16.02.1945
Efri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (4938)

257. mál, veltuskattur

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Áður en 2. umr. var lokið, hafði ég kvatt mér hljóðs og ætlaði að víkja nokkuð að aths. hv. 1. þm. Eyf. Hann er ekki mættur hér í hv. þd. nú, svo að ég ætla að láta hjá líða að svara þessum aths., því að ég kann ekki við að rökræða við hann fjarverandi, enda verður væntanlega tilefni til þess að minnast á þau atriði síðar.

Ég ætla því nú aðeins að víkja nokkrum orðum að brtt. hv. 3. landsk. og þeim röksemdum, sem hann hefur fært fyrir brtt. sínum. Hann leggur til, að veltuskatturinn verði miðaður við veltu ársins 1944, í staðinn fyrir, að í frv. er gert ráð fyrir, að hann verði miðaður við veltu ársins 1945. Aðalröksemdin, sem hann færir fyrir þessu, er sú, að sé skatturinn miðaður við veltu ársins 1944, þá muni hann lenda einvörðungu á kaupsýslumönnum og iðnaðarmönnum, sem gert er ráð fyrir, að skatturinn verði lagður á. En verði skatturinn miðaður við veltu ársins 1945, sé hætta á, að hann lendi á neytendum og komi fram sem hækkað vöruverð.

Ég held, að hér kenni nokkurs misskilnings hjá hv. þm. í þessu efni. Hann veit það nú, að í frv. sjálfu er berum orðum fram tekið, að það sé óheimilt að telja skattinn með í kostnaðarverði vöru eða að taka á annan hátt tillit til hans við verðákvörðun. Skýrar verður þetta varla sagt en gert er í frv. En þessi ótti hv. þm. við, að ekki verði farið eftir þessum ákvæðum frv., stafar, að ég ætla, af því að hann hafi einhvern veginn ekki áttað sig á því, að þessi skattur er algerlega persónulegur skattur. Það er í honum aðeins viðmiðun við umsetningu hlutaðeigandi gjaldanda, sem ræður því, hve hár skatturinn verður. Ef hv. þm. á annað borð óttast, að verðlagsyfirvöldin, sennilega á móti vilja sínum, fari ekki eftir þessum ákvæðum frv., þau sem sagt geti gleymt því, þegar þau eiga. að ákveða verðið, að þessar greiðslur eru útgjöld, sem ekki eiga að koma fram á kostnaðarverði vörunnar, — ef hv. þm. er hræddur um það, þá er ég jafnsannfærður um það, að það er jafnerfitt fyrir þá. sem verðlagið eiga að ákveða, eins og að gleyma því, að skatturinn, sem á að greiðast á árinu 1945, hefur verið lagður á þannig, að miðað hefur verið við veltu ársins 1944, ef hans brtt. væri samþ. Það kemur þess vegna að því leyti algerlega í sama stað niður, hvort miðað er við veltu ársins 1944 eða 1945, að skatturinn í báðum tilfellunum á að greiðast á árinu 1945, annaðhvort af tekjum þess árs, ef þær leyfa það, eða í versta tilfelli, ef tekjurnar leyfa það ekki, verður það í framkvæmdinni að takast af eign hlutaðeigandi greiðanda. Og ég á ákaflega erfitt með að setja mig inn í röksemdafærslu hv. 3. landsk. þm. Ég veit ekki, hvers konar sálrænt fyrirbrigði það ætti að vera hjá verðlagsyfirvöldunum, ef þau gætu gleymt þessu, sem hv. þm. virðist gera ráð fyrir. Ég sé sem sagt ekki, að fyrir fram sé nokkur ástæða til að gera ráð fyrir, að verðlagsyfirvöldin fari ekki eftir þessum skýru og alveg ótvíræðu lagafyrirmælum. Mér finnst því, að þessi ástæða, sem hv. 3. landsk. þm. ber fram fyrir 1. brtt. sinni, sé á engan hátt á rökum reist.

