16.02.1945
Efri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (4935)

257. mál, veltuskattur

Haraldur Guðmundsson:

Ég gerði grein fyrir brtt. mínum og hv. 7. landsk. við 2. umr. málsins og hef í raun og veru litlu við það að bæta, sem ég sagði þá þeim til stuðnings, öðru en því, sem ummæli einstakra hv. þm. hafa gefið mér tilefni til.

Höfuðröksemd mín fyrir brtt. var sú, að ég tel, að ef skattgjaldið er miðað við veltu ársins 1944, þá megi telja fulltryggt, að skatturinn lendi raunverulega á þeim, sem greiða hann, en geti ekki komið fram í verði eða lent á neytendum og þeir eiginlegu gjaldendur komi honum þannig af sér. Verði frv. hins vegar samþ. óbreytt og skattgjaldið miðað við árið 1945, þá tel ég engan veginn tryggt, að skatturinn geti ekki komið fram í verði og lent á neytendum og þeir, sem greiða hann, komið honum þannig af sér.

Ég verð að segja, að þau mótmæli, sem fram hafa komið við umr. gegn þessari brtt., hafa engan veginn orðið til þess að draga úr efasemdum mínum í þessu efni, heldur þvert á móti. Hv. frsm. meiri hl. hins vegar heldur því fram, að í raun og veru muni vera nokkuð litiil munur á því, hvað þetta snertir, hvort skatturinn er miðaður við 1944 eða 1945, því að verðlagseftirlitið hafi bæði töglin og hagldirnar í verðlagsmálunum og geti séð um, að þótt miðað verði við veituna á þessu ári, þá hafi það engin áhrif á, verðlagið. Ég hygg, að það sé ekki hægt að fullyrða þetta, þó að ég vilji ekki fullyrða, að verðlagseftirlitinu geti ekki orðið eitthvað ágengt í þessu efni. En það er augljóst mál, að ef skattgjaldið er miðað við árið 1944, þá er hættan að mínum dómi engin. Verðlagningu þess árs er lokið og sú velta upp gerð. Það eru því engar minnstu líkur til, að skatturinn hafi áhrif á verðlagningu, ef hann er miðaður við veltuna 1944. Hins vegar virðist mér liggja í augum uppi, að ef hann er miðaður við 1945 og verðlagseftirlitið beitir sínu valdi þannig, að aðeins verður leyfð nauðsynlegasta álagning til að reka verzlunina, þá getur orðið í sumum tilfellum um tvennt að ræða, annaðhvort að fjárhagslegur halli geti orðið á rekstrinum eða þá að leyfa meiri álagningu en annars væri gert. Ég vil ekki leyna því, að mér er ljóst, að þrátt fyrir góðan vilja, þá er hætta ríkjandi í þessu efni, en engin, ef miðað er við veltu ársins 1944.

Auk þess vil ég leyfa mér að minna á, að í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er það beinlínis tekið fram, að hún muni gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að halda niðri verðlagi í landinu og beita heimildum löggjafarinnar um verðlagseftirlit eins og fært sé í þessu skyni. Ég sé því ekki annað en hæstv. stjórn mætti vera það frekar kærkomið, að skattgjaldið væri miðað við árið 1944, svo að engin hætta væri á, að tekið yrði tillit til þess við verðlagningu á vörum 1945.

Auk þess er þess að gæta, að það mun almennt viðurkennt, að árið 1944 hafi verið mjög hagstætt verzluninni, svo að hún hafi skilað góðum hagnaði. Hins vegar er því haldið fram af mörgum, og er það ekki ólíklegt eftir yfirlýsingum hæstv. stj. um, að verðlagi verði haldið niðri, svo sem kostur er, að ekki muni vera eins mikils ágóða að vænta af verzluninni á þessu ári. Er þar einnig á það að minnast, að á síðasta ári voru ekki allar vörur undir verðlagseftirliti, en nú fyrir áramótin var hvert einasta tangur og tetur sett undir verðlagseftirlit, og flestar innlendar vörur eru undir verðlagsákvörðunum. Þá er ekki heldur hægt að ganga fram hjá því með öllu, þó að það sé óskylt mál, að sterkar líkur benda til, að talsvert margir heildsalar hafi lagt meira á vörurnar á s.l. ári en heimilt var samkvæmt l. og fengið þar með verulegan arð. Ég segi þetta ekki af því, að ég ætlist til, að þær sakir séu gerðar upp með þessum skatti, en ég bendi á það, til þess að menn geri sér ljóst, að þetta bendir til, að jafnvel hafi verið meiri gróði á árinu en fram kemur í opinberum skýrslum.

