15.02.1945
Efri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1883 í B-deild Alþingistíðinda. (4926)

257. mál, veltuskattur

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. — Ég gerði grein fyrir meginskoðun minni við 1. umr. þessa máls og sé ekki ástæðu til að endurtaka mikið af því. Auk þess get ég vísað til nál. á þskj. 1109, þar sem ég geri grein fyrir afstöðu minni til málsins. Ég hef ekki getað orðið meðnm. mínum sammála um að mæla með frv. Ég verð að ráða d. til að fella það. Ástæðurnar eru teknar fram í nál. Í fyrsta lagi tel ég þennan skatt ákaflega ranglátan. Eins og menn vita, fer hann eftir veltunni einni, en ekki eftir arði af starfseminni eða efnahag gjaldanda. Það getur farið svo, þó að ég fullyrði það ekki. að þessi skattur taki allan arð og meira til hjá fyrirtækjum, sem hafa þrönga möguleika til að auðgast og stefna meir að öðru, en hafa mikla veltu.

Í öðru lagi sé ég ekki betur en skatturinn verði til þess að auka dýrtíð í landinu, að svo miklu leyti sem þær upphæðir, sem þarna er um að ræða, geta haft áhrif. Í 7. gr. frv. er að vísu bannað að taka tillit til skattsins við ákvörðun vöruverðs. En það liggur í augum uppi, að ef verzlanir og fyrirtæki geta greitt þetta án þess að hækka álagningu, þá væri eins hægt að lækka álagningu, sem þessu nemur, og þar með lækka dýrtíðina í landinu. Ég held því, að þegar þetta er athugað, sé ekki hægt að neita því, að þessi skattur komi niður á almenningi í landinu sem neyzluskattur. Ég benti á það við 1, umr., að þetta sést svo greinilega, að ekki er hægt um að deila, þegar um verzlum samvinnufélaga er að ræða. Ein sama niðurstaða verður um alla verzlun og þjónustu í landinu, sem skatturinn nær til, að af almenningi verður féð tekið á einhvern hátt. Um samvinnufélögin ræður það engu, þótt þeim sé bannað að leggja meira á vöruna, það kemur niður á arðinum, sem félagsmönnum er greiddur.

Ég skal ekki að þessu sinni ræða um brtt. á þskj. 1113. Ég ætla, að það geri sáralítinn eða engan mun, hvort veltuskattur greiðist af veltu ársins 1944 eða 1945. Að því er samvinnufélögin snertir, verður niðurstaðan nákvæmlega hin sama, og líkt á við fjölmargar aðrar verzlanir. En það er auðvitað óheiðarlegra að koma aftan að mönnum með skatt af veltu ársins 1944.

Í þriðja lagi fæ ég ekki betur séð en veltuskatturinn verki alveg eins og e.k. verðtollur, sem væri jafnhár á öllum vörutegundum og miðaðist ekkert við það, hvort vara er almenningi nauðsynleg eða hún er óhófsvara. Að vísu verður veltuskatturinn þeim mun léttari á ódýrum vörum en dýrum sem verðhlutfallinu nemur, en það er lítill mælikvarði á gagnsemina og réttlætir ekki skattinn. Ég sé ekki, hvaða ávinningur er að þessu fremur en hækka blátt áfram verðtollinn, en veltuskatturinn hefur ýmsa meiri ókosti en verðtollurinn. Ég vil ekkert fullyrða um það, sem ég óttast mjög, að veltuskatturinn komi þyngst niður á þá, sem telja réttast fram, og erfitt verði að hafa eftirlit með ýmsum, sem vilja svíkja undan.

Ég skal láta þessi fáu orð nægja. Því er miður, að ég geri ekki ráð fyrir, að eftir till. minni verði farið, að fella frv. Það er talið samningsmál flokka, sem styðja ríkisstj., að frv. gangi fram. Mér er einnig ljóst, að afla verður ríkissjóði tekna, og ekki eru nema fáar mínútur síðan ég rétti upp hönd til að samþ. frv. í því skyni (230. mál). Ef þetta frv. félli, mundi ég verða viðmælandi um aðrar tekjuöflunarleiðir, sem ég tel heppilegri. En um hitt hef ég meiri von, að nauðsynlegar brtt. fáist e.t.v. samþ. Þess vegna ber ég fram brtt. á þskj. 1111. Hún er um tvö atriði. Hið fyrra er, að skattur leggist ekki á innlendar matvörur, þótt aðrir en framleiðendur selji vöruna. Ég legg til. að orðin í 3. gr.: „þegar vörur þessar eru seldar af framleiðendum þeirra eða í heildsölu“, — falli burt.

Mér er t.d. tjáð, að hér á verðlagssvæði Reykjavíkur séu allmargir, sem selja mjólk í umboðssölu og fá 3% af andvirði mjólkurinnar fyrir starfið. Ef frv. yrði samþ. óbreytt. mundi takast 1/3 af þeirra launum í skatt, og er það há skattlagning að taka þriðjung kaups í þennan eina skatt, — eða þótt aðeins yrði 1/4, þar sem þetta mun yfirleitt vera umboðssala. Mér finnst þar hart að gengið, enda hlyti það að leiða til þess, að brauðsölu úðir og aðrir hættu þeirri umboðssölu — almenningi mjög til óþæginda. Þetta hlyti að koma niður á neytendum eða þá á framleiðendum með hækkun sölulauna. Brtt. mín miðar að lagfæringu á þessu.

Í öðru lagi legg ég til að undanþiggja nokkrar brýnustu nauðsynjar almennings þessum skatti, þ.e. kjöt og mjólkurvörur á innanlandsmarkaði, kornvörur allar og byggingarefni. Almenningi er tilfinnanlegra, að þær vörur hækki en flestar aðrar. Verzlanir munu hafa lagt minna á þær vörur en flestar aðrar og standa því illa að vígi að gjalda háan skatt af þeirri veltu. Enginn vafi er á því hins vegar, að þörfin á byggingarefni verður ákaflega mikil nú í stríðslokin. Undanfarin ár hefur verið skortur á efni og það, sem fékkst, verið mjög dýrt. Það er von manna, að þegar, er úr því rætist, verði hafnar stórfelldar framkvæmdir og margar þær framkvæmdir munu njóta styrks úr ríkissjóði. Með því að leggja skatt á veltu þeirra nauðsynja er verið að taka úr einum vasa ríkisins til að láta í hinn, svo að ekki sé kveðið harðar að orði.

Þó að ég viti, að meiri hl. d. er andstæður meginskoðun minni, geri ég mér von um, að d. geti fallizt á brtt. mína, sem gerir þessa skattlagningu nokkru mildari en annars mundi. og mundi ég þá láta niður falla frekari andmæli gegn málinu sjálfu.