15.02.1945
Efri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (4928)

257. mál, veltuskattur

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Þau rök, sem komið hafa fram frá hv. minni hl. fjhn. gegn frv. í heild og frá hv. 3. landsk. þm. sem meðmæli með brtt. hans og hv. 7. landsk. þm., eru í raun og veru þau sömu og komu hér fram við 1. umr., og ég hef ekki tekið eftir því, að eiginlega hafi komið neitt nýtt fram. Þau rök voru rædd þá, og ég held þess vegna, að í raun og veru séu mjög langar umr. um málið frekar gagnslitlar, vegna þess að það er auðsjáanlegt, hvað það er, sem menn hafa með og hvað á móti hverju um sig af þessu.

Hv. minni hl. n., hv. 1. þm. Eyf., færði aðallega tvær ástæður, skildist mér, á móti þessari skattaaðferð, því að mér skildist, að hann í raun og veru væri ekki á móti því, að það þyrfti að ná tilsvarandi tekjum í ríkissjóð. Það, sem mér virtist hann aðallega hafa á móti frv., var í fyrsta lagi það, að þessi skattur væri alveg óvenjulega ranglátur, og svo í öðru lagi, að hann mundi óhjákvæmilega lenda á vöruverðinu og þar af leiðandi á neytendum í landinu.

Um fyrsta atriðið, að þessi skattur sé ranglátur, þá er náttúrlega erfitt að neita því, að hann komi ranglátlega niður, þar sem hann kemur niður á mikinn og lítinn gróða og jafnvel á engan gróða sumra þeirra fyrirtækja. sem starfa í landinu eða hafa starfað, ef það yrði ofan á að miða hann við árið 1944, en ég held, að það megi nokkuð lengi elta ólar við það, hvaða skattar séu í raun og sannleika að fullu réttlátir. Ég vil taka jafnþaulprófaða löggjöf eins og sjálfan tekju- og eignarskattinn. Það m á vel vera, að þ. finni svo réttlátan skattstiga, að við það megi una, en enn þá hefur ekki fundizt nein aðferð til þess að fá framtalið og þar af leiðandi grundvöllinn undir skattaálagið þannig, að ekki kenni hins mesta ranglætis á ýmsan hátt. Við skulum taka t.d. embættismann, sem hefur föst laun um árið, ef til vill aukatekjur, sem eru líka opinberar, þannig að skattstofan þarf ekki að spyrja um tekjur hans, heldur fær hún upplýsingar um þær hjá viðkomandi stofnun. Svo skulum við á hinn bóginn taka kaupsýslumann, sem hefur, eins og það er kallað á vondu máli, „lausaforretningu“. Ég gæti trúað, að það væri nokkuð erfitt að bera saman raunverulegar tekjur þessara manna, enda vitað af öllum, að alltaf fer fram hjá tekjuskatti ákaflega mikið af tekjum, og má sjá það, þótt ekki væri af öðru en því, að þrátt fyrir þau skattalög, sem við höfum búið við. hefur þó ýmsum mönnum safnazt æðimikið fé. Eða þá útsvörin. Hvað getur verið ranglátara en það, þegar verið er að leggja svo og svo mikið útsvar á fyrirtæki, sem allir vita, að hafa ekkert gefið af sér. Það hefur orðið að ná peningum, og það hefur orðið að gera það á þennan hátt. Þetta er því ekki eins nýtt og menn vilja vera láta. Bæjar- og sveitarfélögin verða að láta sér það lynda að leggja meira eða minna á veltuna. Ég vil ekki segja, að það sé eins ákaflega ranglátt að leggja á veltuna og stundum er haldið fram. Þessi umfangsmiklu fyrirtæki, sem hafa mikla veltu, hafa þann teygjanleika, að þau geta bjargazt yfir „dauða“ punkta. þar sem aftur á móti þeir, sem minni hafa veltuna eða kannske enga, geta ekki af neinu séð í skattagreiðslur. Það er þessi teygjanleiki í þessari miklu veltu, sem gerir það að verkum, að oft og einatt verður að hlaupa í að láta þau hjálpa yfir erfið tímabil. Þessi stóru fyrirtæki eru annaðhvort rekin í von um gróða eða engin skynsemd er í að reka þau.

