01.03.1945
Neðri deild: 141. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (4897)

82. mál, endurveiting borgararéttinda

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vil ekki láta hjá líða við þessa lokaumr. málsins að láta það koma fram, að ég er algerlega á móti þessu frv. Það er e.t.v. engin tilviljun, að þegar málið var til meðferðar í n. sl. sumar, voru það þrír lögfræðingar, sem í n. sátu og lögðust allir gegn frv. Og það hefur upplýst verið við umr. um málið, að jafnvel fyrrv. dómsmrh. hefði smeygt sér undan þessari heimild, ef það hefði átt að vera í hans höndum að nota hana á sama hátt og núv. hæstv. dómsmrh. Í raun og veru eru þessir hv. lögfræðingar í n., bæði hv. þm. Snæf. og hv. 2. þm. Eyf., í aðalatriðum á móti frv., eins og þeir hafa báðir lýst, svo að n. er jafnklofin og áður.

Um formsatriði skal ég ekki ræða, en alveg er nægilegt að benda á, að hér er svo mikið vandaverk fyrir hæstv. dómsmrh. að gera upp á milli, hverjir eiga að fá þessa náðun og hverjir ekki. Og eins og hann benti réttilega á, eru menn jafnvel útilokaðir, sem ættu réttilega að koma á borð við hina, sem frv. gerir ráð fyrir, að verði náðaðir.

Ég vildi láta þetta koma fram við afgreiðslu málsins: Ég er á móti frv. og mun greiða atkv. gegn því við lokaatkvgr.