eigi að afgreiða þetta mál og efni þess helzt að koma sem kafli eða kaflar í nýjum launal. Mér er þann veg farið, að það hefur áhrif á það, hve há laun ég vil ákveða þessum eða hinum embættismanninum, hver réttindi hann á að hafa, t. d. til launa í veikindum, hve löng orlof o.s.frv., og því vil ég láta Alþ. afgreiða samtímis og í sama frv. launahæðina, sem nú er lögð fyrir Alþ. í máli 113, og svo hvaða réttindi og skyldur embættismennirnir hafi.

Mér virtist, að um þetta væri n. öll sammála, en hinir nm. vilja samþ. þessa till. í því trausti, að launal. verði ekki samþ. nú, heldur látin daga uppi. Væri það víst, gæti hvort tveggja legið fyrir næsta Alþ. og þá fylgzt að. En ég á slíkt engan veginn víst, margir hafa mjög mikinn áhuga á að afgreiða launal., og á eftir afgreiðslu þeirra verður ýtt fast, enda óneitanlega þörf á að endurskoða þau og samræma launakjör manna.

Ég tel, að líklegt sé, að fjhn. þingsins geti þegar á þessu þingi framkvæmt þá endurskoðun og komið með þá breyt. á skyldum og réttindum embættismanna, sem nauðsynlegar eru, og látið þær fylgja sjálfum launakafla launal. eftir. Ég vil því ekki vísa málinu til stj. nú og með því e.t.v. tefja fyrir framgangi launamálsins á þessu þingi að ástæðulausu. Mér virðist nefnilega, að a.m.k. sumir nm. ætli síðan að hafa það sem ástæðu til að verða á móti afgreiðslu launamálsins, að stj. sé að láta endurskoða þennan kafla launal., og þar með nota samþ. þessarar till. sem skálkaskjól til að geta betur varið að vera á móti launal.

Ég legg til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá, og hljóðar hún svo, með leyfi hæstv. forseta:

Í trausti þess, að mál þetta fái viðunandi afgreiðslu Alþingis um leið og frv. til l. um laun starfsmanna ríkisins (þskj. 306), tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.