Hin aðalástæðan, sem hv. 3. landsk. þm. færir fram, er sú, að hætta geti verið á því, að skatturinn gefi minni tekjur, ef miðað er við árið 1945 en ef miðað er við fyrra árið. Það má vera, að þessi röksemd hans sé á meiri rökum reist en mér finnst hin röksemdin vera. Hann bendir sérstaklega á það, að hætta geti verið á, að fleiri eða færri af þeim, sem verzlun reka, mundu breyta verzlun sinni úr heildsölu yfir í umboðsverzlun. Það er ekki óhugsanlegt kannske, að í einstökum tilfellum gæti þetta komið fyrir. En þó verð ég að segja, að einkennilega er sá kaupmaður hugsandi, sem sleppir heimild um að leggja 10% á vörurnar, til þess að komast hjá að greiða 11/2% söluverðs í skatt til ríkissjóðs. Til þess að kaupmaður geri þetta, þarf honum að vera meir annt um að gera ríkissjóði óleik með því að hindra, að fé fáist í ríkissjóð, heldur en að afla fjár í sinn eigin vasa. Það er kannske nokkuð til í því, að mörgum sé ekki annt um hag ríkissjóðs, en hins vegar er flestum annt um sina eigin buddu. Og ég held, að af öllum þorra manna sé hugsað meira um hana heldur en þó um hitt að svipta ríkissjóð tekjum. Hins vegar skal ég játa, að aðstaðan getur verið þannig undir einstökum örfáum kringumstæðum, í undantekningartilfellum, að menn kunni að taka þann síðari kostinn. Og þó að svo færi, að ríkissjóður missti segjum 200–400 þús. kr. á þennan hátt, þá er það ekkert aðalatriði í sambandi við þessa skattálagningu. Því að óhugsandi er, að þetta yrði gert í svo stórum stíl, að verulegu máli skipti. En sá möguleiki er til, að verzlunarvelta yrði til muna minni árið 1945 en árið 1944. Hún getur orðið minni 1945, en hugsanlegt er, að hún yrði meiri þá en 1944. Og það getur hvorugur okkar, hv. 3. landsk. þm. eða ég, sagt um það á þessum tíma, hvort þær breyt., sem á veltunni kynnu að verða, yrðu til hagnaðar eða taps fyrir ríkissjóð.

Ég hef nú áður gert grein fyrir því hér í hv. d., á hverju ég hef byggt þá ákvörðun að miða skattinn við árið 1945 í staðinn fyrir árið áður, enda þótt ég verði að játa, að að vissu leyti væri hið síðarnefnda einfaldara í framkvæmd. Ég skal ekki fara að endurtaka þetta, heldur aðeins rifja upp í örfáum orðum þær höfuðröksemdir, sem ég tel mig hafa fyrir því að haga þessu á þann hátt. sem ég hef lagt til. Eru þær fyrst og fremst það, að ég álít, að skattlagning tekna eftir á eigi ekki að fara fram að óþörfu undir neinum kringumstæðum. Ástæðurnar hafa reynzt þannig, að ekki hefur verið hægt að komast hjá eftirsköttun tekna, en slíkt er neyðarúrræði. Og slíkt er því óafsakanlegra, sem það er framkvæmt í stærri stíl. Það er búið að leggja á tekjuskattsauka. Og ef nú væri lagður á jafnhár skattur og hér er um að ræða, þá er orðið um svo gífurlega eftirsköttun að ræða, að ég a.m.k. treysti mér ekki til að verja hana. Enn fremur hef ég á það bent, að menn eigi rétt á því að fá að vita fyrir fram, að hverju þeir ganga, þegar um háar skattaálagningar er að ræða, því að það eru til þeir möguleikar, að menn vilji fremur hætta við atvinnurekstur sinn en borga af honum mjög háa skatta. Ég segi ekki, að mikil brögð yrðu að því. En það er hugsanlegt, að menn vilji heldur þannig breyta til en gjalda þá skatta, sem hér er um að ræða. Og það er ekki meiningin, hvorki með þessum skatti né neinum skattaálögum, að ganga svo nærri mönnum, að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Og þess verður að gæta við allar skattaálagningar. Og ef menn vita fyrir fram, að hverju þeir eiga að ganga í þessum efnum, þá er erfitt fyrir þá að koma á eftir og segja: Mér hefur verið gert ókleift að standa við skuldbindingar mínar, vegna skattaálagningar, sem ómögulegt var fyrir mig að vita um á þeim tíma, sem atvinnureksturinn fór fram. — Þetta er í raun og veru aðalatriðið, sem gerir það að verkum, að ég vil miða við árið 1945, en ekki 1944, þessa skattaálagningu.