Ég segi fyrir mitt leyti, að ég vil ekki vera að verja þennan skatt, nema kannske að sumu leyti, með því að það er yfirlýst, að hann skuli ekki verða nema einu sinni tekinn. en ég vil mótmæla því, að hann sé einu rangindin, sem hafi komið fram í skattamálum okkar, því að margir skattar koma ákaflega ranglátlega niður. Þessu sama hefur líka verið haldið fram gegn aðflutningsgjöldunum yfirleitt, að fátækir og ríkir verða að borga þau, sérstaklega þegar um er að ræða þungatoll og toll á algengustu nauðsynjavörum, þá komi þeir að því leyti ranglátlega niður, að margir verða að greiða þá, sem í raun og veru hafa ekki efni á því. Þetta er skattastofn, sem er til frambúðar og verður að greiða ár eftir ár, en hér er þó um að ræða bráðabirgðafyrirbæri, sem ekki er ætlazt til að standi nema 1 ár, og er það mjög til bóta, þó að hér sé að ýmsu leyti um skatt að ræða, sem mun koma niður allranglátlega.

Hin ástæðan var svo um það, að þessi skattur mundi koma niður á neytendum, og var það í raun og veru langveigamesta atriðið, einnig í ræðu hv. 3. landsk. þm. Meðmæli hans með því, að skatturinn sé miðaður við árið 1944, en ekki 1945, mun stafa af því, að mér skilst, að hv. 1. þm. Eyf. gerði þar engan mun á, og er ég honum sammála um, að það muni ekki skipta öllu máli. Þar er, eins og ég gat um í hinni stuttu framsöguræðu minni, tilgangurinn sá að reyna að ná þessum tekjuauka án þess að skatturinn komi ranglátlega niður, og ég sagði þá og segi enn, að ég þori litlu að spá um, hvernig þetta takist, en ég sé ekki heldur neitt á móti því að reyna það, og leiðin, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á, þar sem hann segir, að eins gott sé að taka þennan skatt með hækkuðum aðflutningsgjöldum, þá er sama sem að gefa upp þessa tilraun og láta skattinn koma niður á almenning og þar með á verðlagið í landinu og vísitöluna og annað slíkt. Mér skilst, að hér greini ekki á um annað en mismunandi trú á, hvernig takist að ná þessari upphæð, án þess að hún festist í verðlaginu. Ég verð að játa, að ég skil ekki fullkomlega, hvað fyrir hv. þm. vakir, þar sem hann segir, að þetta liggi sérstaklega í augum uppi, þegar til kaupfél. komi, vegna þess að þar lækki arðurinn af viðskiptunum og skatturinn lendi því á viðskiptamönnunum, sem séu í rauninni eigendur kaupfél.

Þetta sýnir bara, hve einkennilega lengi menn eru að átta sig á því, að með því að verzla er u þessir menn í raun og veru orðnir kaupmenn. Ef ég er í kaupfélagi, þá má ég ekki rugla saman fjárhag mínum og fjárhag kaupfélagsins. Það er auðséð, að arður þessara kaupmanna minnkar og á að minnka við þennan skatt, eins og arður annarra kaupmanna. Þetta er engin sönnun fyrir því, að þetta komi sem neytendaskattur. Hann kemur niður á þeim neytendum, sem jafnframt eru kaupmenn og eiga þess vegna að greiða skattinn.

Ég held, að ég segi svo ekki fleira um þetta, en sný mér þá að brtt. hv. 1. þm. Eyf. Ég er honum alveg sammála um það, að mjólkurverzlunin eigi að vera undanþegin skattinum, og ég hygg, að það sé að nokkru leyti missmíði á frv. að miða við sölu beint frá neytendum, því að í raun og veru er tilgangurinn sá, að mjólkin verði alveg undanþegin þessum skatti, og tel ég, að það muni litlu breyta um skattinn í sjálfu sér. Ég verð að segja, að um kjötið er ég ekki jafnviss í þessu efni, hvort það er jafnsjálfsagt, að þeir, sem verzla með kjöt, geti ekki borið þennan veltuskatt. Mig vantar nægilegar upplýsingar um það, hvort kjötverzlanir hafa staðið verr að vígi en aðrar verzlanir og hafi minni ágóða, en mjög mikill munur er á mjólkur- og kjötverzlun að því leyti, að þetta er miklu meiri kaupsýsla, sem þar fer fram. En það, sem ég er fyrst og fremst á móti, er það að undanþiggja kornmat. Þá mætti alveg eins undanþiggja fatnað. En það mun venja, að fæði og klæði fari saman.