Loks get ég ekki komizt hjá því að óttast, ef skattgjaldið er miðað við árið 1945, að svo geti farið, að vonir hæstv. fjmrh. um tekjur af skattinum geti nokkuð brugðizt. Hv. þm. Barð. tók glögglega fram í ræðu sinni við 2. umr., að eitt af því, sem sterkast mælir með að miða við árið 1945, en ekki 1944, væri það, að þá gætu þeir einstaklingar, sem það vildu, hagað sínu rekstrarfyrirkomulagi til samræmis við það, sem hentugast væri undir þessari skattalöggjöf, og dregið úr eða breytt í annað horf þeim rekstri, sem útlit væri fyrir, að ekki borgaði sig. Er ekki hæstv. fjmrh. hræddur um, að slíkt gæti haft einhver áhrif á skattinn? Ég fæ ekki skilið ummæli hv. þm. Barð. á annan veg en að ætla mætti, að svo yrði. Ég sé ekki neitt auðveldara fyrir ýmis fyrirtæki en að breyta á þann veg til í eitt ár, að í staðinn fyrir að nefna verzlun sína heildverzlun, gætu þeir nefnt hana umboðsverzlun fyrir lágar prósentur í umboðslaun, og þá væri skatturinn ekki nema 25% af þeim umboðslaunum. Mér þykir ákaflega sennilegt, að ýmis fyrirtæki mundu reyna þetta. En hvaða áhrif það hefur á skattinn, er augljóst.

Ég er því ekki einasta jafnsannfærður, heldur enn sannfærðari um það nú en við 2. umr., að ef skatturinn á að koma þann veg niður, sem til er ætlazt, þ.e.a.s. að lenda óyfirfæranlega á þeim, sem greiða hann í fyrstu, og að þeir geti ekki velt honum yfir á aðra, þá sé sjálfsagt að miða við veltu ársins 1944, en ekki 1945, hvort sem litið er til þess, hverjar líkur eru til, að skatturinn gefi þær tekjur, sem gert er ráð fyrir, eða hins, sem er ekki þýðingarminna, að hann lendi raunverulega á þeim, sem er ætlað að bera hann.

Hv. þm. Barð. lét ýmis orð falla í sambandi við ummæli mín um skattinn. Ég læt þeim ósvarað að öðru leyti en því að minna á það, sem ég áður hef sagt. En vegna þeirra ummæla þykir mér rétt að bera fram skrifl. brtt. við 9. gr. frv., ekki af því að mér þyki út af fyrir sig þörf á því, heldur vegna þeirra ummæla, sem hér hafa fallið, til að taka af öll tvímæli. (Fjmrh.: Hefur hv. þm. athugað ákvæði 7. gr.?) Ég legg til á þskj. 1113, að hún falli niður, en legg til, að þetta komi í staðinn.

Hv. 1. þm. Eyf., frsm. minni hl., kvaðst vera algerlega andvígur þessu frv. Ég skal ekki fara mörgum orðum um það, sem hann sagði. Ég get þar verið honum sammála í sumum atriðum, en sumt af ummælum hans kom mér einkennilega fyrir eyru.