Svo skal ég benda á það til viðbótar, sem ég mun ekki hafa gert áður og ég veit ekki, hvort hv. 3. landsk. þm. hefur veitt athygli, að vafalaust yrðu ýmsir teknískir erfiðleikar á því að miða skatt þennan við tekjur ársins 1944, sem stafa af því, að sumir af þeim mönnum, sem rekið hafa fyrirtæki það ár, sem yrðu skattskyldir, ef við það ár væri miðað, hafa dáið á árinu 1944 og búum þeirra er e.t.v. búið að skipta, og yrði þá að fara að eltast við að ná skattinum hjá erfingjunum. Sumir, sem hafa rekið fyrirtæki á árinu 1944, hafa enn fremur farið yfir í aðra atvinnu og eru kannske farnir af landi burt. Og yfirleitt geta ýmsir erfiðleikar komið fram við skattheimtuna, ef miða á skattinn við árið 1944. Loks er svo það, að einstöku vörutegundir hafa, á árinu 1944 verið seldar í heildsölu með þess konar álagningu, að engum manni gæti dottið í hug að leggja þennan skatt á þá álagningu. Ég benti á það hér við 1. umr. málsins viðkomandi heildsölu á kolum (og enda sementi), að álagningin á kolum a.m.k. er ekki nema 1/2 partur af þessum skatti. Það yrði því, ef leggja ætti þennan skatt á veltu ársins 1944, óhjákvæmilegt að hafa allvíðtækar undanþáguheimildir í l. um þennan skatt. Og ég hygg, að engin ríkisstj. yrði öfundsverð af framkvæmd slíkra l., þar sem um mjög víðtækar undanþáguheimildir væri að ræða.

Að þessu öllu athuguðu verð ég að halda fast við ákvæði frv. eins og þau eru og leggja á móti því, að brtt. hv. 3. landsk. þm. verði samþ. Og mér er, satt að segja, alveg óskiljanlegt, ef hv. 3. landsk. að vel yfirveguðu máli leggur svo mikið kapp á þessa breyt., að hann geri samþykkt hennar að skilyrði fyrir fylgi sínu við frv.

2. og 3. brtt. hv. 3. landsk. þm. eru afleiðing af 1. brtt., og þær hljóta að fylgja henni, og þess vegna er ekki ástæða að gera þær að umtalsefni. En um 4. brtt. vil ég aðeins segja það, að ég get ekki betur séð en það væri að ganga allt of nærri sjálfsákvörðunarrétti samvinnufélaganna, ef ætti með lagaákvæðum að bjóða þeim að úthluta arði á vissan hátt. Mér sýnist, að ákvarðanir um arðsúthlutun séu eitt af því, sem erfiðast er að taka úr höndum atvinnurekandans. Og ég hygg. að engin fordæmi séu í l. fyrir því, að það hafi verið gert. Það hefur að vísu með l. í einstökum tilfellum verið gert að skilyrði fyrir öðrum réttindum, að arðsúthlutun fari ekki fram úr vissu hámarki. En að nokkru fyrirtæki hafi verið fyrirskipað nokkuð um úthlutun arðs, sem sé undir vissu lágmarki, hefur ekki þekkzt.

Ég get þess vegna ekki annað en greitt atkv. á móti brtt. hv. 3. landsk. þm.

Mér hefur ekki getað skilizt það, þótt því hafi verið haldið fram af hv. 1. þm. Eyf., og hv. 3. landsk. þm. komst a. n. l. inn á sömu hugsun, að enda þótt svo færi, sem vel má vera, að arðsúthlutun yrði minni vegna veltuskattsins, — það verður hún sjálfsagt —, að þá sé þar í raun og veru um verðhækkun að ræða. Ég benti á það við 1. umr., að það er ákaflega eðlilegt, að þeir menn, sem verzla í samvinnufélögum. taki á sig, að svo miklu leyti sem þeir fást við verzlun, sömu byrðar og kaupmenn verða að gera. Ég get ekki fundið neitt ranglátt í því. Hagnaður kaupmannsins minnkar um það, sem skattinum nemur. Og það er ekki nema eðlilegt, að hagnaður þeirra, sem verzla í samvinnufélögum, minnki í sömu hlutföllum. Um annað er vitanlega ekki að ræða. Vöruverðið á að haldast óbreytt. þó að skatturinn sé lagður á, þ.e.a.s. skatturinn á ekki að hafa nein áhrif á vöruverðið. Og þeir, sem verzla við kaupmenn, eiga að fá vörur nákvæmlega á sama verði og þeir ella hefðu gert, þótt skatturinn hefði ekki verið á lagður. Það eina, sem breytist, er, að arðsúthlutun minnkar. Og ég get ekki fundið, að það sé ranglæti í því, að það sama gangi yfir alla í því efni, sem hagnað hafa af verzlun.

Ég skal svo ekki, án frekara tilefnis, tefja umr. um þetta mál meira. Það væri mjög æskilegt, að hægt væri að koma því út úr hv. d. nú, áður en fundur byrjar í Sþ. Og till. mín er, að það verði samþ. óbreytt út úr þessari hv. d.