18.01.1945
Efri deild: 105. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (4907)

257. mál, veltuskattur

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Í þessu frv. er lagt til, að á skattskyldan atvinnurekstur verði lagt veltugjald, sem nemi 1–11/2% „ með nokkrum undantekningum þó.

Hygg ég, að mörgum muni finnast hér vera um óvægilega skattaálagningu að ræða, og er hún það að vissu leyti. Það er og naumast hægt að leggja skatt af þessu tagi á nema að tvennu athuguðu. Annars vegar því, að það mun flestra manna mál, að þær atvinnugreinar, sem þessi skattur mun lenda á, séu aflögufærar. Hins vegar gætu ýmsir orðið tregir til að greiða hann, ef ekki væri heimild til þess að lýsa yfir því fyrir hönd ríkisstj., að skatturinn yrði ekki lagður á nema einu sinni.

Það mun ekki verða farið fram á framlengingu á honum, og er þetta eini skatturinn, sem þessi yfirlýsing gildir um.

Þessi skattur kemur nokkuð misjafnt niður. Hann kemur tiltölulega létt niður á þeim fyrirtækjum, sem hafa fremur litla umsetningu„ en verzla með vörur, sem mikil álagning er á, en hins vegar fremur þungt á þeim, sem með þær vörur verzla, sem lítil álagning er á.

Þótt þessi skattur komi misjafnt niður, þá má segja, að sá skattur er vandfundinn, sem ekki kemur að einhverju leyti ranglátlega niður. Það má, hygg ég, segja um alla skatta.

Gert er ráð fyrir, að skatturinn verði 11/2 að af heildsölu og umboðssölu, þó aldrei yfir 25%, en af smásöluveltu 1%.

Það mun ef til vill orka nokkuð tvímælis, að ráðgert er, að skatturinn verði hærri af heildsölu en smásölu. Í því sambandi má þó geta þess, að heildsalan er rekin með hlutafélagsfyrirkomulagi, en smásalan aftur á móti sem einkafyrirtæki. Smásalar njóta og ekki hlunninda heildsalanna.

Það er almennt álitið, að afkoma heildsalanna verði yfirleitt betri en smásalanna. Þetta réð því, að ofan á varð í stj. að hafa þennan skattamismun.

Það er ætlazt til, að skatturinn verði lagður á veltu ársins 1945.

Þegar þetta var rætt í stjórnarflokkunum, var því haldið fram, að einfaldara væri að skattleggja veltu ársins 1944, og erfiðara væri að skjóta sér undan skatti, ef hann væri lagður á veltu fyrra árs. Ég held, að þetta sé ekki rétt, því að betra er að fylgjast með skattinum frá byrjun, enda nær tekjuskattsviðaukinn, sem nú liggur fyrir, til tekna ársins 1944.

Samkvæmt þessu sá ég ekki fært, að veltuskatturinn yrði lagður á tekjur ársins 1944. Allt bendir til, að verzlun verði lík í ár og verið hefur og afkoma verði svipuð.

Þessi skattur, 1–11/2%, á að leggjast á alla verzlun, iðju og iðnað í landinu, yfirleitt á heildartekjur þeirra fyrirtækja, sem selja vörur með álagningu. Þó er undantekning á því samkvæmt 3. gr. Þar segir svo: Eigi skal þó greiða skatt af veltu þeirri, sem hér segir: 1. a. andvirði vöru, sem seld er úr landi; b. andvirði mjólkur og mjólkurafurða, kjöts, nýs, frosins, reykts og saltaðs, fisks, nýs, frosins og saltaðs að síld meðtalinni, þegar vörur þessar eru seldar af framleiðanda þeirra eða í heildsölu;

2. veltu þeirra, sem eru ekki bókhaldsskyldir, sbr. lög um bókhald, nr. 60 11. júní 1938.

