16.02.1945
Efri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (4943)

257. mál, veltuskattur

Jónas Jónsson:

Ég vil út af ummælum í ræðu hv. 3. landsk. um atriði, sem er sögulegt, minna hann á atriði, sem ég held, að hafi ekki verið nógu vel minnzt á áður. Hann segir, að það, sem hafi komið dýrtíðarflóðinu af stað, hafi verið verðlagning landbúnaðarafurðanna, sem ég ætla, að hafi verið um áramótin 1939–1940. Ég held, að ef hv. 3. landsk. hefði athugað, hvað gerðist fyrstu dagana í september 1939, og um það liggja fyrir glöggar skýrslur, þá gæti hann séð, hvar byrjunin var. Þá var gerð gífurleg kauphækkun, sem var byrjunin að þeirri kauphækkun, sem komst það langt, að kolamokarar komust upp í 70 þús. kr. á ári. Ég býst við, að hv. 3. landsk. hafi ekki borið ábyrgðina af því sérstaklega. því að það má segja, að þeir, sem þá voru í ríkisstj., beri ábyrgðina, en það virðist þó hafa verið í krafti forráðamanna sjómannanna, að allar þessar kröfur voru gerðar um hækkað kaup og fjölda manna á skipunum, t.d. að heimta, að þau hefðu ætíð allt þjónustufólk farþega, þó að engir farþegar væru á skipunum. Við gerum líka borið saman íslenzku skipin annars vegar og ensku og færeysku skipin hins vegar. Hvers vegna eru ensku skipin eftirsóknarverð? Og hvers vegna kom gróðinn til Eimskipafélagsins? Það var af því, að félagið fékk á leigu útlend skip, og á þeim græddi það allar þessar milljónir, um leið og tap var á íslenzku skipunum. (Menntmrh.: Hafa þeir lægra kaup í Ameríku en hér? ) Hæstv. ráðh. getur, ef hann vill, athugað gróða Eimskipafélagsins, ef hann veit þetta ekki. (Menntmrh.: Ég veit það ekki.) Hæstv. ráðh. hefur aldrei vitað neitt með vissu, þó að allir aðrir viti það. Það, sem hefði átt að vera upplýst fyrir löngu og var deilt um í Nd. í gær, er það, að Eimskipafélagið hefur rekið sín skip með tapi, meðan milljónagróði var fyrir útlendu skipin, af því að þau voru rekin öðruvísi. (BBen: Hver fékk þann gróða?) Það er annað mái. Hann fengum við. En þeir, sem þykjast bera hag sjómanna fyrir brjósti, þeir voru þarna búnir að spenna bogann svo hátt, að ekki varð við neitt ráðið, jafnvel ekki með stríðsfarmgjöldum. (Menntmrh.: Heldur hv. þm., að kaupið hafi gert þetta að verkum?) Vill hæstv. forseti gera svo vel að halda þessum manni í skefjum?

Ég get vel skilið, að það komi sér illa fyrir þá, sem búnir eru að halda því fram í mörg ár, að bændur hafi valdið mestu um dýrtíðarhækkunina. En þeir, sem mestu hafa valdið, voru leiðtogar sjómanna, sem fengu strax í stríðsbyrjun sprengt upp kaup, og ríkisstj., sem hélt áfram að leyfa hækkanir, svo að hásetar gátu komizt upp í 75 þús. kr. árstekjur í millilandasiglingum, og margt var eftir þessu. Nú er með nýjum launal. og öðru, sem hv. 3. landsk. styður með fleiri ágætum mönnum, lögð sú byrði á ríkissjóð, sem tvísýnt er, að hann fái lengi borið.

Út af því, sem hv. þm. Barð. sagði um kaupfélögin, vildi ég nefna til dæmis KEA með full 3 þúsund félagsmanna. Setjum svo, að þessi hv. þm. væri kaupmaður á Akureyri og hefði jafnmikla veltu og kaupfélagið. Þá mundi sá virðulegi kaupmaður hafa svipaðan arð og félagið, en munur er sá. að hans arður væri hans eign, en arður kaupfélagsins væri eign 3 þús. félagsmanna. Væri jafnréttmætt að taka þungan skatt af þessum 3 þús., sem eiga brot í arði félags, eins og af kaupmanninum, sem á allan hagnaðinn einn? Ég held ekki. En þannig er veltuskatturinn.

Þá segir hv. þm. Barð., að þar, sem hægt sé að leggja á 270 þús. kr. skatt, hljóti að vera af miklum hagnaði að taka og óhætt að taka hann. En þar sést aðeins árangurinn af samningi, sem gerður var 1942 af mönnum í tveim stærstu stjórnmálaflokkunum. Þess vegna þurfa kaupfélögin að borga stríðsgróðaskatt af sínum viðskiptum. Það er engin sönnun þess, að réttlátt sé, að þau borgi hann, þótt þau séu búin að því nú nokkur missiri vegna ranglátrar skattalöggjafar. Til þess að greiða slíka skatta verða kaupfélög annaðhvort að taka af varasjóðum sínum, og það væri lagabrot, eða leggja því meira á viðskipti félagsmanna, og er það beinn neyzluskattur. Svipað má segja um ýmsa matvörukaupmenn o.fl., sem haft hafa lága álagningu, að þeir verða ákaflega hart leiknir af veltuskattinum.

Ég hefði viljað heyra á hæstv. fjmrh., á hverju hann byggir það, að þessi skattur verði ekki framlengdur. Ég óska þess innilega, að sú von hans rætist. En hættan á því, að annan veg fari, er ein ástæðan til þess, sem mér finnst þm. verkalýðsflokkanna eiga vel að athuga, að sé búið að leggja á tekjur ársins 1945. er ekki hægt að leggja á þær öðru sinni, en hætt við, að aftur verði á þær lagt, ef skatturinn verður nú miðaður við 1944. Þess vegna ættu þeir að vera með því að miða við 1945.