Ég álít, að hér sé um ráðstöfun að ræða, sem allir verða að taka þátt í, og það næst helzt með því, að nokkur hluti komi á nauðsynjavörur. Þá er það till. hv. 3. landsk. um, að þetta verði miðað við árið 1944. Ég hef hallazt að því að samþ. frv. óbreytt. Skattar eftir á eru yfirleitt siðleysi, og þótt Alþingi hafi stundum gert þetta, þá er það lítil bót, enda mun það varla hafa verið gert á sama hátt, nema þá um fisksöluna.

Áður hafa menn að nokkru getað búizt við slíkum sköttum. En hér er alveg um nýjan skatt að ræða.

Ég skal játa það, að mér verður fátt um svör, ef ég er spurður, af hverju ég hefði verið með því að skattleggja fisksöluna. En þó er þar nokkuð öðru máli að gegna. Þar eru færri gjaldendur og yfirleitt vel stæðir.

En samt hefur sá skattur ef til vill hvað bezt opnað augu mín fyrir því, hvert siðleysi þetta er. Ég fékk t.d. að athuga eitt fyrirtæki, þar sem útkoman var sú, að ágóðinn og skatturinn stóðust á svo að segja upp á krónu.

Slíkar aðfarir stefna í rauninni ekki til annars en fullkominnar þjóðnýtingar. Ef skatturinn er lagður á ókomna tímann, er þó sá munur, að atvinnurekandinn getur hagað rekstrinum nokkuð eftir því, t.d. með því að hætta, ef sýnt væri, að reksturinn þyldi ekki skattana. Það er í öllu falli sómasamlegra, að menn viti, að hverju þeir ganga. Þetta virðist mér grundvallarmunurinn á því að leggja skattinn á 1945, en ekki 1944.

Ég skal svo ekki telja hér upp aftur þær ástæður, sem voru færðar fram við 1. umr.

Það verður ekki framhjá því gengið, að þessi skattur er mikil byrði, en það er þó á valdi þingsins síðar meir að íþyngja mönnum ekki enn meir, ef það telur veltuskattinn hafa orðið of þungan, og leggja þá ekki á tekjuskattsauka.

Ég vil svo aðeins minnast á það, sem hv. 3. landsk. taldi meginatriði að sínum dómi, og það er, hvort leggja skal skattinn á neytendur eða ekki. Hann telur, að sé skatturinn lagður á árið 1944, þá komi hann ekki niður á neytendum, en það geri hann aftur á móti, sé hann lagður á árið 1945. Þetta eru mikilvægar forsendur, ef þær gætu staðizt, en það hygg ég þær geri ekki. Reynslan yrði sú, að þótt lagt yrði á árið 1944, þá yrði skatturinn greiddur af rekstri ársins 1945, og ef verðlagsráð kemur til með að taka tillit til þessa, þá mundi það alveg. eins gera það, þótt þannig væri farið að.

Varðandi það, að eins megi lækka vöruverðið og leggja á slíkan veltuskatt, þá er því til að svara, að ég get ekki hugsað mér, að verðlagsákvæði geti verið svo nákvæm eða rétt sé, að þau séu svo nákvæm, að þau taki fyrir allan arð af rekstrinum.

Að öllu athuguðu held ég, að ekki verði hjá því komizt, að þessi skattur lendi að nokkru á neytendum, hvort sem hann er lagður á 1944 eða 1945.

Ég legg því til, að frv. verði samþ. óbreytt, og læt þetta nægja frá minni hendi.