Um skatt á útflutningsvörur er ekki að ræða. Á þær hefur aldrei verið lagður skattur. En um b-lið 3. gr. skal ég segja, að þótt undarlegt sé að taka nokkuð fram um það efni, var stj. sammála um, að ekki væri fært að leggja skatt á þær stofnanir, sem framleiddu þær vörur, sem þar eru nefndar. Og í sambandi við hækkun landbúnaðarvísitölunnar má gera ráð fyrir, að það hefðu þótt svik á gerðum samningi. Það hefði verið ósamræmi í því, ef tekjur framleiðenda hefðu verið skattlagðar, og má ganga út frá því, að við það hefðu hlutföllin raskast.

Þetta er ástæðan til þess, að þessar vörur voru ekki skattlagðar.

Þeir, sem skattskyldir eru samkvæmt l. þessum, eiga að senda skattstjóra eða skattanefnd skýrslu ársfjórðungslega. Skulu hinir síðarnefndu ákveða gjaldið innan tveggja vikna og það síðan greiðast tollstjóranum í Reykjavík eða sýslumönnum og bæjarfógetum utan Reykjavíkur fyrir fyrsta dag næsta mánaðar. Reiknast dráttarvextir af honum, 1/2 % á mánuði, hafi skatturinn ekki verið greiddur innan eins mánaðar frá gjalddaga. Telst hver byrjaður mánuður sem heill.

Þessi ákvæði eru sett til þess, að tekjurnar komi inn nokkurn veginn eftir hendinni, eftir því sem ríkissjóður þarf á þeim að halda. Auk þess var litið svo á, að með því væri fremur kleift að hafa eftirlit með framtölum. Með þessum hætti eru skattgreiðendur neyddir til að gera upp veltuna ársfjórðungslega. Hins vegar hefur mér verið bent á, að það mundi vera mjög erfitt fyrir suma kaupmenn, sérstaklega þá smærri, því að menn hafa ekki alltaf fullkomið bókhald, þó að því sé ekki bót mælandi, og þeir, sem hafa ekki fasta menn við verzlunina til að annast bókhaldið, þyrftu þá að leggja á sig talsverðan aukakostnað, ef þeir þyrftu að gera upp sína veltu fjórum sinnum á ári. Ég get þessa í því skyni, að fjhn., sem mun fá þetta mál til athugunar, taki þetta atriði sérstaklega til athugunar og geri sér grein fyrir því, hvort auðið mundi að liðka til á einhvern hátt í þessu efni, t.d. hvort fært mundi að miða það við veltu síðasta árs og endanlegt uppgjör ekki fara fram fyrr en um áramót hjá einhverjum vissum aðilum. Ég segi það eins og er, að ég hef ekki gert mér grein fyrir, hvort þetta er fær leið, en hún er samt sem áður athugandi.

Það gildir það sama um þetta gjald og tekju- og eignarskatt, að ekki er ætlazt til, að heimilt verði að draga hann frá við ákvörðun tekju- og eignarskatts og ekki heldur heimilt að telja hann til kostnaðar við ákvörðun verðlags á vörum. Í þessu felst það, að skatturinn mundi lenda á atvinnurekendum, sem ekki geta þá velt honum yfir á almenning.

Í 8. gr. er ákvæði um, að samvinnufélögum sé ekki skylt að leggja í varasjóð gjald af viðskiptaveltu sinni 1945. Það þótti ekki annað fært en að slá þennan varnagla, því að hugsanlegt er, að skatturinn yrði til þess, að ekki yrði kleift að inna gjaldið af höndum, og yrði þá óhjákvæmilegt að velta honum yfir á vöruna. Þetta er ekki annað en varnagli, en félögunum er heimilt, ef þau hafa ástæðu til, að leggja í varasjóð á venjulegan hátt.

Ég held, að ég hafi þá drepið á flest veigameiri atriði frv., og skal að endingu aðeins leyfa mér að óska eftir, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., og fjhn. til frekari athugunar, því að þótt n. hafi flutt frv., þá hafði hún engan tíma til að athuga það eins vel og þörf var á.