Hv. 1. þm. Eyf. mótmælti því eindregið og lagði fast við, að hann hefði nokkurn tíma verið með því að samþ. sambærilegan skatt og þennan, sem hefði einnig verið lagður á eftir á. Ég hefði ekki haldið, að jafnminnugur maður og þessi hv. þm. myndi jafnskammt í þessu efni. Það eru aðeins örfáir dagar, síðan þessi hv. d. afgr. frv. um skatt á fiski, sem seldur hefur verið á erlendum markaði, og þessi skattur er nákvæmlega hliðstæður því gjaldi, sem lagt er til með þessu frv., að lagt verði á, að öðru leyti en því, að sá skattur á að leggjast á veltu ársins 1944, en ekki 1945. Og með þessum skatti á dögunum greiddi hv. 1. þm. Eyf. atkv., bæði í fjhn. og einnig hér í þessari hv. deild.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði enn fremur, að með brtt. nr. 4, ætla ég, á þskj. 1113 væru samvinnufélög svipt öllu sjálfsforræði um sín eigin málefni. Ég skal ekki togast á um orð við þennan hv. þm. En efni gr. er einfaldlega það, að ekki sé hægt að láta hin einstöku kaupfélög greiða bæði heildsöluskattinn og smásöluskattinn, heldur verði heildsöluveltuskatturinn að greiðast af sameiginlegum sjóði Sambandsins, en eigi ekki að koma sem útgjöld hjá hverju einstöku kaupfélagi eða samvinnufélagi, en það mundi verða að óbreyttum ákvæðum frv. — Að vissu leyti er það rétt, að skatturinn lendi á samvinnufélögum og þess vegna á neytendum, hvort árið sem tekið er, að því leyti til, að eignir kaupfélaganna og Sambandsins eru sameignir allra samvinnumanna í landinu. Að því leyti getur það talizt rétt, en ekki að neinu öðru leyti.

En annars get ég sagt það um þetta atriði, að yfirleitt virðist mér reynslan hafa verið sú undanfarin ár, að Sambandið og kaupfélög flest hafi notað sér verðálagningarheimildir verðlagseftirlitsins nokkurn veginn til jafns við kaupmenn, þó með nokkrum undantekningum, og þar með að minni hyggju vanrækt mikils verðan þátt í starfi sínu og ætlunarverki, sem sé að reyna að hafa hemil á verðlaginu, segjandi sem svo: Það er ekki hægt að ætlast til þess af okkur, eftir að löggjafinn skipar þessum málum með sérstakri lagasetningu. Og ég skal játa, að það er nokkuð til í þessu. Ég þekki þó nokkur kaupfélög, sem eru undantekning frá þessari reglu, sem ekki nota til fulls þær álagningarheimildir, sem verðlagseftirlitið hefur gefið. En einmitt vegna þess, að það má segja, að það sé sú almenna regla, að þau noti þessar heimildir, þá finnst mér eðlilegt, að þetta skattgjald komi niður á kaupfélögum og samvinnufélögum og samböndum þeirra eins og öðrum verzlunum á landinu.

Ýmislegt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði um agnúa á frv., get ég að vísu tekið undir. En mér fannst hann þó ekki sanna fullkomlega það, sem hann hélt fram í ræðu sinni, að ekki einasta væri þetta ranglátur eignarskattur, heldur líka, að áreiðanlega yrði hann neytendaskattur og því eins og hver annar tollur. Þetta getur ekki farið saman, að skatturinn geti verið eignarskattur og ranglega á lagður og hins vegar, að hann verði yfirfærður af greiðendum á neytendur og verki sem tollur. Sannleikurinn er sá, að ef skattgjöldin eftir þessum skatti eru miðuð við árið 1944, er það tvímælalaust, að skattinum í eðli sínu svipar til eignarskatts, því að hann hefur sömu verkanir og verður óyfirfærður af greiðendum á neytendur. En sé miðað við árið 1945, óttast ég, að helmingur af röksemdum hv. 1. þm. Eyf. standist, þannig að skatturinn verði yfirfærður á neytendur og kannske nái ekki tilgangi sínum. Ég vil ekki segja, að svo verði, en ég álít ekki hægt að tryggja, að svo verði ekki. Og af þessu mótast afstaða mín til málsins.